Föstudagur 11. október, 2024
0.7 C
Reykjavik

Afi Önnu varð bráðkvaddur um borð í M.S. Heklu: „Við eigum að minnast forfeðranna með virðingu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
„Þegar ég fæddist voru báðar ömmur mínar látnar sem og föðurafi minn, en móðurafi minn vélstjórinn enn lifandi og í fullu starfi á strandferðaskipinu Heklu. Reyndar var langamma mín í beinan kvenlegg, (Gunnhildur Ólafsdóttir ekkja Benedikts Magnússonar á Vallá á Kjalarnesi) enn á lífi (lést 1966), en um leið má segja að systir ömmu minnar Arndísar Benediktsdóttur og eiginmaður hennar, Steinunn Benediktsdóttir og Jakob Margeir Bjarnason vélstjóri, tóku við ömmu og afahlutverkinu á meðan þeim entist aldur til. Já lambið mitt.“ Þannig hefst nýjasta dagbókarfærsla Önnu Kristjánsdóttur en þar minnist hún móðurafa síns, Þorbjarnar Péturssonar.

Anna heldur áfram:

„Móðurafi minn, Þorbjörn Pétursson var fæddur 1. september 1892 í kotinu Grjóta í Garðahreppi skammt vestan við Garðakirkju, missti föður sinn í sjóslysi einungis fimm mánaða gamall og eftir sat ekkjan með tvö börn og þau systkinin alin upp á sveitarframfæri fyrstu árin. Að sögn kunnugra byrjaði afi minn á skútu einungis ellefu ára gamall og varð sjómennskan hans ævistarf upp frá því. Hann var á skútum, hann var kyndari og síðar vélstjóri á togurum, en eftir að hann tók gufuvélapróf í Vélskólanum 1936 varð hann yfirvélstjóri á línuskipum og togurum þar til hann hætti til sjós og fór á fragtara, nánar tiltekið á strandferðaskipið Heklu sem þá var ný eða mjög nýleg og var þá ýmist sem aðstoðarvélstjóri eða 4. vélstjóri, enda einungis með próf á gufuvélar.“

Þá segir Anna að gott orðspor hafi farið af afa sínum og segir frá kynnum sínum af yfirvélstjórann Hauk Lárusson, sem henni leyst ekkert alltof vel á í byrjun.

„Það fór gott orðspor af honum afa mínum, en hann var lengi vélstjóri á Rifsnesi RE-272(?). Þegar ég byrjaði á Lagarfossi (II) í ársbyrjun 1971, var ég ekki alveg sátt við yfirvélstjórann Hauk Lárusson í byrjun og fannst hann líta niður á okkur aðstoðarfólkið í vélinni. Samt mætti hann alla daga í hálfellefu kaffið á morgnanna í vélamessann og þá kjaftaði á honum hver tuska. Einn daginn byrjaði þessi hefðbundna yfirheyrsla, Hverra manna ertu? Ég sagði honum það. „Ertu að segja mér það að Þorbjörn Pétursson hafi verið afi þinn“? Eftir þetta slitnaði vart slefan á milli okkar. Haukur tjáði mér að þegar hann lauk Vélskólanum, að því er mig minnir árið 1939, hafi hann byrjað sem 2. vélstjóri á Rifsnesinu og betri leiðbeinanda í starfi en afa minn hefði hann aldrei getað fengið.“

Anna segir afa sinn vera einn samviskusamasta mann sem hún hafi heyrt um og kemur með dæmi:

„Afi minn var einhver sá samviskusamasti maður sem ég hefi heyrt um. Einu sinni missti hann putta í vinnuslysi, að mig minnir vísifingurinn, (leiðrétt) en að sögn þeirra sem til þekkja, var búið um sárið og síðan var haldið áfram að vinna. Ég veit þó ekki sannleikann í málinu. Svo kom að efsta degi og þá gætti hann þess vandlega að deyja á frívakt, þá orðinn 72 ára gamall og enn starfandi sem vélstjóri á M.s. Heklu.“

Að lokum reiknar Anna út dánardaginn en hún er nú á sama aldri og afi hennar þegar hann dó.

„Ég fór að reikna út dánardaginn. Hann var 72 ára, 8 mánaða og ca 21 dags gamall að auki er hann varð bráðkvaddur um borð í Heklu 21. maí 1965. Í dag hefi ég lifað í 72 ár, 8 mánuði og ca 21 dag að auki, en öfugt við hann afa minn sem var á sjó í um 61 ár, þá er ég löngu hætt að vinna og mín 55 ár á vinnumarkaði, þar af rúm 25 ár á sjó, munu að sjálfsögðu aldrei vera neitt í líkingu við starfsævi móðurafa míns.
Við eigum að minnast forfeðra okkar og formæðra með virðingu. Þau gerðu okkur að því sem við erum í dag.
Dagurinn í dag er um leið dánardagur föður míns sem lést 1996, 82 ára að aldri.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -