2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Siðferðislega þenkjandi listamaðurinn

  Stefán Yngvi, eða Styngvi eins og hann kallar sig, er ungur og upprennandi listamaður sem brennur fyrir baráttumálum umhverfis okkar og plánetu. Veganismi spilar veigamikinn þátt í verkum hans og að hans sögn gerir hann mikið af teikningum sem snúa með einhverjum hætti að útrýmingu dýra, plastmengun í sjónum og hlýnun jarðar. Stefán Yngvi er með grunn í grafískri hönnun auk þess sem hann hefur starfað sem forritari. Nú hefur hann hinsvegar tekið listina föstum tökum og starfar að fullu við það í dag af mikill ástríðu.

  Mynd / Hallur Karlsson

  Hvernig listamaður ertu? Ég myndi kalla sjálfan mig siðferðislega þenkjandi listamann. Ég nýti listhæfileika mína til að koma mikilvægum baráttumálum umhverfis okkar og plánetu á framfæri. Á ensku er „artivism“ skemmtilegt heiti yfir þetta en ég get ómögulega þýtt það vel yfir á íslensku. Með list minni reyni ég að skapa umræður í kringum stór og flókin vandamál í heiminum og gera þau sýnilegri í hversdagslífi á einfaldan og jákvæðan hátt.

  Hvernig verk gerir þú aðallega og fyrir hvað? Ég geri mikið af teikningum sem tengjast á einhvern hátt útrýmingu dýra, ofhitnun jarðar og plastmengun í sjónum. Vegan-þema á líka stóran sess í mínum teikningum en ég lít á veganisma sem besta lífsstíl fyrir plánetuna, okkur sjálf og náttúrlega dýrin sem við deilum þessari plánetu með.

  Mynd / Hallur Karlsson

  AUGLÝSING


  Hvaðan færðu innblástur? Ég fæ minn innblástur úr dýraríkinu, náttúrunni og hafinu. Ég ber mikla virðingu fyrir öllum dýrum og jörðinni og finnst sárt að horfa upp á það hvernig farið er með dýr og náttúruna út af græðgi mannkynsins. Í staðinn fyrir að vera bitur yfir ástandinu nýti ég minn tíma og hæfileika í að reyna að fá fólk til að átta sig á stöðu mála og hvetja til grænni lífsstíls.

  Hvaða litir og form heilla þig mest? Ég nota mest grunnform og lítið af litum í mínum teikningum. Flestar þeirra eru svarthvítar nema í sumum tilfellum þegar ég bæti við lit til að vekja athygli á einhverju sérstöku, eins og til dæmis grindardrápi í Færeyjum. Þá litaði ég hafið í teikningunni minni rautt.

  Hefur þú alltaf haft gaman að því að teikna? Já, frá því ég var barn hef ég verið teiknandi. Það voru engir snjallsímar eða spjaldtölvur þegar ég var lítill þannig að í staðinn var ég alltaf með blað og blýant fyrir framan mig.

  Mynd / Hallur Karlsson

  Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér? Ég lít mikið upp til annarra listamanna sem nýta hæfileika sína í að vekja athygli á svipuðum málefnum. Þar má nefna Laura Klinke, Kerby Rosanes og Anna Stead.

  Hvar fást myndirnar þínar? Eins og er sel ég bara á Netinu úr minni eigin netverslun. Það má einnig hafa beint samband við mig í gegnum Facebook en ég er að vinna í því að selja verkin mín mögulega í verslunum í Reykjavík.

  Ertu mikið jólabarn? Já, ég finn alltaf fyrir tilhlökkun fyrir jólin. Mér finnst svo notalegt að eiga góða stund með fjölskyldu og vinum, borða hátíðarmat og horfa á þessar klassísku jólamyndir uppi í sófa.

  Uppáhaldsjólahefðin? Home Alone-myndin startar alltaf jólunum hjá mér.

  Hvaða jólalag kemur þér í jólagírinn? Ég er mikill Bing Crosby-aðdáandi. Klassísku lögin hans koma mér alltaf í gott jólaskap.

  Mynd / Hallur Karlsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is