Sýning Ragnars Axelssonar ljósmyndara, Þar sem heimurinn bráðnar / Where the World is Melting, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, laugardaginn 30. janúar. Þó er ekki um formlega opnun að ræða vegna fjöldatakmarkana.
Eins og fram kemur á vef listasafnsins hefur Ragnar Axelsson myndað fólk, dýr og landslag afskekktustu svæða norðurslóða, þar með talið hér á landi, á Grænlandi og í Síberíu. Nú vinnur hann að því að víkka sjóndeildarhringinn enn frekar og ferðast víða í leit sinni að myndefni. Í verkum sínum endurspeglar hann óvenjuleg tengsl íbúa norðurslóða við öfgakennt umhverfi sitt og þau tengsl sem eru stöðugt að breytast fyrir tilstilli loftslagsbreytinga. Þá skrásetur Ragnar hvernig slíkar breytingar hafa áhrif á líf fólks og dýra og hvaða ógn býr að baki hlýnun jarðar.
Sýningin stendur til 9. maí 2021.
Safnið er til húsa að Tryggvagötu 17 og er opið alla daga frá 10.00-17.00, lengri opnunartími er á fimmtudögum eða til klukkan 22.00.