Fimmtudagur 25. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Kinnhesturinn skyggði á sögulegt kvöld: Konur, heyrnarlausir og hinsegin fólk áttu sviðið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margt merkilegt, meira að segja sögulegt, átti sér stað á Óskarsverðlaunahátíðinni síðastliðið sunnudagskvöld, jafnvel þótt kinnhesturinn alræmdi hafi skyggt töluvert á alla sigra kvöldsins og það fólk sem ef til vill hefði átt sviðsljós kvöldsins skilið. Hátíðin var fjölbreyttari en áður; konur voru sigursælar sem og fólk af ólíkum uppruna. Einnig átti bæði hinsegin fólk og heyrnarlaust fólk sína stóru sigra þetta kvöld, sem fara þannig á spjöld sögunnar.

Eflaust verður Óskarsverðlaunahátíðarinnar 2022 ávallt minnst sem kvöldsins sem leikarinn Will Smith sló uppistandarann Chris Rock utan undir uppi á sviði. Nú er hins vegar kominn tími til að tala um nokkur af mikilvægari augnablikum kvöldsins sem tengjast kinnhestum ekki á nokkurn hátt.

Þær Amy Schumer, Wanda Sykes og Regina Hall.

Þær Amy Schumer, Regina Hall og Wanda Sykes voru kynnar á verðlaunahátíðinni. Þetta var í fyrsta sinn sem þrjár konur eru kynnar á Óskarnum. Amy beindi skotum sínum að launamuni kynjanna í opnunarræðu sinni, þar sem hún sagði Akademíuna hafa ráðið þrjár konur sem kynna, vegna þess að það væri ódýrara en að ráða einn karlmann.

Aðstandendur kvikmyndarinnar CODA

CODA var valin besta kvikmyndin á hátíðinni. CODA er skammstöfun fyrir child of deaf adults, eða barn heyrnalausra foreldra, og fjallar um stúlku sem er eini heyrandi meðlimur fjölskyldu sinnar. Handritshöfundur CODA, Sian Héder, vann Óskarinn fyrir besta handrit byggt á öðru verki. Sian er fyrsta konan sem vinnur í þeim flokki frá því að Emma Thompson vann fyrir kvikmyndina Sense and Sensibility árið 1995.

Sian Héder

Þar með var sigurgöngu CODA þó ekki lokið. Troy Kostur braut blað í sögunni þegar hann varð fyrsti heyrnarlausi karlmaðurinn til að vinna Óskarinn fyrir besta leik í aukahlutverki. Troy Kostur fer með hlutverk Frank Rossi í kvikmyndinni. Aðeins einu sinni áður hefur heyrnarlaus einstaklingur unnið Óskarsverðlaun fyrir leik. Það var Marlee Matlin sem hreppti styttuna fyrir leik sinn í kvikmyndinni Children of a Lesser God, árið 1987. Svo skemmtilega vill til að Matlin leikur einnig í CODA.

Troy Kostur

Troy tileinkaði sigur sinn samfélagi heyrnarlausra, CODA teyminu og samfélagi fólks með fatlanir. „Þetta er augnablikið okkar,“ sagði hann, á táknmáli.

- Auglýsing -
Ariana DeBose

Arina DeBose varð fyrsta opinberlega hinsegin konan til að vinna Óskarsverðlaun fyrir leik sinn. Styttuna fékk hún sem besta leikkona í aukahlutverki, fyrir leik sinn í kvikmyndinni West Side Story. Þar lék hún hlutverk Anitu, en kvikmyndinni var leikstýrt af kempunni Steven Spielberg. Arina er einnig einungis önnur konan af latneskum uppruna sem vinnur Óskarinn.

Það sem ef til vill gerir það enn áhugaverðara, er að sú sem vann á undan henni var leikkonan Rita Moreno, sem vann fyrir sama hlutverk – 60 árum fyrr.

„Til þeirra sem einhvern tíma hafa verið óvissir um eigin persónu… ég lofa ykkur því að það er sannarlega til staður fyrir okkur,“ sagði Arina í þakkarræðu sinni.

- Auglýsing -
Jane Campion

Kona hlaut Óskarsverðlaunin fyrir bestu leikstjórn – annan árið í röð. Það var leikstjórinn Jane Campion, fyrir kvikmyndina The Power of the Dog. Það var Chloé Zhao sem fékk Óskarinn fyrir bestu leikstjórn á síðasta ári, fyrir kvikmyndina Nomadland.

Jane Campion er þriðja konan í sögunni til að hreppa styttuna fyrir bestu leikstjórn.

Óskarsverðlaunahátíð ársins 2022 innihélt því marga sögulega sigra og virðist hátíðin vera að vinna á í fjölbreytni, eftir að hafa töluvert verið gagnrýnd síðustu ár fyrir að vera afar einsleit.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -