Þrívíð, litrík textíltréverk sem tóku óvænta stefnu 

Grafíski hönnuðurinn Heiðdís Halla Bjarnadóttir sýndi litrík, þrívíð veggverk sem voru hluti af einkasýningunni FORM á Hönnunarmars.

„Verkið tók um þrjá mánuði frá hugmynd að lokaútfærslu,“ segir Heiðdís Halla.

„Hönnunarferlið var mjög skemmtilegt. Ég ákvað að gera tvívíð tölvugrafíkverk sem bæru enga merkingu og þeirra eini tilgangur væri fagurfræðilegur. Ég þurfti listræna útrás sem krafðist einskis af mér nema sköpunargleði og vinnusemi. Ég byrjaði á að búa til form og ákveða liti sem ég teiknaði upp og setti saman í tölvunni. Fyrst áttu þetta að vera plaköt og hluti af dagatali sem ég var að vinna að en þróaðist svo yfir í handunnin verk úr tré og textíl þar sem ég þráði að vinna með efnið í höndunum. Ég fékk formin skorin út, valdi efni og hófst handa við að setja þetta saman.“

Reynir að vera umhverfisvæn

Hönnunin er úr tré og textíl og Heiðdís sér mikla möguleika í að þróa verkin enn frekar í stærð, efnisvali og sem nytjahluti. Hún er þegar byrjuð á þeirri þróun. Umhverfismál skipta hana máli og hún reynir því að vinna eftir því.

AUGLÝSING


„Síðan ég var krakki hefur hönnun og sköpun skipt mig miklu máli, líklega meira máli en ég gerði mér grein fyrir lengi vel. Ég hef alltaf teiknað og fundið mér útrás í hverskyns sköpun og þegar ég lít til baka þá er áhugavert hvað textíll kemur oft við sögu á einn eða annan hátt. Ég hef lesið hönnunar- og tískublöð síðan ég var unglingur og er alltaf með eitthvert verkefni í gangi.“

Nánari upplýsingar eru á heimasíðunni: heiddishalla.myportfolio.com.

Mynd / Auðunn Níelsson

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is