2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Smíðanámið tendraði nýjan áhuga á byggingarlist og hönnun

  Bergsteinn Sigurðsson fjölmiðlamaður sat fyrir svörum í 3. tbl. Húsa og híbýla þessa árs. Bergsteinn er með BA-próf í sagnfræði og stjórnmálafræði og starfar í dag sem umsjónarmaður Menningarinnar og Vikulokanna á RÚV.
  Hér birtast nokkur vel valin svör.

   

  Hver er Bergsteinn? Fertugur fjölskyldufaðir, fjölmiðlamaður og smíðanemi.

  Hvaðan ertu? Fæddur og uppalinn á Patreksfirði.

  Hvaða hlut langar þig mest að eignast um þessar mundir? Myndarleg veltisög, afréttari, þykktarhefill og pússband væru sannkölluð himnasending.

  AUGLÝSING


  Hvaða form listar er í uppáhaldi hjá þér? Bækur, bíó og tónlist hafa fylgt mér lengst en myndlistin kannski verið í mestri sókn síðustu ár.

  Skiptir menning máli? Já. Hún heldur kannski ekki í okkur lífinu en gerir það hins vegar þess virði að lifa því.

  Hvað er það skemmtilegasta við starfið þitt? Að komast í kynni við fjölbreyttari list og listamenn en ég kæmist nokkurn tímann yfir utan vinnutíma og að fá tækifæri til að miðla því til annarra.

  Fallegasta bygging erlendis? Mannvirkjaklasinn sem Feneyjar eru tekur öll skilningarvit traustataki þegar maður kemur þangað og sleppir ekki fyrr en við brottför.

  En á Íslandi? Friðþjófshús, Urðargata 2 á Patreksfirði. Einstakt hús á besta stað í bænum. Má muna fífil sinn fegurri en bíður þess að einhver taki til hendinni og endurreisi það til fornrar frægðar.

  Uppáhaldshlutur? Gyllt vasaúr sem ég erfði eftir afa minn sem ég er skírður í höfuðið á.

  Ertu safnari? Myndlist er það eina sem ég safna skipulega núorðið.

  Hvað gerirðu þegar þú vilt gera virkilega vel við þig? Skrái mig í smíðanám.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is