2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Tóku allt í gegn sjálf

  Í bjartri íbúð í Holtunum í Reykjavík búa þau Tanja Rós og Guðmundur ásamt syni þeirra Emanúel, tveggja ára. Þau keyptu íbúðina haustið 2019 og réðust í töluverðar framkvæmdir á eigninni.

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Alrýmið var allt tekið í gegn og fimm vikum seinna voru þau flutt inn. Íbúðin er í ljósum tónum og fær hvert smáatriði að njóta sín vel.

  Að sögn Tönju var skipulagið það fyrsta sem heillaði þau þegar þau komu inn í íbúðina. „Við vorum búin að skoða þó nokkrar íbúðir áður en að við duttum niður á þessa. Það sem heillaði okkur mest varðandi skipulagið var flæðið á milli stofunnar og eldhússins. Alrýmið skiptir miklu máli að okkar mati þegar kemur að minni eignum. Einnig finnst okkur vera mikill kostur að hafa þvottahús í íbúðinni,“ útskýrir Tanja. Íbúðin er björt og sáu þau strax mikla möguleika. Stórir gluggar í eldhúsinu hleypa birtunni inn þar sem innangegnt er á rúmgóðar svalir. Hverfið heillaði þau mikið og það hversu stutt er í allar helstu stofnæðar þrátt fyrir að vera aðeins steinsnar frá miðbænum.

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  AUGLÝSING


  Guðmundur og Tanja gerðu íbúðina nær fokhelda. Þau skiptu um allt gólfefni, hurðir og eldhúsinnréttingu. Þá settu þau upp vegg til þess að búa til aukaherbergi og útbjuggu rennihurð til þess að nýta rýmið sem best.

  Þau voru sammála um að hafa veggina, parketið og eldhúsinnréttinguna í léttum og ljósum litum. „Við vildum þó ekki hafa alveg hvíta veggi heldur fá lit sem myndi aðeins skilja sig frá hvítu þykku gólflistunum. Við erum rosalega ánægð með útkomuna en við gerðum allt upp sjálf með góðri aðstoð frá fólkinu í kringum okkur, sem við erum afar heppin með.“

  Íbúðin er stílhrein og nýtur hvert húsgagn og hlutur sín vel innan um náttúrulega og ljósa liti heildarrýmisins. „Fyrir okkur og okkar eign gerir það mikið að stíllinn nái í gegnum íbúðina. En það er alltaf gaman að sjá hinar ýmsu útfærslur hjá fólki,“ bætir Tanja við en að hennar sögn hefur stíllinn breyst töluvert milli ára.

  Sjáið fleiri myndir og lesið viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Húsa og híbýla.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is