Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Önnur konan af þremur stígur fram

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kiana Sif Limehouse prýðir forsíðu 14. tölublaðs Mannlífs sem kemur út á morgun, föstudaginn 8. júní. Kiana var barn þegar brotið var ítrekað á henni kynferðislega, að hennar sögn. Meintur gerandi var þáverandi stjúpfaðir hennar, sá hinn sami og Helga Elín sagði í 12. tölublaði Mannlífs hafa misnotað sig kynferðislega í sumarbústað þegar hún var tíu ára gömul. Kiana og Helga eru tvær af þremur stúlkum sem sökuðu manninn, sem er lögreglumaður, um kynferðisbrot en málin voru felld niður. Maðurinn starfar enn í lögreglunni.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“.

„Ímynda ég mér stundum hvernig lífið hefði verið öðruvísi ef þetta hefði ekki gerst? Já, algjörlega. En maður lifir bara með því sem hendir mann. Föðurættin mín er mjög trúuð og hefur föðuramma mín talað um að Guð sendi einungis það til manns sem maður getur tekist á við. Ég er ekki eins trúuð og hún og get því miður ekki fundið neina réttlætingu á því sem gerðist,“ segir Kiana. Hún á bandarískan föður og íslenska móður sem skildu þegar hún var þriggja ára gömul. Þá byrjaði móðir hennar að vera með manni sem Kiana segir að hafi brotið á sér kynferðislega.

„Ég svaf alltaf uppi í rúmi hjá mömmu þegar hann var að vinna. Þegar hann færði mig á milli rúma man ég eftir að hann byrjaði að þukla brjóstin á mér. Ég var vakandi en lét sem ég svæfi. Ég vissi að þetta var ekki rétt en ég sagði ekki neitt. Ég var lítil og hafði ekki vit á því að þetta væri óeðlilegt.

Síðan fór þetta að vinda upp á sig. Hann bauð mér að smakka áfengi og einhverju síðar man ég eftir honum standandi í dyrunum á herberginu mínu þegar ég var sofandi. Þá hafði hann verið að drekka og þuklaði á sjálfum sér. Eitt kvöldið tók hann það skref að koma inn í herbergið mitt og snerta mig,“ segir Kiana.

Þjökuð af samviskubiti

Mæðgurnar Helga Elín og Halldóra Baldursdóttir sögðu, eins og fyrr segir, sögu sína í 12. tölublaði Mannlífs. Þær sögðu frá meintri misnotkun á Helgu Elínu sem átti sér stað í sumarbústaðarferð, að þeirra sögn. Sumarbústaðarferð sem Kiana, ein af hennar bestu vinkonum, hafði boðið henni í. Í kjölfar ferðarinnar slitnaði upp úr vinskapnum en fyrir nokkrum árum náðu þær að dusta rykið af kunningsskapnum. Kiana var lengi vel þjökuð af samviskubiti yfir því sem gerðist í sumarbústaðaferðinni en skilur í dag að atburðarrásin þar var ekki henni að kenna.

Kiönu blöskrar að meintur gerandi sinn vinni enn innan veggja lögreglunnar. Lesa má nánar um málið í Mannlífi á morgun og hér á vefnum.

- Auglýsing -

Sjá einnig: „Hann sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu“.

Málið í hnotskurn

Lögreglumaðurinn sem þrjár stúlkur sökuðu um kynferðisbrot starfaði áfram meðan á rannsókn allra málanna þriggja stóð. Málin voru ekki rannsökuð saman. Eftir að málin voru felld niður hélt lögreglumaðurinn starfinu. Í máli Helgu Elínar liggja fyrir skýrslur frá sérfræðingum í Barnahúsi sem staðfestu að Helga Elín hefði orðið fyrir miklum skaða í umtalaðri sumarbústaðarferð.

Eins og hefur komið fram voru vinur lögreglumannsins, sem er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera, og eiginkona hans með í sumarbústaðarferðinni. Að sögn Halldóru Baldursdóttur, móður Helgu Elínar, tók skýrslutaka yfir vinahjónunum aðeins örfáar mínútur og fór fram á skrifstofu embættismannsins. Þau hjónin og eiginkona sakbornings báru fyrir sig minnisleysi vegna áfengisdrykkju og niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeirra vitnisburði. Við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í umræddri sumarbústaðaferð. Umrædd vinahjón voru aldrei spurð út í klámmyndaáhorfið og tölva sakbornings var ekki skoðuð. Þegar lögregla skoðaði sumarbústaðinn fór hinn meinti kynferðisafbrotamaður með á vettvang.

- Auglýsing -

Sjá einnig: Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru.

Að sögn Halldóru kemur fram í rannsóknargögnum að lögreglumaðurinn hafi sakað stelpurnar þrjár um samsæri gegn sér og að ekkert hafi verið gert til að hrekja slíkt. Halldóra hefur óskað eftir því við Nefnd um eftirlit með lögreglu að málsmeðferðin verði skoðuð. Eitt að því sem hún gagnrýndi harðlega var að þrátt fyrir að þrjár stúlkur hefðu kært lögreglumanninn hefðu málin ekki verið rannsökuð saman og ekkert brugðist við fullyrðingum lögreglumannsins um að stúlkurnar þrjár hefðu uppi samsæri gegn sér.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -