Fimmtudagur 28. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Miðhiminn – starfsvettvangur, metnaður og orðspor

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Miðhiminn (Medium Coeli, MC) er ás í stjörnukortinu sem staðsettur er fremst í tíunda húsinu. Í stjörnuspeki er þetta mikilvægur punktur í hverju stjörnukorti sem getur sagt nokkuð til um það hvert lífshlaup þess sem um ræðir verður. Miðhiminninn er með sterk tengsl við starfsvettvang og það hvernig við kjósum að marka spor okkar í samfélaginu. Hann sýnir okkur hvert metnaður okkar beinist, hvað það er sem við viljum skilja eftir okkur og hvaða orðspori við sækjumst eftir. Miðhiminninn sýnir hvernig einstaklingurinn horfir á heiminn út fyrir sjálfan sig, hvernig hann nálgast fagleg sambönd og getur gefið sterka vísbendingu um það í hvaða störfum einstaklingurinn finnur mesta lífsfyllingu og hvar hann er líklegur til þess að ná árangri.

Til þess að finna út hvar miðhiminn þinn er þarftu að vita nákvæman fæðingartíma. Þú getur slegið hann inn á síðum á borð við Cafe Astrology.

 

Hrúturinn

Með miðhiminn í Hrúti er viðkomandi líklegur til að þurfa spennu og hraða í þeim störfum sem hann tekur sér fyrir hendur. Það þarf að vera rými fyrir sköpun og hvatvísi. Þessi einstaklingur hefur gaman af því að vera á ferð og flugi og fer illa að vera hlekkjaður við skrifborð á tilbreytingarlausri skrifstofu. Best væri að hann fengi að fara á hinn og þennan vettvanginn og upplifa tilbreytingu eins og hægt er.

Manneskja með miðhimin í Hrúti getur verið fær leiðtogi í þeim verkefnum sem vekja áhuga hennar. Reyndar er ekki ólíklegt að það henti henni betur að vinna sjálfstætt eða stofna sitt eigið fyrirtæki og þannig vera sinn eigin yfirmaður, frekar en að vinna undir einhverjum öðrum.

Það er ekki óalgengt að fólk með miðhimin í Hrúti verði einhvers konar frumkvöðull. Þetta er afskaplega hugmyndaríkt fólk og orkumikið. Því ferst þannig yfirleitt vel úr hendi að byrja ný verkefni og hrinda hugmyndum í framkvæmd.

- Auglýsing -

Hvatvísi þessara einstaklinga gerir þeim kleift að taka áhættu sem er oft algjörlega þess virði, en stundum getur hvatvísin þó komið þeim í vandræði. Eins góðir og þeir eru í að byrja á nýjum verkefnum getur það líka reynst þeim þrautin þyngri að fylgja þeim eftir og klára málin. Þessir einstaklingar eru líka bráðir og geta styggt fólkið í kringum sig með skapofsa. Það er mikilvægt fyrir fólk með þennan miðhimin að læra að kjarna sig, greina á milli hugrekkis og fífldirfsku og halda stillingu gagnvart fólki í kringum sig. Hugleiðsla getur hjálpað þeim heilmikið, sem og að passa upp á að stunda reglubundna hreyfingu til að losa um orku.

 

 

- Auglýsing -

Nautið

Þeir sem eru með miðhimin í Nauti eru líklegir til að leita eftir ákveðnum stöðugleika í störfum sínum. Afkoma skiptir þá miklu máli og því er of mikil óvissa ekki holl fyrir þá. Það er líklegt að þeir reyni allt hvað þeir geta til að koma sér í þá stöðu að þurfa ekki að hafa áhyggjur af peningum. Þeir gera líka ákveðnar þægindakröfur og eru ekki til í að lifa „hvernig sem er“. Heimilið er þeim mikilvægt og því er ekki ólíklegt að þetta fólk reyni snemma að festa kaup á eigin fasteign. Glæsileiki umlykur þetta fólk og það býr yfir djúpum sköpunarkrafti.

Fólk með miðhimin í Nauti er metnaðargjarnt og vinnur öll sín verkefni vandlega. Það kann þó ekki vel við að þurfa að gera hlutina of hratt og vill fá að taka sér tíma og fara djúpt ofan í saumana á viðfangsefnum sínum. Þetta fólk nær markmiðum sínum yfirleitt og gerir það með glans, en þarf stundum að fá að taka sér tíma í það. Fyrir þessa einstaklinga er stöðugleiki og öryggi í vinnu og afkomu lykillinn að kvíða- og áhyggjuleysi.

Sem starfsmaður er einstaklingur með miðhimin í Nauti traustur og áreiðanlegur. Það er ákveðið öryggi sem skín af þeim og sem yfirmenn vekja þeir traust fólksins sem starfar með þeim. Fólki finnst það yfirleitt í góðum höndum í kringum þessa einstaklinga.

Þessar manneskjur geta verið afar þrjóskar og það er stundum erfitt fyrir þær að vera sveigjanlegar eftir að þær hafa einu sinni gert upp hug sinn. Þeim hættir til þess að festast í hjólförum og geta verið ansi vanafastar.

 

 

Tvíburarnir

Fólk með miðhimin í Tvíburunum þarf á töluverðri tilbreytingu að halda þegar kemur að verkefnum og störfum. Það hentar því vel að starfa með öðrum í miklum félagslegum samskiptum. Þetta fólk þarf að geta talað, rökrætt og kastað hlutum á milli. Það er heillandi og getur verið dálitlir daðrarar. Daðrið nota þeir stundum til að koma sér áfram.

Sá sem er með miðhimin í Tvíburunum er ekki við eina fjölina felldur og er líklega gjarn á að skipta um skoðun og snúa hlutum á alla mögulega kanta. Hann þarf því að vera í vinnu sem gerir honum kleift að gera nákvæmlega það, eða skipta af og til um starfsvettvang. Hann verður að vera nánast á stanslausri hreyfingu og of vanaföst verkefni í of langan tíma geta gert hann eirðarlausan. Það þarf að vera ákveðin spenna og nóg af óvæntum uppákomum. Það er ágætt ef starf hans getur á einhvern hátt leyft honum að fara á milli staða og vinna á hinum og þessum vettvangi.

Þessi einstaklingur getur verið liðtækur sáttasemjari – hann á auðvelt með að skilja mismunandi hliðar út frá vitrænu sjónarhorni og hjálpa fólki að mætast á miðri leið. Það er fínt fyrir hann að fá að spreyta sig á einhverju slíku.

Það er ekki óalgengt að manneskja með miðhimin í Tvíburunum finni sig í starfi blaðamanns eða ef til vill í spennandi starfi innan auglýsinga- og markaðsgeirans.

Það sem fólk með miðhimin í Tvíburunum þarf að hafa í huga er að vera ekki of hvatvíst öllum stundum. Sömuleiðis á þetta fólk oft erfitt með að taka ákvarðanir eða taka afstöðu og standa með henni. Þetta getur vakið upp vantraust annarra. Því þarf þetta fólk að gæta þess að fría sig ekki ábyrgð og hafa í huga að sumt er þess eðlis að það kallar á sterka afstöðu.

 

 

Krabbinn

Þegar miðhiminn er í Krabbanum er fólk líklegra en ekki til að finna sig í störfum þar sem það getur hjálpað öðrum með einhverjum hætti. Þetta eru næmir einstaklingar sem fá mikið út úr ýmiss konar heilandi athöfnum. Þeir eru góðir í að lesa aðra og skynja líðan þeirra. Þetta er náðargáfa sem getur komið þeim ansi langt í störfum sem hafa með einhvers konar heilun eða hjálp að gera. Þar sem þeir eru hvort tveggja næmir á líðan annarra og nærgætnir, þá ferst þeim oft vel úr hendi að fá fólk til að tjá sig og segja þeim persónulega hluti. Þannig eru þeir oft góðir sálfræðingar eða meðferðaraðilar. Sömuleiðis eru þeir yfirleitt öflugir heilarar, kjósi þeir að fara slíka leið.

Sem yfirmenn eru þessir einstaklingar sérstaklega skilningsríkir og búa yfir ríkri samkennd. Það er gott fyrir samstarfsfólk og undirmenn að leita til þeirra og þeir þykja oft sanngjarnir. Orðsporið verður yfirleitt gott. Ofurkraftur þessara einstaklinga er í raun að vera í eins góðri tengingu við tilfinningahlið sína og raun ber vitni. Það þýðir að þeir eru ólíklegri en aðrir til að loka á tilfinningar eða hólfa líðan sína niður. Fólk sem gerir það á nefnilega á hættu að lenda í kulnun. Sá sem er með miðhimin í Krabbanum tekur frekar eftir því þegar hallar á tilfinningar hans og líðan og er fljótur að finna á hverju hann þarf að halda.

Það er almennt gott að vera í kringum þetta fólk og frá því stafar hlýja. Samstarfsfólk sækir sér gjarnan stuðning til þess. Það er lítið á útopnu og kýs frekar að stjórna undir yfirborðinu. Þetta fólk getur verið lúmskt og ber metnað sinn ekki utan á sér. Það fellur ekki inn í hugmynd um stóran og sterkan leiðtoga, en getur þrátt fyrir það haft mun meiri stjórn á umhverfi sínu og fólki en nokkurn grunar.

Það sem þessir einstaklingar þurfa að passa er að taka ekki allt inn á sig. Þeir geta verið ansi hörundsárir, en sár annarra geta líka farið að hafa djúpstæð áhrif á þá ef þeir taka endalaust við án þess að brynja sig á einhvern hátt.

 

 

Ljónið

Sá sem hefur miðhimin sinn í Ljóninu er umfram allt leiðtogi – það hreinlega stafar af honum öryggi, stjórn og styrkur. Hann kann yfirleitt vel við sig í sviðsljósinu, en er samt sem áður góður í að láta aðra finna til mikilvægis. Þannig dragast aðrir að honum og líður vel í kringum hann.

Fólk með þennan miðhimin er afar ástríðufullt. Ef það er ástríðufullt fyrir einhverju fær ekkert það stöðvað.

Auk þess að búa yfir mikilli leiðtogafærni er þetta skapandi fólk. Vegna þess hve ófeimið það er, og að mörgu leyti hrifið af sviðsljósinu, er ekki óalgengt að fólk með miðhimin í Ljóninu sæki í greinar eins og leiklist eða tónlist. Greinar þar sem það getur staðið á sviði og gefið tjáningu sinni lausan tauminn. Þessir einstaklingar eru afar metnaðargjarnir. Þeir geta þó stundum misst sjónar á markmiðum sínum þegar þeim bjóðast viðurkenningar eða aðdáun einhvers staðar á leiðinni. Þeir eru virkilega flinkir í að tala fyrir framan stóran hóp af fólki og hrífa aðra auðveldlega með sér. Þeir eru afar sannfærandi. Þeim er mikilvægt að hafa í huga mikilvægi þess að ígrunda vel það sem þeir ætla að segja, til að koma í veg fyrir óþarfa drama. Þeir eiga það nefnilega til að vera full hreinskilnir og tala áður en þeir hugsa.

Þrjóska og stolt liggur í ljónsins eðli, og miðhiminn er engin undantekning þar á. Þetta fólk þarf stundum að minna sig á að það sjálft er ekki upphaf og endir alls – og að ekki dugar að taka öllu persónulega.

 

 

Meyjan

Fólk með miðhimin í Meyjunni ferst allt skipulag vel úr hendi og er snillingar í verkefnastjórnun. Þetta fólk á auðvelt með að ná yfirsýn í flóknum verkefnum og fái það tækifæri til þess getur það skinið skært í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum. Það væri óskandi að í öllum samstarfsverkefnum væri einn aðili með þennan miðhimin – þá gengi allt töluvert betur fyrir sig. Þessir einstaklingar virðast líka einhvern veginn geta hlaðið á sig endalausum verkefnum, að því er virðist án þess að blása úr nös. Þeir eru afar færir í að halda mörgum boltum á lofti í einu og þola ekki að sitja auðum höndum. Þeir setja hins vegar mikla pressu á sjálfa sig og eru oft með mikla fullkomnunaráráttu. Í þeirra augum er eins og ekkert sé nokkurn tíma nógu gott. Þessi hugsunarháttur getur valdið þeim kvíða og lágu sjálfsmati.

Þetta fólk á það líka til að beina ofurnákvæmni sinni og gagnrýni að fólkinu í kringum sig og samstarfsfólki sínu. Þannig getur mörgum virst ómögulegt að mæta kröfum þess og sumum getur þótt það dálítil vélmenni.

Fólk með miðhimin í Meyjunni elskar að fást við hluti sem krefjast nákvæmni þess og vökuls auga. Meyjan hefur almennt áhuga, innsæi, sem og hæfileika þegar kemur að hlutum sem tengjast líkamanum. Þannig ferst þeim oft vel að starfa við eitthvað sem tengist heilsu, íþróttum, næringu eða lækningu. Fólk með þennan miðhimin kann oft stórvel við sig innan heilbrigðiskerfisins og ófáir í þeim hópi enda jafnvel sem skurðlæknir.

