2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Stefnur og straumar í förðunartískunni 2020 

„Það er úr miklu að velja,“ segir förðunarfræðingurinn Helga Sæunn Þorkelsdóttir þegar hún er beðin um að segja frá þeim tískustraumum sem verða áberandi í förðun á þessu ári. „Mörg trend sem hafa verið vinsæl undanfarin ár verða áfram áberandi í bland við nýja strauma.“

 

Aukin áhersla á húðumhirðu

Helga segir að fólk sé í auknum mæli farið að hugsa betur um húðina í stað þess að reyna að hylja hana með þekjandi farða. „Ljómandi húð er að koma sterk inn. Margir eru farnir að leggja meiri áherslu á húðina, bæði í förðun og í undirbúningi með góðri húðumhirðu. Sífellt fleiri snyrtivöruframleiðendur eru farnir að framleiða snyrtivörur sem innihalda góð efni fyrir húðina og ég held að slíkar vörur verði vinsælar á árinu. Þá eru margir farnir að nota meira af kremvörum í stað púðurs. Þegar líður á sumarið held ég að fólk muni í auknum mæli leyfa húðinni að njóta sín og mála sig lítið. En það er alltaf mikilvægt að muna eftir sólarvörn!“

Léttir farðar sem leyfa húðinni að skína í gegn verða áfram vinsælir. Mynd / EPA

AUGLÝSING


Rjóðar kinnar

Helga spáir því að vinsældir kinnalits verði miklar á árinu. „Þá er líka flott að staðsetja kinnalitinn svolítið frjálslega og draga hann jafnvel aðeins inn á gagnaugað, það kallast „draping“. Einnig er vinsælt að setja fljótandi „highlighter“ á andlitið áður en farðinn er settur á og kalla þannig fram náttúrulegan ljóma. Þetta „trend“ var áberandi fyrir nokkrum árum og virðist vera að koma sterkt inn aftur.“

Það er fallegt að draga kinnalitinn frá kinnum og aðeins upp á gagnauga. Mynd / EPA

Litrík augnförðun

„Ég er spenntust fyrir mjúkum skyggingum á augun þar sem einn eða tveir litir eru notaðir í litlu magni og jafnvel smávegis glans líka. Í fyrra var mónókrómísk (einlita) förðun mjög vinsæl og ég er sjálf ótrúlega hrifin af því. En skærir og bjartir litir eru líka að koma sterkir inn á þessu ári,“ segir Helga.

Það er gaman að gera tilraunir með skæra og sterka liti á augnsvæðinu. Mynd / Sir John / Instagram

Meira gloss

Glansandi áferð þegar kemur að varalit verður vinsæl í ár að sögn Helgu. „Mattir varalitir víkja aðeins fyrir þeim glansandi. Sterkir litir verða þá vinsælir, t.d. rauðir tónar.“

Varalitir með glansandi áferð verða vinsælir á þessu ári að sögn Helgu. Mynd / EPA

Frjálslegar augabrúnir

Helga segir aðalmálið þessa dagana vera að leyfa augabrúnunum að vaxa frjálslega. „Náttúrulegar og þykkar augabrúnir verða áfram vinsælar, sem ég er ótrúlega hrifin af. Þá er „soap brows“-aðferðin líka alltaf jafnvinsæl en það er ein besta aðferðin til að kalla fram svona villtar augabrúnir,“ segir Helga. Þess má geta að „soap brows“-aðferðin svokallaða felur í sér að augabrúnirnar eru mótaðar með greiðu sem hefur verið nuddað upp úr sápustykki.

Þykkar augabrúnir verða áfram í tísku. Mynd / EPA

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is