Skemmtilegra að tefla við páfann núna

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Teiknarinn Rán Flygenring ákvað að nýta tímann í samkomubanni í að hressa upp á baðherbergið sitt á skemmtilegan hátt með svartri línuteikningu.

Innblásturinn fékk hún þegar hún rambaði inn á tehús, í strandbænum Kamakura sunnan við Tokyo, sem heitir Teaven Kamakura. „Þar var notuð blá og mjög létt lína, en eftir það hef ég rekist á nokkrar útgáfur af sama konsepti á netinu, á 2d Café í Tokyo og Seoul,” tekur Rán sem dæmi.

Rán segir tíma kominn til að taka baðherbergið í gegn og þess vegna hafi henni þótt tilvalið að hressa upp á það með málningu í millitíðinni. „Baðherbergið er orðið dálítið lúið og planið er að gera það upp á árinu. Við komum til landsins fyrir rúmum tveimur vikum og þar sem bæði sundlaugarnar eru lokaðar og ég er í sóttkví hef ég þurft að nota þetta baðherbergi meira en nokkurn tímann áður. Ég varð bara að gera eitthvað fyrir það. Það er klárlega í það minnsta skemmtilegra að tefla við páfann núna.“

Mynd / Sebastian Ziegler

Gæti þurft að bæta við römmum

Rán tók tvo daga í að mála rýmið en á nokkur smáatriði eftir. „Ég var með þetta á heilanum í tvo daga og gerði mjög lítið annað en að mála. Ég á þó enn eftir að velja verk í nokkra ramma og mögulega bæta við einhverjum smáatriðum,“ segir Rán þegar hún er spurð hvað verkefnið tók langan tíma.

Mynd / Sebastian Ziegler

Rán á enn eftir að mála inn í nokkra ramma á veggjum baðherbergisins. Hún kallaði eftir hugmyndum frá fólki í gegnum Instagram-síðuna sína. „Ég er búin að fá slatta af algjörlega frábærum hugmyndum, flestar eitthvað tengt listasögunni og/eða nekt. Ég gæti þurft að bæta við römmum til að koma þessu öllu fyrir,“ útskýrir Rán.

Mynd / Sebastian Ziegler

Hún segist vera nokkuð sátt við úkomuna og að ferlið hafi verið skemmtilegt. „Þetta var stórkostlega gaman að dútla við þetta með rauðvín í glasi og tónlist í eyrunum, og ákveðinn léttleiki yfir því að gera svona verkefni fyrir sjálfan sig án nokkurrar útkomupressu. Svo smíðaði ég líka frekar skakkan „squatty potty” með klósettrúlluhaldara, hann gleður mig enn ógurlega,” segir Rán.

Kærasti Ránar, ljósmyndarinn Sebastian Ziegler, tók meðfylgjandi ljósmyndir af baðherberginu.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

„Eins og ég sé að taka þessar tilfinningar og skilja þær eftir á rammanum“

„Þemað er þunglyndi, þetta eru frekar svört verk,“ segir myndlistarmaðurinn Kris Helga um verkin sem hán sýnir á sýningunni Hugarmyrkur sem opnar á laugardaginn...

Úr listaverki í ramma yfir í húsgagn

Línan The Piece Furnature frá Craft Combine er einstaklega sniðug en í línunni eru einskonar púsluspil sem þjóna bæði því hlutverki...