Stílhreint og stællegt

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Í nýlega byggðu húsi í Kórahverfinu býr Ólöf Þóra ásamt manninum sínum Jóni Guðna og þremur börnum.

 

Þau fluttu til útlanda fyrir átta árum síðan og eru í dag með annan fótinn hér heima og hinn í Rússlandi. Jón er atvinnumaður í fótbolta og þau hafa því verið á faraldsfæti. Ólöf segir þau reynslunni ríkari eftir marga flutninga síðustu ár og er hún orðin töluvert meðvitaðri um kaupin sem hún gerir.

Íbúðin er 127 fermetrar að stærð .

Mikill hraði í fótboltaheiminum

Ólöf Þóra.

Íbúðina fengu þau afhenta í mars 2019. Fyrst ætluðu þau að fjárfesta í íbúð á Íslandi aðeins til þess að hafa aðsetur þegar þau kæmu heim í frí en ekki til þess að búa í henni. „Við vorum orðin svolítið þreytt á því að vera inni á öðrum þegar við komum heim en við höfum verið að koma svona einu sinni til tvisvar á ári.“

Áður bjuggu þau í Belgíu og voru svo í Svíþjóð í sjö ár áður en þau fluttu til Rússlands, en það gerðist allt mjög hratt, að sögn Ólafar. Á tveimur dögum var Jón Guðni farinn til Rússlands og Ólöf og börnin urðu eftir í Svíþjóð.

„Ég gekk frá öllu í húsinu okkar í Svíþjóð og seldi meira og minna alla búslóðina, fór svo aðeins heim til Íslands og svo fluttum við út til Rússlands. Við vorum þar öll allt haustið þangað til í desember. Ég ætlaði mér að búa þarna áfram en svo í janúar ár hvert fer liðið alltaf í æfingaferð og þeir eru yfirleitt allan janúar og febrúar í burtu.

Mynd / Hallur Karlsson

Ég og börnin fórum með í þá ferð en í ferðinni fórum við að hugsa hvort við þyrftum ekki að eiga íbúð á Íslandi og fórum þá að skoða það fyrir alvöru. Við duttum svo niður á þessa íbúð, ég rétt náði að koma að skoða hana í stoppi hér heima og við ákváðum að skella okkur á hana.“

Húsið var byggt 2018 og því ekkert sem þurfti að gera. Umhverfið heillaði þau, þau eru í mikilli nálægð við náttúruna og að sögn Ólafar er hverfið rólegt, margar barnafjölskyldur og allt við hendina.

Ólöf mælir með því að vera með færri hluti í takinu og losa sig við það sem ekki er notað..

Breytilegur stíll

Sjálf segir Ólöf að henni hafi alltaf þótt mjög mikilvægt að búa sér til sitt eigið heimili sama hvar hún er í heiminum og sama hversu lengi hún er á staðnum. „Ég hef gert það í Belgíu, Sundsvall, Norrköping og í Rússlandi. Við fluttum í risastórt hús í Rússlandi og þar gerði ég mestallt ein. Fór ófáar ferðirnar í IKEA en ég lærði það svolítið eftir að ég var í Svíþjóð og þurfti að selja allt okkar, að kaupa aðeins ódýrara meðan við værum enn úti. Nú vil ég frekar eyða peningum í íbúðina okkar á Íslandi en það var ekki þannig áður því ég hafði ekki fengið löngunina til að flytja heim.“

„Ég þarf alltaf að hafa hreint og huggulegt í kringum mig, annars þrífst ég ekki.“

Ólöf segir stílinn ekki endilega vera fyrirfram ákveðinn: „Ég hugsa ekki mikið áður en ég kaupi en samt einhvern veginn veit ég hvað ég er að gera. Ég er meira fyrir það sem er hrátt og stílhreint. Ég þarf alltaf að hafa hreint og huggulegt í kringum mig, annars þrífst ég ekki. Eins vil ég ekki hafa of mikið af hlutum en ég á fullt af smáhlutum inni í skáp sem ég skipti regulega út.“

Meðvituð um kaupin

Ólöf segist reynslunni ríkari eftir að hafa búið lengi erlendis og þurft að flytja ört. „Við höfum lært mikið hvað nýtist manni og hvað maður vill eiga í gegnum flutninga. Í dag kaupum við okkur frekar færri hluti og vandaðri – það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að það endist, í hverju sem þú gerir.“

Ólöf segir þau hjónin vera samtaka þegar kemur að heimilinu. „Ég hringi yfirleitt alltaf í hann og ber undir hann það sem mig langar að kaupa og hann lætur mig svolítið ráða ferðinni.“

Mynd / Hallur Karlsson

Spurð út í gott innanhússráð mælir Ólöf með því að vera með færri hluti í takinu og losa sig við það sem ekki er notað.

„Í staðinn fyrir að fylla öll rými af dóti sem er mismikið notað, leyfðu þá öðrum frekar að njóta góðs af því. Við höfum séð það vel með öllum þessum flutningum hvað skiptir máli en á sama tíma er ótrúlegt magn af dóti sem safnast upp og fylgir manni. Ég féll sífellt fyrir einhverjum smáhlutum sem enduðu svo bara inni í skáp. Nú kaupi ég ekki það sem ég veit að ég mun ekki koma til með að nota eða veit ekki hvar ég á að setja. Ég er farin að sjá hvað það er sem manni þykir vænt um og flytur með sér aftur og aftur á milli landa.“

Ólöf segir þau hjónin vera samtaka þegar kemur að heimilinu.

Mynd / Hallur Karlsson

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -