Stiginn klæddur mismunandi mottum sem tók heilt ár að safna

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Í fagurbláu húsi undir Eyjafjöllum hafa þau Fríða Jónsdóttir og eiginmaður hennar, Guðmundur Tómasson, búið sér fallegan íverustað. Húsið var byggt um 1945 og var upphaflega notað sem kennarabústaður. Árið 1958 keypti faðir Fríðu húsið og byggði við það, sem varð þá um 200 fermetrar að stærð.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Fríða ólst upp á þessum stað og eftir fráfall föður hennar gaf móðir Fríðu henni og bróður hennar húsið auk 12 hektara landsvæðis þar í kring. Árið 2017 ákváðu systkinin að skipta landinu á milli sín og gaf bróðir Fríðu henni sinn hlut í húsinu. Bláa húsið stendur á miðju svæðinu, snoturt á að líta og er aðkoman notaleg. Umhverfið er gróðursælt og hrífandi útsýni fangar augað á marflötu svæðinu þar sem fjallgarðurinn er umfaðmandi allt um kring. Fríða hefur lengi verið viðloðandi sölu á antíkmunum og rak verslunina Hús fiðrildanna um nokkurra ára skeið. Sumarhúsið ber þess glöggt merki en húsið er hlaðið einstökum munum héðan og þaðan, litagleðin er við völd og eru þau hjónin óhrædd við að fara eigin leiðir.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Húsið hefur „lifað“ tímana tvenna og var nokkuð illa farið þegar Fríða og Guðmundur tóku við. Þakið fauk til að mynda tvisvar af með tíu ára millibili en að sögn Fríðu getur veðurofsinn verið mikill undir fjöllum. „Eftir seinna skiptið ákvað ég að gera húsið upp og það var auðvitað ekki hægt nema maðurinn minn myndi samþykkja það. Þetta var svolítið eins og að fara á hnén og biðja hann að giftast mér og sem betur fer sagði hann skýrt já.“ „Uppbyggingin á húsinu hefur verið gerð í nokkrum hlutum og alltaf eitthvað á hverju ári. Vinir og fjölskylda hafa átt stóran þátt í því og auðvitað smiðurinn okkar hann Jón. Að gera upp gamalt hús er eilífðar verkefni, það geta verið hnökrar á ýmsu og þegar eitthvað á að vera lítið mál verður það yfirleitt aðeins umfangsmeira en ráð gera fyrir, en þetta er gert af mikilli ástríðu og er gleðin mikil við hvern áfanga.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Stiginn sem gengur upp á efri hæðina er klæddur mottum sem tók Fríðu ár að safna. „Stiginn var stórmál, það tók okkur hjónakornin viku að hreinsa gamla teppið af en það var límt með jötungripi á sínum tíma og ekki var það minna mál að koma nýju teppi á. Eftir að hafa safnað mottum í ár og sníða þær var gamla sterka jötungripið notað og ég ætla ekkert að fara nánar út í það, en við erum enn þá hjón,“ segir Fríða og hlær.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Innlitið birtist í 7. tbl. Húsa og híbýla, 2020.
Tryggðu þér áskrift að Hús og híbýli í vefverslun

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira