Stefán Svan verslunarmaður situr fyrir svörum – „Mamma mín kenndi mér allt sem ég veit um tísku”

Deila

- Auglýsing -

Stefán Svan verslunarmaður rekur Stefánsbúð/p3 í miðbæ Reykjavíkur ásamt Dúsu Ólafsdóttur. Þar selja þau hágæða tískufatnað frá hönnuðum á borð Henrik Vibskov, MM6 Maison Margiela og Katharine Hamnett auk fylgihluta fyrir heimilið.

Nú nýlega hönnuðu þau boli í samstarfi við Hamnett og rann allur ágóði af sölunni til Kvennaathvarfsins. Við fengum Stefán til þess að svara nokkrum léttum spurningum í Húsum og híbýlum á liðnu ári og birtum hér nokkur vel valin svör.

 1. Fallegasta bygging í heimi? Af mörgu fallegu að taka en ég æta að segja Ráðhúsið í Reykjavík, það er róandi að vera þar inni og horfa yfir tjörnina og á endurnar.
 1. Hvaða hlut langar þig mest að eignast um þessar mundir? Mig langar í nýja brauðrist því mín gamla er hætt að virka sem skyldi.
 1. Hvaða bók eða bækur hafa hreyft við þér? 50 years at Gombe eftir Jane Goodall, stórkostleg og merkileg kona.
 1. Uppáhaldsstaður á Íslandi? Systir mín býr á Höfn og ég þreytist ekki á fegurðinni þar, jökullinn fjöllin og strendurnar eru töfrum líkast.
 1. Í hvaða rými í þínum húsakynnum líður þér best? Mér líður mjög vel við eldhúsborðið, þaðan er útsýni yfir sjóinn og Esjuna og hægt að stara út tímunum saman.
 1. Hvernig eða hvar hleðurðu batteríin? Ég kann mjög vel við að vera heima hjá mér þegar ég þarf á hvíld að halda en svo er dásamlegt að komast á heita strönd við tæran sjó.
 1. Hver er þinn uppáhaldshönnuður? Henrik Vibskov og Katharine Hamnett tvímælalaust, frábærir hönnuðir sem láta umhverfi og samfélag sig varða.
 1. Fyrsta tískuminning? Mamma mín kenndi mér allt sem ég veit um tísku og fór ég mikið með henni í búðir, svo horfði maður auðvitað á ársgamla Fashion Television með Jeanne Beker á RÚV.
 1. Uppáhaldslitur? Ætli ég noti sjálfur ekki dökkbláan mest en bleikur er í uppáhaldi.
 1. En uppáhaldsflík? Svartur bómullarsamfestingur frá Henrik Vibskov sem ég nota endalaust.
 1. Ertu safnari? Já ég er það í eðli mínu en reyni að berjast á móti því. Hef ekkert gott af því að safna dóti í kringum mig.
 1. Listamaður eða -kona sem þú heldur upp á? Hrafnhildur Arnardóttir Shoplifter er uppáhaldslistamanneskjan mín.
 1. Áttu þér uppáhaldssafn? Ég nýt þess hér heima að fara á Þjóðminjasafnið, það er friðsælt og notalegt og svo er ofsalega gaman að heimsækja Guggenheimsafnið í New York.
 1. Ef þú ættir eina ósk? Heimsfriður og jafnrétti fyrir alla.
 1. Hvernig væri draumaheimilið? Ég bý eins og mig gæti best dreymt en í framtíðinni ætla ég að búa í litlum bústað í sveit með hunda, ketti og endur.
- Advertisement -

Athugasemdir