Það þarf ekki að eiga allt til að njóta

Deila

- Auglýsing -

Leiðari úr 6. tölublaði Húsa og híbýla

Fyrsta íbúðin sem ég flutti í eftir að hafa yfirgefið foreldrahreiðrið var í 15 hæða blokk í 11. hverfi Parísarborgar. Þetta var engin höll, u.þ.b. 30 fermetra eins herbergis íbúð sem ég leigði með vinkonu minni en báðar vorum við í Sorbonne-háskóla og höfðum því ekki mikið fé á milli handanna. Leitin að íverustað hafði tekið rúman mánuð og á þeim tíma flökkuðum við á milli ódýrra hótelherbergja. Við þóttum heppnar að ná þessu sloti og vorum afar ánægðar í þá sjö mánuði sem við bjuggum þarna þrátt fyrir blettóttu teppin, rifna strigann á veggjunum, agnarsmáa eldhúsið sem ekki var hægt að skipta um skoðun í og jafnvel appelsínugula baðherbergið vandist. Ekki einu sinni litla mauraröndin sem lá með stofuveggnum og út á svalir pirraði okkur. Húsgögnin, ef húsgögn skyldi kalla, fylgdu íbúðinni og við máttum ekki negla í veggina. Við gerðum samt huggulegt í kringum okkur, hengdum upp póstkort og teikningar, kveiktum á kertum og lögðum fallega á borð. Stundum þurfti ekki meira en einn lítinn blómvönd í glasi til að gera þetta fábrotna rými fallegt. Neyðin kennir naktri konu að spinna.

Á sama tíma hreifst ég af fegurð Parísar enda var skemmtilegasta fagið í skólanum einmitt frönsk lista- og menningarsaga. Ég dáðist að stórfenglegum mannvirkjum borgarinnar hvort sem voru gotneskar kirkjur, gamlar brýr, nútímabyggingar, sigurbogar, súlur eða einfaldlega inngangarnir í neðanjarðarlestirnar, Metro. Heimsóknir mínar á söfn urðu nokkuð margar á þessum tíma og þannig nærði ég sálina og fékk útrás fyrir fagurkerann í mér. Ég er þeirrar skoðunar að maður þurfi ekki endilega að eiga allt til að njóta, þarna átti ég enga peninga til að kaupa mér húsgögn eða fallega hluti í íbúðina en ég hef sjaldan notið lista í eins ríkum mæli. Ég lærði líka að meta betur hvern hlut þegar ég fór að hafa svolítið meira á milli handanna.

Einn hlutur stendur upp úr eftir Parísardvöl mína en það er gamall lyfjaskápur sem ég keypti á Montreil-flóamarkaðinum. Ég man að ég var með svolítið samviskubit þar sem skápurinn var nokkuð dýr miðað við mín fjárráð en hann hangir enn í stofunni tæpum 30 árum síðar og því nokkuð góð fjárfesting. Kaupum því vandaða hluti sem geta gengið á milli kynslóða og nýtum gamla hluti með því að gera þá upp, færa til eða blanda saman við nýja. Verum ábyrgir og vistvænir neytendur sem höfum samt fagurfræðina ávallt að leiðarljósi.

Ég er nýr ritstjóri Húsa og híbýla og mín bíður spennandi en í senn krefjandi verkefni sem ég hlakka til að takast á við. Hús og híbýli er rótgróið og vinsælt tímarit með tryggan og breiðan lesendahóp. Markmið mitt er að efla og styrkja blaðið þegar fram líða stundir en lögð verður áhersla á að auka fjölbreytileika í umfjöllunum um heimili, hönnun, arkitektúr og listir en það hafa verið grunnstoðir Húsa og híbýla. Einnig mun stafræn uppbygging verða efld til muna.

Árið 2005 hóf ég störf sem blaðamaður hjá útgáfufélaginu Birtíngi og vann þar samhliða öðrum störfum til ársins 2016 en þá varð ég ritstjóri Gestgjafans og mun ég stýra honum áfram samhliða Húsum og híbýlum. Ritstjórnir blaðanna tveggja verða sameinaðar og efldar með nýjum starfsmönnum, það eru spennandi tímar fram undan, vor í lofti. Ég tek við góðu búi af Sigríði Elínu Ásmundsdóttur sem hefur stýrt blaðinu í níu ár. Mig langar að nota tækifærið og þakka henni fyrir samstarfið og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

- Advertisement -

Athugasemdir