Sunnudagur 2. október, 2022
8.8 C
Reykjavik

Setja upp fullorðinssýningu í herrafataverslun

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Burlesk leikur sér að kyntjáningu, húmor og holdi og fólk má leggja þá meiningu sem það vill í „fullorðinssýning“, segir Margrét Erla Maack, fjöllistakona og framkvæmdastjóri Reykjavík Kabarett sem vaknar úr dvala á laugardagskvöld og tekur höndum saman við Vínstúkuna og Skjáskot og færir Íslendingum skemmtun, burlesk-kabarett og mat heim í stofu. Að sögn Margrétar Erlu er þetta fyrsti fjar-jóla-burlesk-kabarettinn á Íslandi þar sem boðið er upp á heimsendan mat og sýningu í beinni útsendingu.

Hefur þetta aldrei verið gert áður á Íslandi? „Ekki með þessu móti, nei. Fyrirtæki hafa haldið fjarskemmtanir og sent mat heim til starfsfólksins síns, en ég held að þetta sé fyrsti svona pakkinn sem er ekki inn í fyrirtækjaskemmtun heldur stendur almenningi til boða. En jú, þetta er fyrsti fjar-jóla-burlesk-kaba-rettinn þar sem boðið er upp á mat og er í beinni útsendingu frá herrafataverslun,“ segir hún og skellir upp úr.

Sýningin er á vegum Reykjavík Kabarett sem er brautryðjandi í burlesk-kabarettheiminum á Íslandi að sögn Margrétar Erlu. „Nadia verður með burlesk, Gógó Starr verður með boylesque með smjöri svona í tilefni jólanna og Lalli töframaður gerir eitthvað óhuggulegt í miklu návígi með hjálp myndavélanna. Gestir á sýningunni eru svo Bobbie Michelle húlladrottning og svo skemmtikraftakarlarnir Nonni og Sindri sem eru gríðarlega glæsilegir fimleikafolar. Ég sjálf er svo að vinna í nýju atriði með spritt- og grímuþema. Útsendingin verður svo með aktívum spjallþræði þar sem gestir geta verið í samskiptum við okkur á meðan sýningunni stendur, senda klapp-tjáknið eða ferskjuna. Svona til dæmis,“ segir hún létt í bragði.

„Jiminn hvað við öll hlökkum til að sprella.“

Nú kemur fram að þetta sé fullorðinssýning, hvað þýðir það? „Burlesk leikur sér að kyntjáningu, húmor og holdi og fólk má leggja þá meiningu sem það vill í „fullorðinssýning“. Við mælum alla vega með því að svæfa fyrir sjóv,“ segir hún og blikkar.

Margrét Erla segist hlakka til kvöldsins. „Fiðringurinn er sannarlega kominn,“ segir hún glaðlega. „Að setja upp svona sýningu er svo rosalega skemmtilegt og við söknuðum þess öll. Á þessum tíma værum við öll út um allar trissur að skemmta, sérstaklega á jólahlaðborðum,“ segir hún. Mynd / aðsend Gallery Undirheimar

Spurð hvort það sé svolítið djörf hugmynd að slá upp svona sýningu í fataverslun læðist bros fram á varir hennar. „Jú, þetta er í fyrsta sinn sem fólk kemur inn í fataverslun til að fækka fötum en ekki bæta þeim á sig,“ segir hún og hlær. „Við Óli á Vínstúkunni ætluðum fyrst að setja upp sýninguna hjá honum en svo virkar lofthæðin þar ekki alveg fyrir sirkusdýrin í sýningunni. Þar sem við erum miklar miðbæjarklappstýrur lá beinast við að ræða við vini okkar hjá Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar. Þar er allt til alls: Húmor, þor, lofthæð og gott pláss til að allir geti passað upp á fjarlægð. Svo er þetta ein fallegasta búð í heimi.“

Gógó Starr verður með boylesque með smjöri svona í tilefni jólanna. Mynd / aðsend Auðunn Níelsson

En hvernig datt ykkur þetta eiginlega í hug? „Í raun byrjaði þessi hugmynd eftir að við Bragi, kollegi Óla, töluðum á streymisfundi Viðreisnar um veitinga- og gigggeirann. Þetta var hjá framleiðslu- og viðburða-fyrirtækinu Skjáskoti og í kjölfarið á fundinum fórum við Óli að tala um hvaða möguleikar væru í stöðunni eins og fyrir okkur kabarettfólkið sem sitjum núna uppi með nokkuð súran desember út af ástandinu og langar að búa okkur til vinnu. Við Óli erum svona vinir sem megum helst ekki tala of mikið saman, því við byrjum alltaf að vesenast eitthvað. Nema hvað, talið barst að gömlum burlesknemendum mínum, Túttífrúttunum, sem hafa staðið að tveimur streymis-sýningum sem hafa verið mjög flottar og vel sóttar, og að veitingastöðum sem eru farnir að bjóða upp á alls konar mat til að taka með, af því að þeir eru svo beislaðir af fjöldatakmörkunum. Þannig varð þessi hugmynd til,“ segir hún. „Skjáskot hefur svo allt sem þarf til að láta svona sýningu ganga upp, hvaðan sem er og delipakkinn frá Vínstúkunni hentar vel með konseptinu.“

- Auglýsing -

Og var ekkert mál að fá listamenn til að koma fram? „Ónei. Þetta fólk er allt haldið mikilli sviðsgreddu! Það er ekkert leyndarmál að það er jafn skemmtilegt baksviðs og á sviðinu í þessum kabarettheimi. Við söknum hvors annars og við söknum þess að vinna saman. Kabarettinn byggir líka á endalausum tilraunum og að vera frumleg, þannig að við erum til í þessa tilraun,“ segir Margrét Erla full tilhlökkunar.

Nú eru margir sem kvartan og segjast vera að morkna úr leiðindum og tilbreytingaleysi í þessu endalausa Covid-ástandi. Má ekki segja að þessi sýning verði svona ákveðin upplyfting? „Sannarlega. Fyrir gestina auðvitað. En jiminn hvað við öll hlökkum til að sprella á ný. Við verðum eins og kýr að vori!“

Margrét Erla bendir á að áhugasamir geti nálgast allar frekari upplýsingar á Facebok.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -