• Orðrómur

Rut Kára veit allt um nýjustu trendin

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Í fyrsta tölublaði þessa árs fengum við fjóra sérfræðinga á sviði hönnunar til þess að fara yfir liðið ár og spá fyrir um strauma og stefnur ársins 2021.

Hér eru nokkur atriði sem Rut Káradóttir, innanhússarkitekt FHI, hafði um málið að segja en greinina í heild sinni má lesa í 01. tbl. Húsa og híbýla.

Hvað finnst þér hafa staðið upp úr í innanhússhönnun árið 2020?
Það er erfitt að fjalla um árið 2020 í innanhússhönnun án þess að tengja það við áhrif COVID á allt okkar daglega líf og starf. Ég er búin að starfa lengi í þessu fagi, en líklega hefur þetta ár verið það annasamasta frá því að ég hóf störf og slær jafnvel út uppgangstímana á árunum 2005-2008. Áherslan er reyndar önnur, því nú eru það heimilin sem eru í brennidepli og ekki bara hjá einhverjum litlum hópi, heldur hjá mjög stórum og ólíkum hópi. Það má segja að árið 2020 hafi verið „Ár heimilisins“ því það hefur bæði reynt mikið á það og fólk hefur gefið sér meiri tíma til að hlúa að því. Ég hef orðið vör við mjög aukinn áhuga fólks á innanhússhönnun, ekki bara gegnum starf mitt heldur heyri ég það líka frá verslunum og öðru fagfólki sem vinnur með húsbúnað, efni eða framkvæmdir á þessu sviði. Flestir tala um mikil umsvif og áhuga viðskiptavinanna.

- Auglýsing -

Það sem stendur því mest upp úr í hönnuninni á þessu ári finnst mér vera þetta breytta hlutverk heimilisins og hvernig taka þarf tillit til þess m.a. með því að gera skipulagið sveigjanlegra. Maður sér þetta strax í þeim verkefnum sem maður er með á borðinu, bæði við breytingar á eldra húsnæði og grunnhönnun á nýju húsnæði. Það á svo eftir að koma í ljós með tímanum hvort árið 2020 hafi verið tímapunktur þar sem þessi sýn og viðhorf breyttist varanlega.

Var eitthvað sem kom þér á óvart eða var eitthvað sérstakt sem stóð upp úr sem vakti sérstaka athygli þína og þá hvað?

Mér finnst eins og fólk sé opnara fyrir því að fara nýjar leiðir og sé móttækilegra fyrir nýrri nálgun í hönnun, s.s. með djarfara lita- og efnisvali. Held þetta eigi e.t.v. frekar við yngri kynslóðina sem mér finnst reyndar oft vera skynsamari þegar kemur að hönnun á heimilum en við sem eldri erum. Það er minna upptekið af því að einhverjir ákveðnir hlutir verði að vera á heimilinu, hvort sem það eru ákveðnir vasar eða apar sem hanga í hillu. Þegar kemur að grunnskipulagi vill yngra fókið nýta rýmin á annan og betri hátt. Það er t.d. ekki upptekið af því að vera með bílskúr fyrir bifreiðina eða verkfærin eða að vera með stóra stofu til að taka á móti gestum og horfa á sjónvarpið. Almennt finnst mér að fólk sé farið að skilja betur hugmyndafræðina um skýra heildarmynd í innanhússhönnun og vilji vinna með konsept sem höfðar til þess.

- Auglýsing -

Hvað nýjungar telurðu að komi sterkar inn 2021 þegar horft er til húsgagna, efnis, áferðar, lita og smámuna?

Ég vona svo sannarlega að út úr „kófinu“ verði hugarfarsbreyting varðandi það hvernig við sjáum heimili okkar og það verði sniðið að margþættari notkun. Við þurfum ekki að fylla heimilið af einhverjum hlutum sem eru í tísku en veltum betur fyrir okkur notagildi þeirra og hvernig þeir eru búnir til.

Varðandi efnisvalið á gamla „tuggan“ alltaf vel við, þ.e. að með því að velja náttúruleg og vönduð efni þá vitum við að þau standast betur tímans tönn og verða bara fallegri eftir því sem þau eldast og sjúskast. Vönduð efni og góð hönnun geta jafnvel nýst kynslóð eftir kynslóð. Mér finnst skilningur á þessu vera að aukast og myndi vilja sjá þróunina halda áfram í þá átt.

- Auglýsing -

Við höfum séð á árinu 2020 dýpri og djafari liti koma inn, t.d. hlýja jarðkennda rústrauða og gulbrúna tóna sem smátt og smátt eru að taka við kuldalegri tónum. Ég held að fleiri eigi eftir að stökkva með á þennan vagn á næsta ári. Ég sé þetta með svipuðum hætti og þegar maður byrjaði að vinna með gráu tónana, þá var fólk mjög tregt til að byrja með en tók svo við sér. Þeir sem ætla að vera kúl á því í dag og mála allt í gráu eru hins vegar algerlega ekki með puttann á púlsinum!

Hvað heldur velli og hvað ekki?

Mér finnst að mitt starf eigi að ganga út á að skila hönnun sem eldist vel, frekar en að eltast við einhverjar tískubylgjur eða trend. Góð, öguð grunnmynd og vandaðar innréttingar þurfa að taka mið af þörfum þeirra sem nýta rýmið en einnig þarf að vera auðvelt að gera breytingar ef þess þarf, svo sem ef fjölskyldan stækkar eða minnkar eða heimilið þarf að takast á við nýtt hlutverk. Mælikvarði á góða hönnun er að hún eigi að endast vel. Að velja náttúruleg og vönduð efni frekar en gerviefni á alltaf við. Náttúruefni standast betur tímans tönn og verða jafnvel fallegri eftir því sem þau eldast, t.d. getur vandað parket lifað mann af, á meðan plastparketið (eða hvaða nafni menn kalla það) er orðið ljótt eftir nokkurra ára notkun.

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -