Verk unnin úr gömlum verðlaunagripum

Deila

- Auglýsing -

Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir sýndu verkefnið Trophy á Hönnunarmars en verkefnið hefur verið í þróun síðan í haust. Þær segja að við sköpun á hverjum hlut taki við nýtt þróunarferli þar sem hver hlutur er skapaður í samtali við hráefnið.

Hvernig var hönnunarferlið?
„Við byrjuðum á að rannsaka athafnir tengdar verðlaunagripum, söguna á bak við þá og hvernig gripirnir hafa þróast í gegnum tíðina. Við höfum verið að skoða hönnun þeirra, samsetningu og efnisval en hönnunarferlið hefur samt kannski einna mest einkennst af því að handleika hráefnið, skissa og prófa ólíkar útfærslur.“

Úr hverju er þessi nýja hönnun?
„Gömlum verðlaunagripum.“

Skiptir ykkur máli að vera umhverfisvænar í ykkar hönnun?
„Við teljum það vera órjúfanlegan þátt í hönnunarferlinu að hugsa um það sem hönnunin skilur eftir í heiminum. Við erum alltaf meðvitaðar um þau hráefni og þær framleiðsluaðferðir sem við notum og þá orku sem fer í það sem við gerum.“

Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir sýndu verkefnið Trophy á Hönnunarmars. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Hefur hönnun, smíði og sköpun alltaf verið ykkur hugleikin?
„Já, það er óhætt að segja.“

Hvert sækið þið innblástur?
„Okkur finnst gaman að líta til baka á gamla stíla eins og renaissance, rókokó og memphis. Mismunandi hráefni og framleiðsluaðferðir veita okkur líka innblástur. Auk ytri þátta sem við kunnum ekki alveg skil á. Svo veitum við hvor annarri líka mikinn innblástur.“

Hvar stendur íslensk hönnun samanborið við hin Norðurlöndin?
„Okkur finnst íslensk hönnun standa vel samanborið við hin Norðurlöndin, það er margt spennandi að gerast hjá íslenskum hönnuðum. Við erum ánægðar með hönnunarnám okkar við Listaháskóla Íslands. Skólinn er lítill og aðlagast fljótt nýjum hugmyndum og nær, að okkar mati, að vera í takti við samfélagsbreytingar og áskoranir dagsins í dag sem hefur auðvitað mjög jákvæð áhrif á íslenska hönnun og það hvar hún stendur miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við.“

Eftirlætishönnuður?
„Listamaðurinn Grayson Perry er í miklu eftirlæti hjá okkur báðum.“

Vefsíða: studiofletta.is

- Advertisement -

Athugasemdir