 

 

Vogin

Manneskjur sem hafa miðhimininn sinn í merki Vogarinnar eru yfirleitt mjög listrænar. Þær eru líka fágaðar og hafa næmt fegurðarskyn. Fáist þær við einhvers konar listir geta þær yfirleitt lyft flestum slíkum verkefnum á næsta plan með listfengi sínu og næmni. Það er eins og þær geti alltaf veifað töfrasprota sínum og gert hluti betri en þeir voru fyrir.

Þær eru félagslyndar og búa líka yfir mikilli færni í félagslegum samskiptum. Þær elska að vinna með öðrum og vilja hafa tækifæri til þess að kasta hugmyndum á milli. Þannig komast þær í sitt mest skapandi form.

Einstaklingar með miðhimin í Voginni eru einstaklega góðir í að skilja ólíkar skoðanir og upplifun fólks og að setja sig í spor annarra. Þetta gerir þá að færum diplómötum og kjósi þeir slíkan starfsvettvang geta þeir oftast náð langt og notið sín vel. Þeir eru líka með afar sterka réttlætiskennd og sækja í að hjálpa öðrum. Þetta er fólk sem þolir ekki ójafnvægi, bæði í samskiptum sem og í heiminum almennt. Stundum finnur það sinn vettvang innan lögfræði, af mannúðarástæðum sem og fyrir tilstilli réttlætiskenndarinnar sem er þeim alltaf eins og kompás.

Þessu fólki fylgir yfirleitt ákveðin mýkt og hlýja sem hefur róandi áhrif á aðra sem starfa með því eða í kringum það. Allt sem hefur með fólk, samskipti og hlustun að gera er þeim í blóð borið.

Þessum manneskjum er afar annt um orðspor sitt og hvernig þær koma fyrir. Þeim er langt í frá sama um hvað öðrum finnst um þær. Þetta getur stundum gengið of langt og verið þeim til trafala. Þá fara þær að velta sér um of upp úr áliti annarra og verða sem lamaðar, eiga erfitt með að taka ákvarðanir, standa með skoðunum sínum og geta orðið meðvirkar. Óákveðni fylgir þeim líka gjarnan og áhugasvið þeirra getur stundum orðið svo breitt að þær eiga erfitt með að festa sig í einhverju – þeim finnst þær geta gert svo margt og að það sé ómögulegt að velja eitthvað eitt. Þannig eru þær stundum með fullmörg járn í eldinum í einu og geta verið svolítil fiðrildi.

Mannúðarstörf, lögfræði, sem og störf sem diplómatar eiga vel við þessar manneskjur. Ekki síður hinar ýmsu listgreinar, eins og tónlist, leiklist, ritstörf og dans.

 

 

Sporðdrekinn

Einstaklingur með miðhimin í Sporðdrekanum er afar kröftugur og ástríðufullur í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur, enda velur hann sér aldrei að sökkva sér í viðfangsefni nema þau virkilega kveiki í honum. Hann elskar allt sem tengist einhvers konar rannsóknarvinnu; hann vill skilja alla mögulega hluti og ávallt komast á dýptina. Honum farnast oft vel sem einhvers konar rannsóknarlögregla, rannsóknarblaðamaður eða hreinlega njósnari.

Það sem einkennir þessa einstaklinga sérstaklega er dýptin; það virðist aldrei grunnt á neinu og ef þeir hafa áhuga á einhverju þá fer það alla leið. Þeir eru líka sérlega færir í að lesa fólk og næmir á mannlegt eðli. Þeir heillast oft af myrkum hliðum lífsins. Geðlækningar gætu bæði farist þeim vel úr hendi og kveikt áhuga þeirra, en sömuleiðis verða þessir einstaklingar oft listamenn sem fást við viðfangsefni sem eru á einhvern hátt tabú.

Sá sem er með miðhimin í Sporðdrekanum elskar að gera alls kyns uppgötvanir. Hann nýtur þess að taka hluti í sundur og setja þá aftur saman. Mannshugurinn heillar mjög, sem og geðveiki og allt sem getur talist furðulegt eða öðruvísi í hinu mannlega eðli.

Þessi einstaklingur getur verið svo ákafur að það breytist hreinlega í þráhyggju. Hann er líka afar þrjóskur í eðli sínu. Það er erfitt að beygja hann og hann mun ekki alltaf hlusta á tillögur annarra. Hann þarf að æfa sig í að vinna í sátt og samlyndi við annað fólk, þá farnast honum best. Hann getur orðið svolítið hungraður í einhvers konar völd, ef hann fer ekki varlega og jarðtengir sig. Völd fyrir honum hafa þó allt með hugann, stjórnun og stöðu að gera – ekki peninga.

 

 

Bogmaðurinn

Manneskja með miðhimin í Bogmanninum er bjartsýn í eðli sínu og nálgast viðfangsefni sín og störf á þann hátt. Hún er opin, bæði fyrir fólki og upplifun, og er á sífelldri hreyfingu. Kyrrstaða er ekki til í orðabók hennar. Hún elskar að uppgötva sífellt eitthvað nýtt og læra.

Þetta er hinn ákafi, áhugasami nemandi. Hann kann vel við sig þegar hann fæst við eitthvað sem er í stöðugri þróun. Það er mjög gott ef starf hans getur innihaldið ferðalög, því hann elskar að heimsækja og uppgötva nýja staði og menningu. Hann lærir best með upplifun.

Hann á afar gott með að fá fólk með sér í lið og er fær í að hjálpa öðrum að skilja hluti og kveikja áhuga þeirra. Þessir eiginleikar gera hann að einstaklega góðum kennara. Hann er í eðli sínu rannsakandi; vísindi og kenningar heilla hann gjarnan.

Sá sem er með miðhimin í Bogmanninum er afar félagslyndur. Hann kann vel við að vera í kringum fólk og eiga lifandi samskipti og rökræður.

Það býr mikill sprengikraftur í þessum einstaklingum og þeir eiga gott með að byrja á nýjum verkefnum og setja í þau ógrynni af orku. Þeir eiga það hins vegar til að ætla sér of mikið í einu og eiga stundum erfitt með að klára og fylgja verkefnum eftir. Þessir einstaklingar eru oft dálítið óstundvísir og geta verið kærulausir. Þeir eru merkilega þrjóskir og ef þeir eru reittir til reiði sýna þeir oft óvænt stórt skap sitt og geta reiðst ansi hratt og farið geyst í skapofsa sínum. Það er mikilvægt að þeir læri að temja sitt eigið egó.

 

 

Steingeitin

Þetta er líklega vinnusamasta staðsetning miðhiminsins af þeim öllum. Metnaðargirni litar allt sem manneskja með miðhimin í Steingeitinni tekur sér fyrir hendur. Hún er yfirleitt með háleit markmið og ætlar sér langt. Einhvern veginn virðist hún alltaf ná markmiðum sínum, stórum sem smáum.

Hún er afskaplega meðvituð um hið veraldlega og vill ákveðin þægindi og öryggi í lífinu. Hún er þó alls ekki hrifin af miklu glimmer og glamúr – allt slíkt finnst henni yfirleitt óþarfi. Gæði skipta hana hins vegar miklu máli. Hún er líkleg til að safna að sér hinum og þessum stöðutáknum, á borð við vandaðar hönnunarflíkur, góða bíla og slíkt.

Þessi manneskja er afar flink í viðskiptum og sérlega sleip þegar kemur að peningum. Hún gæti auðveldlega náð langt á fjármála- og viðskiptasviðinu. Hún hefur gott nef fyrir fjárfestingum.

Manneskja með þennan miðhimin er oft með óvenjulegan og kaldhæðinn húmor. Hún gæti auðveldlega gert sér mat úr því og sumar þeirra gera það sannarlega, til dæmis á sviði uppistands eða skrifa; hvort sem er bækur, sjónvarp og kvikmyndir, eða leikhús.

Það er þessari manneskju afar mikilvægt að eiga nóg og hún er skynsöm þegar kemur að persónulegum fjármálum. Hún forðast skuldir eins og heitan eldinn og ef hún fær peninga lánaða, sem hún gerir þó helst ekki, þá borgar hún þá til baka um leið og hún á nokkurn möguleika á því, jafnvel þótt hún þurfi að lifa á núðlum í mánuð á eftir.

Hún virðist stundum hafa allt skrifað hjá sér – hún gleymir engu. Stundum reynist henni erfitt að treysta fólkinu í kringum hana og hún tekur enn fleiri verkefni að sér – svo það sé nú öruggt að ekkert klúðrist.

Hún sækir oft ósjálfrátt í valdastöður. Það hentar henni betur að vera yfir öðrum en aðrir yfir henni. Hún kann vel við að stjórna, en er þó almennt skynsöm í stjórnun sinni. Skuggahlið hennar er að hún á það til að verða upptekin af völdum. Til þess að það gerist ekki þarf hún að muna að drekkja sér ekki í vinnu – það er nefnilega afar mikilvægt fyrir þessa einstaklinga að halda jafnvægi á milli vinnu og einkalífs, þótt þeir virðist stundum hreinlega lifa fyrir vinnuna. Þeir verða að muna að umkringja sig jarðtengdu fólki sem þeir geta treyst og þykir gaman að vera í kringum. Enginn er svo ómissandi að hann geti ekki tekið sér frí.

 

 

Vatnsberinn

Það er þessum einstaklingi eðlislægt að horfa frekar út á við en inn á við. Sá sem hefur miðhimin í Vatnsberanum er heillaður af mannfólki, byggingu samfélagsins og samfélagsmálum. Hann er forvitinn og hugmyndaríkur. Aðstæður þar sem hægt er að stúdera annað fólk og samfélagið í heild henta honum vel.

Þessi manneskja er oft óvenjuleg í fasi og framkomu og þarf að fá sitt pláss til að tjá sig á ósvikinn hátt. Hún hugsar nánast alltaf út fyrir kassann. Það sem henni líkar verst af öllu er að vera þröngvað í fyrirfram ákveðið mót.

Frelsi er þessu fólki mjög mikilvægt, í öllum skilningi. Það er til að mynda næsta víst að tilbreytingarlaust starf, þar sem það er gróið við sama skrifborðsstólinn dag eftir dag, er því ekki að skapi. Starfsvettvangur sem tengist samfélagi, mannúðarstörfum eða aktívisma á einhvern hátt hentar þessu fólki oft mjög vel. Vísindi eða tækni geta líka heillað það.

Þessir einstaklingar eiga oft auðvelt með að halda utan um staðreyndir og tölur. Þeir eru þannig liðtækir í rannsóknarvinnu og öflun gagna – og þykir afar áhugavert að rýna í þau, svo lengi sem þau tengjast einhverju sem þeim þykir skipta máli. Þeir eiga auðvelt með að aftengja sig tilfinningalega og nálgast hlutina frekar út frá huglægu sjónarhorni.

Það er þeim í blóð borið að vilja bæta heiminn og þeim er yfirleitt mjög annt um náttúruna og dýr.

Þetta eru þrjóskupúkar og þverhausar sem geta verið merkilega ósveigjanlegir í skoðunum sínum, miðað við hversu víðsýnir þeir eru. Öðrum getur virst þeir kaldir, vegna framangreinds hæfileika í tilfinningalegri aftengingu – en þeim er nokk sama.

 

 

Fiskarnir

Fólk með miðhimin í Fiskunum er uppfullt af listfengi og næmni. Það á mjög auðvelt með að setja sig í spor annarra. Þetta er draumórafólk sem lætur sig vandamál heimsins varða og vill bæta allt og fegra.

Þessir einstaklingar eru hálfgerð kamelljón sem sveiflast með því umhverfi sem þeir eru staddir í hverju sinni. Þeir búa þannig sömuleiðis yfir ríkri aðlögunarhæfni, sem kemur þeim oftast mjög vel þegar þeir færast á milli verkefna og starfa.

Það er alls ekki óalgengt að fólk með miðhimin í Fiskunum sé listamenn og það nær oft langt á því sviði. Það hefur að gera með óbilandi ímyndunarafl og sköpunargáfu þeirra, sem og aðlögunarhæfni og næmni á upplifun, sögur og tilfinningar annarra. Það er ekki óalgengt að leiklist verði fyrir valinu. Þetta fólk virðist oft festast í dagdraumum og því finnst það oft hreinlega fá hugmyndir úr annarri vídd.

Oftast er þetta hlýtt og óhefðbundið fólk sem hefur þörf fyrir að hjálpa öðrum. Þessir einstaklingar hafa djúpa skynjun og næmt auga á fegurð og sækjast eftir því að fegra lífið með öllum ráðum. Stundum er eins og þeir sjái heiminn með rósrauðum gleraugum, en það er ekki síst varnarviðbragð – þeir verða ansi daprir ef þeir leyfa sér að finna og sjá allt sem þeim finnst vera í ólagi.

Fjölbreytt störf sem krefjast ekki nákvæmlega þess sama dag frá degi henta þessum einstaklingum best. Þeir eiga það til að vera dálitlir sveimhugar og geta gleymt sér í höfðinu á sjálfum sér. Þeir geta líka verið nokkuð óskipulagðir og uppfullir af einhvers konar athyglisbresti.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -