Fimmtudagur 10. október, 2024
2.4 C
Reykjavik

400 grunnskólanemar festust í Vík í Mýrdal – Gengu heim í dag

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Um fjögur hundruð nemendur í Varmárskóla luku í dag hringferð sinni um Ísland, þegar gengið var sem svarar fjarlægðinni milli Víkur í Mýrdal og Mosfellsbæjar. Megnið af hringveginum var hlaupið í gær þegar nemendur skólans hlupu samanlagt vel yfir eitt þúsund kílómetra vegalengd.

Hlaupið var í tilefni af evrópskri íþróttaviku en að þessu sinni var ákveðið að setja það markmið að ná að hlaupa sem nemur öllum hringveginum, Þjóðvegi 1, en það eru 1.321 kílómetri.

„Það einfaldlega kviknaði sú hugmynd að við gætum sett okkur sameiginlegt markmið, ekki bara fyrir nemendur, heldur starfsmenn líka,“ segir Jóhanna Jónsdóttir íþróttakennari við Varmárskóla.

„Okkur finnst mikilvægt hér í skólanum að skilgreina markmiðin sem við viljum ná og vinna svo að því í sameiningu að ná þeim. Þetta varð að veruleika í dag,“ segir Jóhanna. Allir hafi lagst á eitt við að ná markmiðinu. Ljóst hafi verið eftir gærdaginn að þrátt fyrir að bæði börn og starfsfólk hefðu lagt mikið á sig, og farið þreyttir og glaðir heim, hefði ekki tekist að ná markmiðinu.

„Við náðum um þúsund kílómetrum í gær. Það er eins og við hefðum náð til Víkur í Mýrdal, hefðum við farið norður fyrir. Þannig að það má segja að krakkarnir hafi stoppað í Vík yfir nótt, en síðan náð að ganga heim í dag,“ segir Jóhanna hlæjandi, en bætir síðan við: „Krakkarnir gáfust ekki upp. Við kláruðum ekki hringveginn í gær, en í dag voru allir tilbúnir til þess að ljúka ætlunarverkinu, ná markmiðinu. Við getum verið stolt af okkur í dag.“

- Auglýsing -

Þetta fór þannig fram að nemendur og starfsfólk hlupu ákveðinn hring á skólasvæðinu, svokallaðan Hlégarðshring, 450 metra leið. Hver hlaupari fékk punkt á handarbak fyrir hvern hring sem hlaupinn var. Svo var vegalengdin lögð saman. Nemendur hlupu mis langt, en þeir sem lengst fóru, hlupu tæpa 8 kílómetra. Glaðir og þreyttir nemendur fengu síðan frostpinna eftir langt hlaup.

Um 400 nemendur í 1.-6. bekk eru í Varmárskóla. Þetta eru krakkar á aldrinum 6-11 ára.  

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -