Hillur eru sennilega til á öllum heimilum enda eru þær gagnlegar til að geyma ýmislegt dót og til að leggja frá sér hluti og svo geta þær verið ótrúlega fallegar ef vel er í þær raðað. Það getur aftur á móti vafist svolítið fyrir mörgum að raða saman allskonar hlutum og stundum getur verið svolítil áskorun að stilla öllu upp svo það sér praktískt en í senn fallegt. Hér eru nokkrar myndir af hillum á heimilum Íslendinga sem gleðja augað og geta gefið hugmyndir um hvernig er hægt að raða.
Klassísk hansahilla, hér eru það ekki bara hlutirnir sem skipta máli heldur er skemmtilegt hvernig hillan er fest á vegginn og látin dreifa úr sér. Svart og hvítt leikur stórt hlutverk í þessari uppröðun og einfaldleikinn gefur léttan tón.
Falleg brún og svört hilla, takið eftir hversu vel hlutirnir tóna við hillulitinn. Einfalt, smekklegt og smart.
Stór bókahilla eins og þessi getur verið þung ef einungis er raðað í hana bókum og þess vegna kemur vel út að blanda saman skrautmunum og bókum. Einnig er fallegt að láta bækurnar snúa á mismunandi vegu.
Hér er lítil hansahilla á vegg þar sem smekklega hefur verið raðað en náttúrulegir tóna ráða ríkjum og litlar plöntur gefa hlýlegt og fallegt yfirbragð.
Hillur eru mismunandi hér er 8 hólfa hilla fest neðarlega á vegg og kemur því að sumu leyti í staðinn fyrir kommóðu eða skenk. Fallegt er að blanda saman bókum og blöðum í hólfin en skilja sum eftir fyrir aðra léttari hluti. Smart er að hafa lampa eins og hér er gert.
Töff og létt hansahilla, þar sem nýju og gömlu er teflt saman.
Svört og brún hilla þar sem raðað hefur verið í látlausum litum á einfaldan máta. Smart og praktískt að stilla myndavélunum upp sem skrauti í hilluna.
Vegghilla þar sem svörtu, hvítu, brúnu og grænu er blandað saman. Svarthvítar myndir eru töff og oft og tíðum gefa þær listrænt yfirbragð.
Hillur geta verið allskonar og hér eru þær í fallegum gömlum skáp. Bækurnar í skápnum eru allar í glæsilegu gömlu bandi og prýði í sjálfu sér en það er afar fallegt að hafa kertin og munina efst.
Lítil og létt hilla við enda eldhúsborðs þar sem einfaldleikinn ræður ríkjum en skemmtilegt er hvernig blómin á borðinu kallast á við kertin í hillunni. Gamla klukkan er burðarstykkið enda mikil prýði í sjálfu sér og persónulegar myndir setja einnig svip á hilluna.