Folald hefur verið nefnt eftir Höllu Hrund Logadóttur. Þetta tilkynnti hún í skemmtilegri Facebook-færslu í gær.
Halla Hrund Logadóttir, forstjóri Orkustofnunar og fyrrum forsetaframbjóðandi sagði frá því í gær að einn af stuðningsmönnum hennar hafi lofað henni í vor að hann myndi nefna ófætt folald í höfuðið á henni, yrði það meri. Það reyndist svo og nú á Halla Hrund nöfnuna Hrund. Og forstjórinn gæti ekki verið ánægðari með nöfnuna, enda minnir hún á fyrsta hesti Höllu Hrundar. Litla Hrund er ekki undan ómerkari hrossi en Lukku frá Stóra-Vatnsskarði.
Hér má sjá færslu Höllu Hrundar:
„Það er svo margt skemmtilegt í lífinu! Einn af mínum af frábæru stuðningsmönnunum sem ég þekkti ekki neitt fyrir baráttu hét mér í vor að nefna ófætt foldald „Hrund“ yrði það meri. Sú varð rauninn og hann stóð við stóru orðin þrátt fyrir allt, nú í júní. Og viti menn, haldið þið að Hrund litla sé ekki rauðblesótt, alveg eins og fyrsti hesturinn minn og líka undan undan rauðblesóttri meri líkt og hann. Hrund litla er hins af töluvert betri ættum en við til samans! Það fékk ég staðfest á Landsmóti. Hér má sjá mynd af okkar fyrstu kynnum. Bjarta framtíð elsku Hrund! Ég hlakka til að fylgjast með þér.“