Svona býrðu til fallegan myndavegg

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Falleg mynd á vegg getur sett mikinn svip á rými og raunar geta myndir leikið stórt hlutverk í innanhússhönnun og þá skiptir litlu hvort um eina stóra mynd sé að ræða eða margar litlar. Sumir veggir þola stórar og íburðarmiklar myndir á meðan aðrir kalla á litlar myndir eða tvær meðalstórar saman, allt fer þetta eftir rýminu og stílnum sem fólk vill hafa í sínum híbýlum. Það virkar ekki flókið að hengja upp myndir en samt virðist það vefjast fyrir mörgum. Í raun er athöfnin sjálf kannski ekki svo ýkja flókin ef til er góður hamar og nagli á heimilinu en það er þó ýmislegt sem vert er að hafa í huga svo að útkoman verði sem best.

Nagli
Þegar allt er ákveðið er gott að merkja svæðið með blýanti þar sem á að bora. Mikilvægt er að hafa þyngd myndar í huga þegar nagli eða festingar eru valdar, sumar myndir eru þungar og jafnvel gamlar og þá getur verið ráð að setja nýjar festingar sitthvorum megin til hliðar á myndina og strengja vír yfir sem er svo hengdur á voldugan nagla. Einnig er mikilvægt að skoða vegginn sem bora á í, er hann til dæmis gifsveggur sem þolir ekki mikinn þunga eða er um að ræða útvegg sem getur verið erfitt að negla í? Einnig getur verið ráð að leita annarra lausna ef hengja á til dæmis myndir á flísar, þá getur verið betra að fá litla límsnaga sem halda vel þunganum en gera ekki gat í flísina. Naglar eru ekki bara naglar þeir eru til í ýmsum stærðum og gerðum og sumir eru sérhannaðir til að fara í útveggi á meðan aðrir eru fínir í tréveggi. Í einhverjum tilfellum getur verið nauðsynlegt að bora í veggi til að stórar og þungar myndir séu tryggilega festar og vert er að hafa í huga að við búum á ævintýraeyjunni Íslandi þar sem alltaf er von á nokkrum hressilegum jarðskjálftum til að skemmta okkur og því mikilvægt að allt sé kirfilega fest. Þeir sem eru oft að breyta og færa myndir ættu að íhuga að hafa myndahillur, þá þarf minna að negla, sparsla og mála en samt alltaf hægt að vera að færa til og breyta.

Uppröðun
Myndaveggir með nokkrum myndum eða listmunum eru vinsælir en þeir krefjast þess að þeim sé fallega raðað saman á vegginn þar sem bæði er tekið tillit til rýmis og stærða og gerða myndanna og þá gildir ekki endilega augnhæðareglan um allar myndirnar. Áður en rokið er af stað og neglt í vegginn er brýnt að vera með plan um hvernig myndirnar eiga að raðast saman. Best er að gera skissu eða taka mynd af veggnum og reyna að raða formunum inn í myndina, sem sagt máta. Gott er að afmarka svæðið sem myndirnar eiga að fara á með málningarlímbandi svo að þær dreifist ekki á of stóran flöt og verði of langt á milli þeirra. Litir og form myndanna skipta einnig máli þannig að útkoman verði sem fallegust. Hafið í huga að hengja eina mynd á suma veggi, kannski tvær í sömu stærð á annan og jafnvel nokkrar mismunandi á þriðja til að fá fjölbreytni í rýmið. Litlar myndir geta stundum verið svolítið útundan, of litlar á heilan vegg til dæmis. Þá gæti verið ráð að hengja litla mynd með annarri stórri, undir henni til hliðar, þannig tala myndirnar saman. Veggir með mörgum myndum geta verið skemmtilegir en passið samt að leyfa hverri mynd að njóta sýn og ofhlaðið ekki.

Hæð
Sennilega er algengasta vandamálið að myndir séu hengdar of hátt á veggina en þumalputtareglan er sú að miðja myndarinnar sé í augnhæð húseigenda en það getur verið erfitt ef mikill hæðamunur er á sambýlingum og þá er best að nota almenna skynsemi og fara einhvern milliveg. En stærð myndarinnar getur líka haft áhrif á hæðina, ef myndin er mjög stór myndi hún ef til vill ná langt niður í gólf ef ofangreindri aðferð er fylgt og þá er góð regla að hafa myndina u.þ.b. 1,50 m frá gólfi en það er svipað og gert er á listasöfnum. Best er að láta húsgögnin í rýminu stjórna svolítið ferðinni þegar staðsetning fyrir mynd er valin. Samhljómur þarf að vera á milli myndar og þess húsgagns sem hún hangir yfir. Þegar mynd eða myndir eru hengdar yfir sófa er gott að hafa í huga að höfuð þeirra sem sitja í sófanum snerti ekki myndina og því er gott að miða við að neðsti hluti myndarinnar nái ekki neðar en 30 cm frá efstu brún sófabaksins. Eins ættu litlar myndir ekki að vera hengdar ofarlega í stór rými eins og stigagang þar sem hátt er til lofts, þá gæti lítil mynd virkað eins og krækiber í helvíti eða þannig.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -