Miðvikudagur 27. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Mikilvægt að okkar raddir heyrist“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ensk-íslenska verkið (Can This Be) Home verðlaunað á leiklistarhátíð í Tékklandi.

Ensk-íslenska verkið (Can This Be) Home hlaut í vikunni brautryðjendaverðlaunin á Fringe-leiklistarhátíðinni í Prag og í kjölfar þess hefur aðstandendum sýningarinnar verið boðið að setja verkið upp í hinu virta leikhúsi Chats Palace í London. Í samtali við Mannlíf segist leikstjórinn, Kolbrún Björt Sigfúsdóttir, vera í skýjunum með boðið og viðurkenninguna enda standi efnisviður verksins henni nærri. „Það er alveg frábært að fá þessa viðurkenningu því við erum búin að vinna að verkinu í tvö ár og erum að fjalla um málefni sem skiptir okkur miklu máli,“ segir hún og vísar þar í umfjöllunarefnið sem snýst um upplifun innflytjenda í Bretlandi af kosningunum um Brexit. Hvernig þeir, þar á meðal hún sjálf, hafi liðið með að vera sagt óbeint að þeir ættu ekki lengur heima í Bretlandi í ljósi niðurstöðunnar.

Kolbrún segir að þetta sé reyndar ekki fyrsta útgáfa verksins heldur hafi það þróast í takt við umræðuna um Brexit-málið og því nokkrar útgáfur litið dagsins ljós. Fyrsta útgáfan hafi orðið til áður en kosningin um Brexit fór fram. Í annarri útgáfu hafi verið reynt að gera upp niðurstöðu kosninganna fyrir innflytjendur og þá sem kusu að halda Bretlandi innan Evrópusambandsins. Þriðja hafi verið lesin á degi skyndikosninganna sem Theresa May boðaði til í von um að auka stuðning sinn og Brexit á þingi, sem hafi ekki gengið upp. „Nú eru svo komin tvö ár síðan það var kosið og Brexit er enn í mótun. Þess vegna fannst okkur mikilvægt að okkar raddir heyrðust, nú sem aldrei fyrr, áður en langvarandi ákvarðanir sem móta framtíð okkar eru teknar. Ætlunin með verkinu er að tala til fólks. Fá það til að hugsa um það sem er í gangi.“

„Það er alveg frábært að fá þessa viðurkenningu því við erum búin að vinna að verkinu í tvö ár og erum að fjalla um málefni sem skiptir okkur miklu máli.“

Hún viðurkennir að vegna hins pólitíska umfjöllunarefnis hafi aðstandendur (Can This Be) Home alls ekki búist við að verkið ynni til verðlauna á hátíðinni í Prag. Auk þess sé verkið langt frá því að vera hefðbundin leiksýning. Eiginlega sé varla hægt að tala um leiksýningu þar sem verkið samanstandi af tveimur hlutum, tónleikum flautuleikarans Tom Oakes, innblásnum af ferðlögum hans um heiminn og ljóðaupplestri þar sem Kolbrún flytur eigin texta, byggðan á fyrrnefndri reynslu innflytjenda af Brexit. Sigurinn hafi því komið henni og öðrum aðstandendum sýningarinnar skemmtilega á óvart.

En er ekki gaman fyrir ungan leikstjóra og leikritaskáld að fá svona rífandi start? „Jú það er voða ljúft. Það er grínast með það að „overnight success“ í Hollywood taki fimm ár. Tvö er vel sloppið,“ segir hún og bætir við að þar sem þetta sé fyrsta handritið hennar sem hlýtur verðlaun þá sé þetta líka persónulegur sigur.

Spurð út í framhaldið segir hún uppsetninguna í London vera næst á dagskrá. „Við erum bara að vinna í því að finna hentugar dagsetningar,“ segir hún glaðlega, „en þetta verður alveg geggjað.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -