Miðvikudagur 27. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Farðu út! – Þú þarft ekki að vera þar lengi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í samkomubanni er mikilvægt að hafa rútínu, og halda áfram að sinna því daglega. Í pistli á vefsíðu Ljóssins minnir Guðrún Friðriksdóttir, iðjuþjálfi, okkur öll á að fara út og hreyfa okkur utandyra, við þurfum ekkert að vera þar lengur en við viljum.

 

Við erum hluti af náttúrunni en við munum ekki alltaf eftir því.

Sérstaklega þegar veðrið er eins og það hefur verið í vetur, þá viljum við alls ekki vita af tengingunni eins og við myndum hunsa leiðinlegan ættingja sem mætir alltaf í veislur með læti. Snjór á snjó ofan, stormar, hálka, hríð, snjóflóð og ofsaveður. Þá viljum við skiljanlega alveg endilega loka okkur af, vera inni í hlýjunni og fylgjast bara með út um gluggann.

En innilokunin getur orðið of mikil. Sérstaklega núna þegar fólk er hvatt til að vera heima þurfum við að muna að það er ekki endilega verið að hvetja okkur til að vera innandyra.

Vetur verður að vori

Það að „fara út“ þýðir heldur ekki tveggja tíma göngur í fjörunni eða fjallgöngur eða sleðaferðir eða sjósund. Að fara út getur einfaldlega verið að fara í hlýjustu úlpuna sína og standa úti á tröppum augnablik. Loka augunum, finna beint fyrir geislum sólarinnar (eða kulda vindsins) án þess að hafa gler gluggans á milli, anda nokkrum sinnum inn og út og muna eftir því að við erum tengd náttúrunni og náttúran er tengd okkur.
Þegar þú ferð út daglega, sérstaklega á þessum árstíma, sérðu þær hægfara breytingar sem verða þegar snjórinn hverfur (en hann kemur mögulega aftur um páskaleytið, það er páskahretið, ekki örvænta) og líf vorsins kviknar. Náttúran fer á sínum hraða, hægt og rólega, smátt og smátt á hverjum degi breytist hún og það kemur sumar. Náttúran fer ekki of hratt, hún vinnur nákvæmlega á þeim hraða sem hún þarf að vinna til að allt gangi upp. En ætli það sé ekki nokkuð algengt að fólk fatti allt í einu að það er komið sumar án þess að hafa séð það fæðast?

- Auglýsing -
Guðrún Friðriksdóttir iðjuþjálfi

Vorið vaknar

Það er hægt að nota tímann á meðan samkomubannið varir til að fylgjast með náttúrunni leysa sig úr klakaböndum vetrarins og um leið hægja aðeins á okkur sjálfum líka. Ef við vitum hvert við stefnum, eins og náttúran veit að hún stefnir að sumri, þurfum við ekki að flýta okkur. Við getum tekið eitt skref í einu eins og náttúran gerir og látum ekki hugfallast ef það verður bakslag. Náttúran losar sig fyrst við snjóinn áður en tréin fara að bruma og þrátt fyrir páskahretið hættir náttúran ekki við að stefna að sumri. Að lokum er allur snjórinn farinn og tréin, grasið og plönturnar fara að taka við sér.

Sumarið nálgast

- Auglýsing -

Notum tímann núna til að fylgjast með breytingunum og kannski finnum við einhverja breytingu á okkur sjálfum líka? Stefnum við líka að einhverju eins áþreifanlegu og náttúran stefnir að sumri? Hvaða skref erum við að taka til að nálgast okkar markmið? Hvaða snjór verður að bráðna, einn dropa í einu, til þess að við nálgumst okkar markmið?

Lífið er ekki spretthlaup, sumarið er ekki allt í einu komið, nema þegar við lifum of hratt til að taka eftir því. Það á allt sinn tíma og þetta eru ekki bara orð. Farðu út á hverjum degi og horfu á það með þínum eigin augum og andaðu í leiðinni nokkrum sinnum inn og út.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -