Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Líkamsrækt í náttúrunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar líkamsræktarstöðvar eru ekki til staðar, fólk langar að breyta til eða finnst innileikfimi almennt leiðinleg er tilvalið að hreyfa sig úti, ekki síst þegar farið er í ferðalög. Víða í umhverfinu má finna staði sem henta vel til hreyfingar og líkamsræktar.

Krefjandi kirkjutröppur
Ef þú ert á Akureyri þá er beinlínis skylda að taka æfingu í kirkjutröppunum fyrir framan Akureyrarkirkju. Sem upphitun má taka hring í bænum annaðhvort gangandi eða hlaupandi og fara svo nokkrar ferðir upp og niður tröppurnar. Eftir á er svo nauðsynlegt að taka rólegt niðurskokk eða ganga til að koma jafnvægi á líkamann.
Í Kjarnaskógi rétt fyrir innan Akureyri er einnig frábær aðstaða til útivistar. Þar er hægt að ganga, hlaupa eða hjóla eftir flottum stígum og gera svo nokkrar æfingar í lokin. Ef fólk vill gera eitthvað aðeins meira krefjandi er hægt að ganga á Súlur (1213 m) suðvestan við Akureyri. Algengasta leiðin er frá öskuhaugunum en hún er um það bil 5 km og hækkunin um það bil 880 m. Leiðin er stikuð og greiðfær en svolítið brött efst. Útsýnið frá Yrti-Súlu er frábært til norðurs og austurs og þegar færi er gott er upplagt að ganga á Syðri-Súlu þar sem útsýnið opnast til suðurs.

Göngur öflug líkamsrækt
Gönguhópar spretta nú alls staðar upp eins og gorkúlur og áhuginn á göngum hefur aukist mikið á undanförnum árum. Þeir sem hafa sjaldan fundið sig í nokkurri líkamsrækt hafa fallið fyrir göngunum og klífa nú hvert fjallið á fætur öðru eftir því sem þolið eykst og formið verður betra. Göngur eru öflug líkamsrækt og með því að fara í gönguhóp fást einnig góðar leiðbeiningar og frábær félagsskapur. Hvar sem þið eruð, heima eða í fríi, getið þið alltaf tekið líkamsræktaræfingu í formi göngu, hvort sem það er á fjall í nágrenninu eða hring í borginni sem þið eruð stödd í.

Aflraunasteinar
Víða um land er að finna aflraunasteina sem gaman er að spreyta sig á þegar ferðast er um landið. Á Djúpalónssandi á Snæfellsnesi eru steinarnir Fullsterkur, Hálfsterkur, Hálfdrættingur og Amlóði. Við tóft gangnamannakofans í Ausubólshólum vestan við Þakgil í Mýrdal eru þrír aflraunasteinar sem nefndir eru Amlóði, Hálfsterkur og Fullsterkur. Við eyðibýlið England í Lundareykjadal er heit laug og þar liggja fjórir aflraunasteinar sem heita Fullsterkur, Hálfsterkur, Amlóði og Örvasi. Í Húsafelli í Borgarfirði er Kvíahellan og þar eru líka Gráisteinn og Steðjasteinn. Í Þórðarteigi í Hvítársíðu eru þrír steinar sem nefndir eru Engjasteinar og greindir eru Fullsterkur, Hálfsterkur og Amlóði. Þrír aflraunasteinar eru undir Kirkjufelli í landi Villingadals í Haukadal. Þeir heita Fullsterkur, Hálfsterkur og Amlóði. Á Hvallátrum eru fjögur steinatök og á Látranesi í Hvallátrum er steinninn Klofi. Þrjú steinatök eru á bökkunum fyrir ofan vörina Miðþröng í Arnarstapavík í Tálknafirði. Þau heita Fullsterkur, Miðlungur og Aumingi. Eiginlega aflraunasteina má finna víðar um landið en svo má líka alltaf taka hvaða steina sem er og nota til líkamsræktar. (Heimildir: arnastofnun.is)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -