2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Byrjum á byrjuninni 

Árið er 1998. Á köldum og blautum haustdegi rek ég augun í afmælisdagabók í bókahillu heima hjá pabba mínum og stjúpu. Ég fletti bókinni og kemst fljótt að því að samkvæmt mínum afmælisdegi er ég fiskur. Fiskinum er lýst sem draumkenndri blöndu sköpunar og næmnis, eitthvað á þá leið. Ég er fiskur.

Ég var níu ára og var nú þegar byrjuð að finna fyrir einkennum sem 13 árum seinna voru skilgreind sem geðhvörf. Geðhvarfasýki er hægt að lýsa í grófum dráttum sem persónuleikabreytingu þar sem skiptast á geðhæðir (manía), geðlægðir (þunglyndi) og jafnvægi þess á milli. Ég var stöðugt að leita að sjálfri mér og ríghélt í fiskinn. Ég er fiskur. Ég er skapandi, næm og dreymin. Samband mitt við stjörnuspeki hefur haldist óslitið í bráðum tvo áratugi. Í leitinni að sjálfri mér spændi ég upp allar stjörnuspekibækur sem ég komst yfir og hef nú sankað að mér miklum fróðleik og upplýsingum um þessi áhugaverðu og skemmtilegu mannlífsfræði sem eru um 2.700 ára gömul eins og við þekkjum þau í dag en fyrsta stjörnuspáin er sögð hafa litið dagsins ljós fyrir um 2.400 árum.

Í kringum 1920 myndaðist hefð fyrir stjörnuspám í dagblöðum út frá sólarmerkjum. Stjörnuspár flokkast undir dægradvöl en stjörnuspekin er miklu dýpri og veigameiri en svo. Þegar við fæðumst verður til okkar persónulega stjörnukort sem reiknast út frá fæðingarári, mánaðardegi, fæðingarstund og stað. Stjörnukort fjallar um persónuleika okkar, styrkleika, hæfileika, tímabil í lífi okkar, starfsferil, ástina, tilgang og fleira. Hún í raun leitast við að svara spurningunni: „Hver er ég?“ Sem er einmitt titill fyrstu bókar Gunnlaugar Guðmundssonar, stjörnuspekings, en hana hvet ég alla áhugamenn um stjörnuspeki að lesa. Stjörnuspekin talar um Sólina og Tunglið sem plánetur og tekur einnig Plútó með inn í myndina. Innri plánetur eru Sól, Tungl, Merkúr, Venus og Mars. Þær ferðast hratt á milli merkja og hafa því áhrif á okkur dagsdaglega, hvað varðar skap og venjur. Ytri plánetur eru Júpiter, Satúrnus, Neptúnus, Úranus og Plútó. Þær hreyfa sig hægt á milli merkja, á eins til fimmtán ára fresti. Stjörnukortið sýnir hvar þessar plánetur voru staðsettar á ferð sinni um Sólina, séð frá Jörðu á nákvæmlega þeim tíma sem við fæðumst. Lestur í stjörnukort getur varpað ljósi á styrkleika okkar og veikleika, möguleika okkar til vaxtar.

Stjörnuspekin er svo miklu meira en stjörnuspár netmiðla og blaða. Ég ætla mér að leiða ykkur inn í heim hennar skref fyrir skref, pistil fyrir pistil, á Mannlíf.is. Ástin er gífurlega vinsælt viðfangsefni, ég mun skoða hana ásamt því að fjalla um afmælisbörn dýrahringsins hverju sinni.

AUGLÝSING


Á Instagram síðu minni er ávallt lifandi efni í Story sem og efni í sarpinum (highlights) um ástina og öll merki dýrahringsins. Einnig er hægt að nálgast pistla og skemmtilegt efni á Facebook síðu minni.

Ást, friður og glás af glimmer.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is