Mánudagur 27. mars, 2023
0.8 C
Reykjavik

Pete lét ekki sjá sig í SNL á laugardag: Talið tengjast deilunum við Kanye West

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Pete Davidson, grínisti, leikari og fastur meðlimur í skemmtiþættinum Saturday Night Live, var fjarri góðu gamni í þættinum síðasta laugardag, 26. febrúar. Strax fóru af stað vangaveltur um að fjarvera hans hlyti að vera vegna erja hans við rapparann Kanye West.

Deilurnar milli Kanye West og Pete Davidson hafa eflaust ekki farið framhjá þeim sem á annað borð fylgjast með slúðurmiðlum vestanhafs – nú, eða Instagram-reikningi West, sem hefur farið mikinn undanfarið. Þar hefur hann birt hverja árásina á fætur annarri á Pete Davidson, ýmist í formi myndefnis eða færslna um hatur sitt á þeim síðarnefnda.

Davidson er nú í sambandi með Kim Kardashian, en hjónabandi hennar og West lauk snemma á síðasta ári. West hefur ekki farið leynt með að samband þeirra tveggja hafi verið upphaf þess æsings sem hann hefur viðhaft undanfarið. Hann hefur til að mynda birt skjáskot af skilaboðum milli hans og Davidson, þar sem Davidson virðist reyna að lægja öldurnar og segist vona að með tímanum geti þau öll átt góð samskipti. Kanye gaf ekki mikið út á það í færslunni og bætti um betur með því að fullyrða að Davidson fengi aldrei nokkurn tíma að hitta börn þeirra Kardashian.

Fjarvist Davidson úr þættinum hefur þó verið skýrð með þeim hætti að hann hafi verið önnum kafinn í vinnu við nýjustu kvikmyndina sína, The Home. Tímasetningin sé því hrein tilviljun. Ekki virðast þó allir á eitt sáttir við þá skýringu og aðdáendur keppast við að koma með kenningar sem flestar snúa að deilum mannanna tveggja.

Mynd sem nýlega náðist af Kim Kardashian og Pete Davidson.

Kuldi allt frá árinu 2018 – SNL og MAGA-húfan

Þeir West og Davidson hafa þó eldað grátt silfur saman um lengra skeið, allt frá árinu 2018. West varð víst ævareiður út í Davidson eftir að sá síðarnefndi kom fram í Saturday Night Live og talaði um hegðun West í þættinum vikuna á undan, þar sem hann kom fram með MAGA-húfu og hélt ræðu til stuðnings Donald Trump. MAGA stendur einmitt fyrir Make America Great Again, sem hefur verið slagorð Trump frá því í fyrstu kosningabaráttu hans áður en hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna.

„Hann byrjaði á því að segja að fólkið baksviðs hefði reynt að þjarma að honum svo hann væri ekki með hana [húfuna]. Hann var með hana alla vikuna. Enginn sagði honum að klæðast henni ekki. Ég vildi að ég hefði þjarmað að þér. Ég vildi að ég hefði bent á að, þú veist, það gæti misboðið einhverjum, eins og konunni þinni eða öllum svörtum manneskjum, nokkurn tíma,“ sagði Davidson í þættinum og var ómyrkur í máli.

- Auglýsing -

Hann bætti við að Kanye West væri snillingur, en að það einskorðaðist við tónlist. Hann hefði takmarkaðan áhuga á að heyra um skoðanir West á öðru en tónlistartengdum hlutum. Hann kom einnig inn á geðræn vandamál West, en hann er greindur með geðhvarfasýki og hefur gefið það opinberlega út að hann neiti að taka inn lyf til þess að hafa stjórn á sjúkdómnum.

Davidson sagði það fráleitt að West væri skýlt á bak við veikindin þegar hann kæmi illa fram. Hann lagði það til að West endurskoðaði alvarlega þá ákvörðun að taka ekki inn lyf. Davidson var sjálfur greindur með jaðarpersónuleikaröskun árið 2017 og hefur talað opinskátt um sína baráttu og það hvernig hann vinnur í að halda jafnvægi og líða vel.

„Það að vera með geðröskun er ekki afsökun fyrir því að haga sér eins og fáviti, allt í lagi?“

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -