Föstudagur 19. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Skuggahliðar merkjanna – Fyrri hluti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eins og flest fólk, er hvert og eitt merki stjörnuspekinnar ýmsum kostum gætt. Að sama skapi eiga þau öll sína galla; jafnvel skuggahliðar sem fólk í þeim merkjum gæti þurft að vinna meira í en öðrum.

Í hinum og þessum spiritúalismanum er oft talað um skuggavinnu, eða „shadow work“, þar sem viðkomandi skoðar sérstaklega og vinnur með eigin skuggahliðar. Ekki með því að reyna að hrekja þær á brott eða fela þær, heldur þvert á móti með því að viðurkenna þær, skoða þær, læra að skilja þær og svo vinna með þær. Oft getum við lært margt af þessum hliðum okkar og stundum er okkur hreinlega lífsnauðsynlegt að tjá sumar þeirra, í réttu jafnvægi.

Skuggahliðar okkar eru jafn stór partur af okkur eins og þær björtu – enda getur ekkert ljós orðið án myrkurs. Eða, eins og meistari Leonard Cohen orti:

„There is a crack, a crack in everything. That’s how the light get’s in.“

Hér á eftir verður farið yfir nokkrar best þekktu eða mest áberandi skuggahliðar hvers stjörnumerkis fyrir sig. Taki þeir það til sín sem eiga. Líklega er best að biðja Ljónin afsökunar fyrirfram, enda vitum við öll að þau eru móðgunargjörnust.

Hér á eftir verður farið yfir fyrri helming merkja hringsins, fyrstu sex, frá Hrúti til Meyju. Í næsta helgarblaði Mannlífs birtist svo seinni helmingurinn, frá Vog til Fiska.

- Auglýsing -

 

Hrútur

 

Hvatvísi – Það getur stundum komið hrútnum í koll hversu hratt hann vill að allt gerist. Hann hefur ekki fyrr fengið hugmynd en hann er farinn af stað í framkvæmd. Þetta gerir hann drífandi en getur líka þýtt að hann gerir ýmislegt sem kemur honum í koll eða særir aðra.

- Auglýsing -

Skapofsi – Þegar hlutirnir fara ekki eins og hrúturinn ætlast til getur rignt eldi og brennisteini. Hrúturinn á oft afar erfitt með að stilla sig þegar hann verður og það getur valdið hans nánustu sársauka. Það getur líka haft slæm áhrif á hrútinn að vera sífellt að springa í loft upp, særa fólk og fæla það frá sér.

Egó – Egó hrútsins er stórt og mikið. Honum finnst hugmyndir sínar yfirleitt góðar og lítur almennt nokkuð stórt á sjálfan sig. Hann á stundum erfitt með að skilja það, þegar aðrir eru honum ekki sammála eða eru ekki fullkomlega heillaðir af hugmyndum hans.

 

Naut

 

Leti – Nautin eiga það til að missa niður metnað og verða framtakslaus. Þau elska að hafa það notalegt og geta svolítið gleymt sér í því. Það er ágætis merki um að naut þurfi að rífa sig upp þegar þau eru farin að halda til í joggingbuxum dag eftir dag, fyrir framan sjónvarpið eða í tölvuleikjum, umkringd skyndibitakössum.

Þrjóska – Naut eiga það til að vera ósveigjanleg þegar þau hafa bitið eitthvað í sig. Þau eru afar hugsandi og ana ekki að neinu. Þess vegna líta þau svo á að þegar þau hafi hugsað eitthvað vandlega og tekið vel ígrundaða ákvörðun, sé engin ástæða til þess að breyta henni. Þetta getur gert að verkum að þau eiga erfitt með að hlusta á hugmyndir og skoðanir annarra. Þau eiga það þannig til að festast í hjólförum.

Stolt – Stoltið getur komið nautunum í koll. Þau þola það illa að stolt þeirra sé sært eða ef þau upplifa einhvers konar niðurlægingu, sama hversu lítilvæg sem hún kann að vera. Ekkert slíkt er lítilvægt í huga nauta. Þannig geta þau upplifað stolt sitt sært af minnstu ástæðu, en stolt þeirra getur líka komið í veg fyrir að þau geri það sem er þeim fyrir bestu eða fyrirgefi öðrum.

 

Tvíburi

 

Rótleysi – Það getur reynst tvíburanum flókið að festa sig niður og hann á það til að forðast skuldbindingar. Hluti af því er óákveðni hans, annar hluti er hve erfitt hann á með að láta að stjórn og enn einn hluti er hreinlega sá að hann vill halda möguleikum sínum opnum. Þetta getur vissulega átt við um ástarsambönd, en ekki endilega. Þetta getur líka átt við um vinnu, heimili og hvers kyns ákvarðanir. Tvíburinn er á heildina litið ekki sérlega jarðbundinn.

Skapsveiflur – Þegar tvíburinn er glaður er hann mjög glaður. Þegar hann er reiður … þá viltu ef til vill bara sleppa því að vera í kringum hann. Margir sjá tvíbura fyrir sér sem glaða, káta grínista sem ávallt eru léttir í lundu. Þeir geta vissulega verið þannig, en hin hliðin á peningnum er töluvert myrkari. Þeir eiga það líka til að vera uppstökkir og í þeirra tilfelli á máltækið „skjótt skipast veður í lofti“ vel við.

Óheiðarleiki – Því miður er stundum hægt að góma blessaða tvíburana við að vera óheiðarlegir. Stundum vita þeir alveg hvað þeir eru að gera; segja eitt, gera annað – lofa einu og ganga svo á bak orða sinna eins og að drekka vatn. Hins vegar beinist óheiðarleikinn hreint ekki alltaf að öðru fólki. Sumir tvíburar ljúga hvað mest að sjálfum sér með því að viðurkenna ekki eigin tilfinningar, afneita sannleikanum og bæla sitt eigið eðli.

 

Krabbi

 

Móðgunargirni – Krabbar geta svo sannarlega verið hörundsárir. Stundum er hreinlega ekki hægt að segja hálft styggðaryrði við þá án þess að allt hrynji. Málið er að það er svo stutt niður í kviku á kröbbunum að þeir taka öllu persónulega. Þeir halda líka að allt sé persónulegt. Þeim finnst heimurinn og fólk grimmt og eiga oft von á því versta. Þeir eiga oft erfitt með að taka gagnrýni án þess að móðgast stórkostlega og fara í fýlu.

Feimni – Stundum getur verið erfitt að nálgast krabbana. Þeir eiga það til að festast inni í skel sinni og geta virst svolítið til baka. Þeir eiga dálítið erfitt með að treysta og byggja varnarveggi í kringum sig. Þeir þurfa oft að vinna markvisst í því að komast út úr skelinni, en ef þeir fá tíma til að treysta gefa þeir mikið af sér.

Afbrýðisemi – Þeir eiga stundum erfitt með að viðurkenna það, en krabbar eiga það ósjaldan til að verða afbrýðisamir. Þeir eru tortryggnir og eiga erfitt með traust. Það gerist því frekar auðveldlega að þeir fari að efast um fólk og þeir eru líka mjög skýrir hvað eignarhald varðar. Í ástarsamböndum er daður við annað fólk því svo til ófyrirgefanlegt hjá flestum kröbbum.

 

Ljón

 

Egó – Mörg ljón eiga það til að vera með útblásið egó. Það er ekkert hægt að skafa frekar af því. Vandamálið er að þetta stóra og fyrirferðarmikla egó er stundum bara að fela innra óöryggi, lélega sjálfsmynd og ríka þörf fyrir samþykki annarra. Góð sjálfsmynd og sjálfsöryggi er af hinu góða, en það er annað að hvíla um of í eigin egói. Þegar egó verður útblásið og óeinlægt fáum við okkur sjálf á heilann og það er aldrei sniðugt.

Athyglisþörf – Ljónið hefur töluverða þörf fyrir sviðsljósið. Það er ekkert að því að sækja í sviðsljós og kunna vel við sig í leiðtogahlutverki, enda eru ljón með eindæmum færir leiðtogar. Hins vegar eiga þau það til að sækja í athygli athyglinnar vegna og verða súr ef þau hafa ekki ljóskastarann á sér öllum stundum.

Þrjóska – Ljón eru sögulega þrjósk, það er ekkert launungarmál. Það jákvætt að vera ákveðinn og standa á sínu, sem ljónin eru afar góð í, en þau eiga það til að setja höfuðið undir sig og neita að hlusta á sjónarmið annarra. Þegar þau hafa bitið eitthvað í sig, er erfitt að hagga þeim. Þau eru líka yfirleitt handviss um að hafa rétt fyrir sér í einu og öllu.

 

Meyja

 

Smámunasemi – Meyjan á það til að týna sér í smáatriðunum og gleyma að horfa á heildarmyndina. Hún þarf að læra að það er sannarlega munur á nákvæmni og smámunasemi – það þarf ekki allt að vera fullkomið alltaf. Nákvæmni hennar er samt sem áður náðargáfa sem hún ætti ekki að hika við að nota. Hún er aðeins á villigötum þegar hún er farin að horfa á allt í gegnum nálarauga án þess að njóta heildarinnar.

Dómharka – Meyjan getur endrum og sinnum dæmt samferðafólk sitt full harkalega. Hún heldur stundum að hún hafi öll svörin og viti samstundis hvernig fólk sé og hvort það sé tíma hennar virði eða ekki.

Neikvæðni – Meyjur sjá oft skrattann í hverju horni. Þær tapa sér í vandamálunum, verða kvartgjarnar og sjá ekki trén fyrir skóginum. Þetta getur orðið afskaplega þreytandi fyrir fólkið í kringum þær, en ekki síður fyrir þær sjálfar.

 

Örvæntið ekki ef þið tilheyrið seinni helmingi stjörnumerkjanna – skuggahliðar þeirra birtast í næsta blaði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -