Hljómveitin Ormar gáfu út á dögunum lagið Vanda sem er þriðja smáskífan af komandi plötu. Bandið verið iðið við að gefa út tónlist síðan fyrsta lag þeirra, Aftur á bak, leit dagsins ljós í febrúar á síðasta ári. Þá var hljómsveitin meðal annars tilnefnd til Hlustendaverðlaunanna fyrr á árinu.

Ljósmynd; Aðsend
Útvarpsstöðin X-977 hefur verið hljómsveitinni hliðholl og hafa lög Orma fengið þar mikla spilun og nokkur þeirra ratað í toppsæti vinsældalista rásarinnar. Má þar nefna lögin Aðeins hærra, Hyldýpi og Seint.
Öll lög Orma hingað til hafa átt það sameiginlegt að vera kraftmikil og drífandi rokklög en í nýja laginu stíga þau varlega á bremsuna og skipta um gír.
Að sögn hljómsveitarinnar er Vanda tregafullt lag; einmannalegt, rólegt og drungalegt. Lagið er tilfinningaþrungið ferðalag og sannarlega ekki hið týpíska lag til að senda frá sér í byrjun sumars. Í tilefni útgáfunnar vilja Ormar jafnframt þakka almættinu fyrir snjóþunga byrjun á fallegu sumri.
Hlusta má á lagið hér.