Fimmtudagur 28. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

„Róandi lyf algengust“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Valgerður Rúnarsdóttir, læknir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ og forstjóri sjúkrahússins Vogs, segir að misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja hafi tíðkast í áratugi og sé hluti af vímuefnavanda þeirra sem leita til SÁÁ.  

Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, segir meðal annars að meðan framboðið á lyfjum sé mikið sé neyslan það einnig.

„Lyfseðilsskyld lyf sem eru misnotuð eru í þremur flokkum, öll ávanabindandi og geta valdið fíkn. Róandi-, svefn- og kvíðastillandi lyf, sterk verkjalyf og örvandi lyf. Öll þessi lyf eru meira áberandi meðal þeirra sem koma í meðferð nú en áður en þó eru ekki dramatískar breytingar nema fíkn í sterku verkjalyfin jókst umtalsvert síðustu tvö árin. Neyslan í dag er hjá flestum blönduð, áfengi, lyf og ólögleg vímuefni,“ segir Valgerður. „Algengast er þó að róandi lyfin séu með í för. Konur eru líklegri til að nota róandi lyfin en karlar, önnur lyfjaneysla er svipuð hjá báðum kynjum. Eldri einstaklingar hafa verið frekar í róandi og verkjalyfjum, en þetta hefur breyst og undanfarin ár sækir yngri kynslóðin mun meira í þessi lyf, jafnvel þau yngstu, það er að segja undir tvígtugu. Notkun örvandi lyfjanna er mest meðal yngri fullorðinna, 20-40 ára, og hættulegast er þegar þessi lyf eru notuð í æð.“

Lyfin oft af götunni
Hefur orðið aukning á einhverju tilteknu lyfi að undanförnu? „Við höfum tekið eftir aukningu á xanax sem er eitt af róandi lyfjunum og er ekki selt hér í apótekum, og síðan verkjalyfið oxycodone sem þó er mun minna um. Það eru þó oftast  sömu lyfin sem ganga kaupum og sölum, samanber nöfnin hér fyrir ofan. Það má segja að ópíóíðalyfin eða sterku verkjalyfin séu hættulegust í inntöku því þau geta haft lífshættulegar afleiðingar með öndunarhömlun sem er vegna áhrifa á heila. Önnur róandi lyf geta einnig verið lífshættuleg í inntöku sérstaklega með öðrum vímugjöfum eins og áfengi. Hins vegar er neysla methylphenidates (rítalíns) í æð og einnig morfínlyfin í æð, mjög hættuleg vegna þeirra lífshættulega fylgikvilla sem sprautufíkn fylgja. Bakteríusýkingar, lost, ofskammtar og svo framvegis. Áhrif methylphenidate-lyfja á hvatvísi, áhættuhegðun, dómgreind og fleira eru mjög alvarlegt mál. Örvandi neyslan á Íslandi er miklu meira vandamál heldur en verkjalyfin,“ segir Valgerður. „Þessi lyf eru til sölu á ólöglegan hátt, þau koma væntanlega flest úr apótekum landsins, geta líka verið innflutt. Margir fá einhver lyf frá læknum en það er algengara að fólk kaupi þau „á götunni“.“

„Þessi lyf eru til sölu á ólöglegan hátt, þau koma væntanlega flest úr apótekum landsins, geta líka verið innflutt. Margir fá einhver lyf frá læknum en það er algengara að fólk kaupi þau „á götunni“.“

Meðferð vandasöm
Hún segir að afeitrun af þessum mismunandi lyfjum geti verið vandasöm og sé ólík fyrir hvern lyfjaflokk. „Margir eru í blandaðri neyslu á þessum lyfjum og því full þörf á gát og endurmati lyfja þessa daga sem afeitrun stendur. Hún er veitt í inniliggjandi sjúkrahúsdvöl á Vogi, af læknum og hjúkrunarfræðingum. Margir þurfa framlengda dvöl vegna þessarar neyslu, sem getur tekið langan tíma að afeitra, allt upp í nokkrar vikur. Stundum á við sérstök meðferð fyrir þá sem eru með alvarlega fíkn í ópíóíðalyf, sterku verkjalyfin, sem kallast viðhaldsmeðferð og er veitt héðan frá göngudeild Vogs.

Auk þess er mikil þörf á framlengdri meðferð fyrir fólk sem sprautar í æð örvandi lyfjum, það þarf oft mikið umhald og stuðning. Við höfum fjögurra vikna eftirmeðferð á meðferðarstöð SÁÁ á Vík á Kjalarnesi sem er glæný, rúmgóð og býður kynjaskipta meðferð með nokkrum sérúrræðum. Það er meðal annars gott rými fyrir eldri einstaklingana sem voru lyfjaháðir og þurfa tíma til að jafna sig og læra að takast á við til dæmis svefnvanda og kvíðaeinkenni sem eru oft áberandi í þessum hópi. Einnig höfum við framhaldsdvöl í 6-18 mánuði á meðferðarheimilinu Vin fyrir karlmenn sem komnir eru í slæma stöðu. Og svo er það göngudeildin okkar í Von Efstaleiti og á Akureyri.“

Hefur verið sama þróun í þessum málum hér og í nágrannaþjóðunum? „Já, það eru áhyggjur af lyfjaneyslu og fíkn hjá nágrannaþjóðum. Í Bandaríkjunum kalla þeir það „faraldur“ þar sem hátt í 100 manns deyja á dag úr ofneyslu sterkra verkjalyfja.“

„Samfélagið mætti vel spyrja sig, hvers vegna lyf almennt. Við mörgum venjulegum einkennum og áhrifum lífsins. Til dæmis svefntruflunum, verkjum, vægum kvíðaeinkennum, öðrum geðrænum einkennum sem mörgum hverjum má sinna með allt öðrum hætti en með lyfjum.“

Breytingar á lífsstíl í stað lyfja
Áhugavert er að velta fyrir sér hvaða samfélagslegu aðstæður og ástæður geta verið fyrir því að öll þessi lyf eru í umferð og að fólk misnotar lyfseðilsskyld lyf í auknum mæli. „Það er einnig umhugsunarvert hvernig umgengni er við lyf, má gefa með sér lyfseðilskyld lyf? Svarið er nei, en sú er samt raunin. Samfélagið mætti vel spyrja sig, hvers vegna lyf almennt,“ segir Valgerður ákveðin, „við mörgum venjulegum einkennum og áhrifum lífsins. Til dæmis svefntruflunum, verkjum, vægum kvíðaeinkennum, öðrum geðrænum einkennum sem mörgum hverjum má sinna með allt öðrum hætti en með lyfjum. Hreyfing og ýmsar lífsstílsbreytingar geta haft gríðarlega mikil áhrif og góð. Sálfræðimeðferðir eru til við mörgum kvillum og geta læknað og lagað mjög mikið með einstaklingnum. Við langvinnum stoðkerfisverkjum, (ekki bráðum verkjum eða í líknarmeðferð), á helst ekki að nota þessi morfínskyldu verkjalyf. Bestu raun gefa hreyfing, sjúkraþjálfun, endurhæfing, sálfræðimeðferð, iðjuþjálfun og fleira auk ef til vill bólgueyðandi lyfja. Það er hugsað sem lausn á undirliggjandi og samhliða vanda, en ekki bara að slökkva á einkenninu sem er verkurinn. Kannski erum við orðin of lyfjatrúar, eða þolum minna en áður. Síðan er það vandinn af fíkninni. Þegar um er að ræða fíknsjúkdóm eru þessi lyf eins og hvert annað vímuefni og neyslan þá ekki stýrð af skynsemi eða rökum. Þau koma þá inn í neysluna almennt og verða hluti af henni, eins og raunin er. Ef nóg er framboðið, þá verður neyslan líka aukin,“ segir Valgerður.

- Auglýsing -

En hvað með önnur fíkniefni, hefur orðið breyting á neyslu þeirra? „Hún hefur ekki minnkað, neysla ólöglegra vímuefna er sem aldrei fyrr.“

Lyf sem eru misnotuð skiptast í þrjá meginflokka

  1. Róandi- svefn- og kvíðastillandi lyf: Oftast benzodiazepin-lyf sem hafa ótal sérlyfjaheiti, meðal annars tafil, rivotril, lexotan, diazepam og mogadon. Einnig svo kölluð z-lyf eins og imovane og stilnoct.
  2. Sterk verkjalyf: Eru morfínskyld lyf, veikari eru tramadol og kodein, til dæmis parkódin, og sterkari eru meðal annars contalgin, oxy-lyfin og fentanyl.
  3. Örvandi lyf: Eins og amfetamín-töflur og methylphenidate, til dæmis rítalín og concerta.

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um skaðsemi lyfseðilsskyldra lyfja. Dauðsföllum af völdum misnotkunar þeirra hefur fjölgað gríðarlega og grunur um að andlát níu manneskja á þessu ári megi rekja til ofneyslu slíkra lyfja eða fíkniefna. Mannlíf ræddi við einnig við Sigurð Rósant Júlíusson, fyrrverandi fíkil, um reynslu hans af hörðum heimi fíkniefna og föður stúlku sem lést vegna ofneyslu, um þann vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir.

- Auglýsing -

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -