Föstudagur 19. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

„Fólk á að geta haft svigrúm með launin sín, sama hvaða starfi það gegnir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Michael Bragi Whalley er 36 ára gamall og hefur starfað á leikskólanum Hömrum í 19 ár. Hann er leiðbeinandi 2 á Hömrum og situr auk þess í samninganefnd Eflingar. Michael hefur unnið aukavinnu í 11 ár til að geta greitt mánaðarlega reikninga og ná endum saman.

 

„Ég fór í starfskynningu hér þegar ég var við nám í Borgarholtsskóla og starfið heillaði mig alveg, að vinna með börnum,“ segir Michael aðspurður um af hverju hann valdi þetta starf. Hann byrjaði sem sumarstarfsmaður og síðan í aukavinnu með námi, og hóf svo að vinna þar í fullu starfi eftir nám.

Michael hefur farið á hin og þessi fagnámskeið sem hafa bætt launakjör hans að einhverju leyti. „En við erum þá bara að tala um pínulitla hækkun á launum, maður gerir það sem þarf til að fá aðeins meira í vasann. Síðan er það reynslan og starfsaldurinn sem er metið. Þeir sem byrja ófaglærðir fara í launaflokk „starfsmaður 2“ sem eru með þeim lægst launuðu í Reykjavík í dag og við erum að berjast við að hækka allverulega, ásamt öðrum launum innan Eflingar,“ segir hann.

„Leikskóli er góður vinnustaður til að vinna á, ef maður setur launin til hliðar. Starfsmannakjarninn hér á Hömrum hefur verið sá sami, þannig að ég hef unnið með sama fólkinu, sama kjarnanum öll árin sem tíðkast ekki mikið á leikskólum ef miðað er við launakjörin. Hér er góður starfsandi og frábær leikskólastjóri og samstarfsmenn.“

„Það er búið að skora á Dag B. Eggertsson borgarstjóra að svara því hvort að hann geti lifað á þessum launum, hann vill ekki svara, hann hlýtur að vita upp á sig sökina.“

Sjá einnig: „Reikningarnir eru kannski ekki margir en öll launin mín fara í þá“

Tvö störf í 11 ár

- Auglýsing -

Michael vinnur í leikskólanum frá klukkan 8-16 en fjóra daga í viku starfar hann sem þjónustufulltrúi í fjarskiptafyrirtæki frá klukkan 16.45-20 og aðra hvora helgi vinnur hann þar frá klukkan 12-19. „Ástæðan fyrir því að ég hef unnið í 19 ár á leikskóla er sú að 11 ár af þeim tíma hef ég unnið tvær vinnur. Ástæðan fyrir því að ég hef haldist við í leikskólanum er sú að ég er í aukavinnu og ég þarf að gera það til að geta borgað húsnæðislánin, til að geta borgað reikninga og geta átt ofan í fjölskylduna og á,“ segir Michael sem á konu og stjúpdóttur í framhaldsskóla. „Tími minn með fjölskyldunni er mjög lítill og hefur verið það seinustu árin. Ég hefði viljað eiga meiri tíma með fjölskyldunni.“

Michael fær útborgað frá leikskólanum 290 þúsund krónur á mánuði. Eftir greiðslu húsnæðisláns, bílaláns og annarra reikninga, á hann 60 þúsund krónur eftir af þeim launum. „Þannig að það er mjög lítið eftir sem á að duga út mánuðinn. Þess vegna þarf ég að vinna tvö störf. Það kostar að reka bíl, það kostar allt, föt á barnið og allt,“ segir Michael.

„Ef ég væri einn ætti ég ekki bíl og staðreyndin er sú að ef ég væri einn væri ég ekki með húsnæðislán. Það fer enginn í gegnum greiðslumat á svona launum. Ég hef verið á leigumarkaði áður en mestmegnis búið í foreldrahúsum. Ég og konan værum ekki í eigin húsnæði nema vegna aðstoðar frá foreldrum mínum við að komast í gegnum greiðslumat,“ segir hann.

- Auglýsing -
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar talar til félagsmanna Mynd / Aðsend

„Dagur etur saman faglærðu og ófaglærðu fólki“

Hann segir að langstærsti hluti þeirra sem vinna á þessum launum séu konur, eins og Sólveig Jónsdóttir formaður Eflingar hafi margnefnt. „Launin eru frá 230-260 þúsund krónur útborgað á mánuði, og á þessum launum borgar fólk leigu. Hvernig getur fólk lifað á þessum launum, þetta er ekki hægt. Þetta eru mestmegnis konur og fjöldi þeirra eru einstæðar mæður,“ bendir Michael á. „Það er búið að skora á Dag B. Eggertsson borgarstjóra að svara því hvort að hann geti lifað á þessum launum, hann vill ekki svara, hann hlýtur að vita upp á sig sökina,“ heldur hann áfram.

Aðspurður út í orð borgarstjóra um höfrungahlaup, segir hann að það orð sé fyrst og fremst barnaleikur. „Þannig að það er svolítið verið að skemma það orð fyrir börnum. Ég er ekki sammála Degi og hann hefur greinilega ekki kynnt sér kjörin sem Eflingu eru boðin í dag. Dagur er bara að spila leiðinlegan leik, hann etur saman faglærðu og ófaglærðu fólki og reynir að fá þá faglærðu inn í deiluna. Hann hagar sér bara leiðinlega og barnalega. Það er opinbert að Dagur er með 2,2 milljónir í laun á mánuði, gæti hann skipt á launum við einstakling sem er með 260 þúsund krónur á mánuði? Fólk á að geta haft svigrúm með launin sín, sama hvaða starfi það gegnir, sérstaklega fólk sem er í 100 prósent starfi.“

Lesa má nánar um málið í Mannlíf.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -