Andri Gunnarsson lögmaður og eiginkona hafa keypt Arnarneshöll sem áður heimili Róberts Wessman forstjóra Alvogen á 370 milljónir króna. Áður hafði Magnús Jónsson fyrrum forstjóri Atorku, gjarnan kallaður „Texashrottinn“ átt heimili í húsinu ásamt fjölskyldu sinni. Húsið sem þykir einstaklega glæsilegt er hannað af Halldóri Gíslasyni arkitekt og stendur við Tjaldanes í Garðabæ. Mannlíf greindi fyrst fjölmiðla frá því að Róbert vildi selja húsið sumarið 2021 og óskaði þá eftir 400 milljónum króna fyrir eignina sem auglýst var á vef fasteignasölunnar Borg. Völdum einstaklingum var boðið að skoða eignina. Fljótlega eftir umfjöllun Mannlífs var húsið hinsvegar tekið af vef fasteignasölunnar og sett í svokallaða „skúffusölu“.
Í maí síðastliðnum eignaðist félag í eigu Jóhanns Jóhannssonar, starfsmanns Róberts hjá Alvogen, höllina á 350 milljónir króna og hefur samstarfsmaðurinn því á örfáumm mánuðum hagnast um 20 milljónir króna á braskinu í gegnum einkahlutafélag sitt.
Lítt þekktur lögmaður, Andri Gunnarsson, hefur nú fest kaup á húsinu en hann komst einnig í fréttir vikunnar þegar tilkynnt var um nýja hluthafa í fjarskiptafélaginu Sýn. Hann er meðal hluthafa í Gavia Invest sem eignast hefur 16 prósent hlut í fjarskiptafyrirtækinu.
Borgarbókasafnið á „afslætti“
Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem starfsmenn Alvogen koma við sögu í fasteignaviðskiptum Róberts. Róbert hafði áður falið Árna Harðarssyni og Divya Patel að halda utan um eign í Borgarbókasafninu í gegnum aflandsfélagið Aztiq Cayman. Stundin greindi frá því að það félag hefði selt bókasafnið til Róberts á 410 milljónir króna á síðasta ári til félagsins Hrjáf ehf, í eigu lyfjaforstjórans. Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að húsið sé nú veðsett fyrir 1400 milljónir króna, meðal annars í gegnum Kviku banka. Mannlíf hefur áður greint frá því að Róbert hafði fyrirhugað að flytja inn í bókasafnið ásamt fyrrum eiginkonu sinni á þeim tíma sem starfsmenn Alvogen áttu húsið. Árni Harðarson sagði hinsvegar við fjölmiðla á árinu 2013 að húsið væri ætlað fyrir skrifstofur fjárfestingafélagsins Aztiq. Húsið hefur nú staðið autt í um 10 ár. Bókasafnið þykir eitt af glæsilegustu eignum borgarinnar og áætlað virði þess er vel á annan milljarð króna, samkvæmt heimildum Mannlífs. Róbert virðist því hafa eignast húsið á verulegu undirverði af undirmönnum sínum hjá Alvogen ef horft er til verðmats hússins í dag og kaupverðs Aztiq á húsinu á sínum tíma, ásamt kostnaði við viðhald og breytingar. Húsið var áður í eigu Ingunnar Wernesdóttur.
Fyrirvari 1: Róbert Wessman hefur verið kærður til lögreglu fyrir aðild og yfirhylmingu í tengslum við innbrot á skrifstofur Mannlífs. Honum hefur margsinnis verið boðið að tjá sig um þessi mál í Mannlífi, en ekki orðið við áskoruninni.
Fyrirvari 2: Ritstjóri Mannlífs vinnur að heimildabók um Róbert sem að hluta til er fjármögnuð af félagi sem er í eigu fyrrverandi samstarfsmanns auðmannsins.