Sæja, innanhússhönnuður, fer yfir strauma og stefnur 2021

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sæbjörg Guðjónsdóttir eða Sæja eins og hún er jafnan kölluð, innanhússhönnuður, var ein af þeim sem fór yfir árið með okkur í Húsum og híbýlum. Hér eru nokkur atriði sem Sæja hafði að segja.

Telur þú að árið 2020 hafi breytt hugarfari fólks varðandi heimilið? Klárlega hefur það gert það. Vegna COVID höfum við þurft að vera mun meira heima en vanalega og því mikilvægt að heimilið sé griðastaður en einnig að skipulag heimilissins sé gott. Það að rými geti sinnt mismunandi þörfum og séu breytileg er orðið enn mikilvægara en áður.

Hvar finnst þér mesta gerjunin í íslenskri hönnun eiga sér stað? Ég myndi segja að mesta gerjunin sé í myndlist – en ég finn að fólk og þá líka yngra fólk er farið að hafa mun meiri áhuga að fjárfesta í hvers konar list og ég fagna því. Ég tengi það við það að heimili eiga það til að vera oft svolítið einsleit og því getur myndlist sett mikinn svip á heimili og gert þau persónulegri fyrir vikið.

Hvaða nýjungar telurðu að komi sterkar inn 2021 þegar horft er til húsgagna, efnis, áferðar, lita og smámuna? Það er svo margt í gangi sem er alltaf gaman og flestir geta tengt við eitthvað. 80´s áhrifin koma sterk inn með mjúkum línum, þar sem málmi, gleri og marmara eða travertínefni er blandað saman. Beige-tónar og aðrir litatónar í þá áttina með gulum og rauðum undirtónum koma sterkir inn. Áferðin heldur áfram að skipta máli, ég tengi það við leit okkar til að tengjast náttúrunni og fá hana inn til okkar. Leir, travertín, viður, reyr, ull, hör, rúskinn og áklæði eins og bouclé-áklæði er eitthvað sem við munum sjá enn meira af. „Grandmillennial” er stíll sem talað er mikið um núna. Unga fólkinu er umhugað um umhverfið og það er farið að endurnýta meira, því er talað um „ömmuheimili“ en á nýstárlegan máta. Það er mjög skemmtilegt að fylgjast með því. Vönduð húsgögn sem eldast vel er eitthvað sem við ættum að hugsa meira um. Ekki henda öllu og kaupa alltaf allt nýtt eftir nýjustu tísku, heldur safna aðeins lengur og kaupa vandaða hluti sem endast eða endurnýta eldri hluti. Við það verður heimilið persónulegra.

Hvað heldur velli og hvað ekki? Flauelið fer minnkandi enda komið á allt og þá er komið gott. Það dettur ekki alveg út en verður mattara en áður og meira í bland við önnur efni sem er alltaf betra. „Layering“ efna er málið. Kaldir gráir tónar eru svo gott sem búnir. Eins að festast í einni tegund af málmi eins og messing eða stáli – að blanda saman kemur mun betur út.

Hvað þætti þér áhugavert að sjá á sviði innanhússhönnunar á nýju ári? Þverfaglegt samstarf er eitthvað sem mér finnst spennandi og alltaf gaman að sjá þegar slík sambönd verða.

Hver telurðu að sé helsta áskorunin fyrir hönnuði og arkitekta á næstu árum? Húsnæði er orðið dýrt og fer því minnkandi. Það er viss áskorun að koma með góðar lausnir og hugsa heimilið upp á nýtt út frá því. Eins er umhverfisvernd eitthvað sem við þurfum að huga sem best að og enn meira á komandi árum. Endurunnin efni og endurnýting.

Greinina í heild má finna í 1. tölublaði þessa árs. 

Hús og híbýli er fagtímarit um heimili, hönnun, arkitektúr og listir. Lögð er sérstök áhersla á gæði bæði hvað varða efnistök og myndir. Blaðið fæst í öllum helstu matvöruverslunum og bókabúðum en einnig er hægt að gerast áskrifandi í vefverslun.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -