2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Stjörnumerkin og ástin – Venus gefur vísbendingar 

Tvær algengustu spurningar þeirra sem til mín leita tengjast tilgangi lífsins og ástinni.

 

Ástin og hvernig merkin eiga saman er einnig mest umbeðna umfjöllunarefnið á Instagram síðu minni og mikið hefur verið skrifað um sambandsblöndur í gegnum tíðina en, og ég leyfi mér að alhæfa hér, í langflestum tilfellum er fjallað um merkin saman út frá Sólinni (afmælisdögum). Hún getur vissulega gefið í skyn hvernig merkin eiga saman að einhverju leyti en er gífurlega almenn umfjöllun. Best er að skoða kort einstaklinga í heild og þá til dæmis út frá ástar, fegurðar- og samskiptaplánetunni Venus.

Þegar ég les í kort aðila sem vill vita um ástina; hvernig maki hans verði eða hvernig maki henti honum út frá stjörnuspekinni skoða ég marga þætti, ekki bara Sólina, heldur einnig Tunglið, Merkúr, Venus, rísandi merkið og 5. og 7. hús. Ásamt því að skoða síðan kortið í heild.

Það sem Venus gerir fyrir okkur er varpa ljósi á hvað við þurfum í ástinni. Vitir þú ekki í hvaða stjörnumerki Venus er staðsett í, í þínu korti, getur þú fundið það út frá þessum tengli og fyllt út í Venus-reiknivél.

AUGLÝSING


Skjáskot af cafeastrology.com sem sýnir Venus-reiknivél. Hér eru upplýsingar um fæðingarstund ekki nauðsynlegar. Fylltu inn afmælisdag, ár og fæðingarstað.

Hér eru lýsingar á Venus í hverju merki fyrir sig.

Venus í hrúti 

Þegar kemur að ástinni fer Venus í hrúti og sækir hana. Ef þú ert skotin/n þá lætur þú vaða og ef viðkomandi ber ekki sömu tilfinningar þá ertu fljót/ur að færa þig annað. Kviss, bamm, búmm. Þú ert ástríðufullur elskhugi og sækir að sama skapi í maka sem er ástríðufullur, frelsiselskandi og sjálfstæður eins og þú. Maki þinn má ekki þrengja að þér, það getur pirrað þig. Eldurinn verður að fá frelsi til að geysast áfram.

Venus í nauti

Þú vilt mikla líkamlega nánd í sambandi, dekur og lúxus. Þú kannt að meta fallega muni, fallegan maka, dýran mat og gott vín. Í ástinni veitir þú öryggi og stöðugleika. Þú ert blíður og tryggur maki að upplagi og leitar að maka sem vill deila með þér fallegu heimili og fjárhagslegu öryggi. Þú vilt rosalega mikið hafa það kósí heima með makanum.

Venus í tvíbura

Þú þarft að tengjast maka þínum vitsmunalega. Maki þinn þarf að hafa eitthvað á milli eyrnanna. Gáfur eru sexy og þér þykir fátt meira óheillandi en maki sem hefur ekkert að segja. Þú vilt geta talað við maka þinn út í eitt. Maki hentar þér sem á gott með eirðarleysi þitt og hve óútreiknanleg/ur þú ert.

Venus í krabba

Ást Venus í krabba er ekki bara makinn heldur heildarmyndin. Ástin er fjölskyldan sem krabbinn þráir að rækta með maka sínum. Venus í krabba leitar í maka sem getur veitt honum bæði tilfinningalegt sem og fjárhagslegt öryggi. Venus í krabba á það til að vilja eiga maka sinn. Á fallegu, hlýju og öruggu heimili sínu kann Venus í krabba best að elska maka sinn.

Venus í ljóni

Þegar kemur að ástinni ertu vongóð/ur, trygglynd/ur og örlát/ur. Hér er ljónið helsti stuðningsmaður maka síns. Til að ljónið haldist í ástarsambandi þarf það að hafa gaman. Ef ljóninu leiðist, ef það er ekki verið að fara í veislur, upplifa, ferðast og skemmta sér er sambandið dauðadæmt. Venus í ljóni passar ekki áhyggjufullur maki. Það verður að vera gleði og hvatning beggja megin.

Venus í meyju 

Þú velur þér maka á praktískan máta, leyfi mér að segja út frá rökum oftar en ekki. „Já, þessi er sniðug/ur“. Venus í meyju þjónustar maka sinn vel og hugsar vel um hann en krefst nánast algjörrar fullkomnunar í staðinn. Venus í meyju verður stundum fyrir vonbrigðum vegna þess að væntingar eru háar/óraunhæfar.

Venus í vog

Venus í vog er hjartadrottning og kóngur ástarinnar (en voginni er stýrt af Venus). Venus í vog getur ekki verið einhleyp. Henni líður best í sambandi og í samböndum lærir hún og vex hvað mest. Í sambandi þarftu frið og fegurð. Þú getur ekki átt orðljótan maka eða maka sem þú lendir í rifrildi við. Fyrir þig er mikilvægt að makinn sé bæði útlitslega fallegur, klár og hrósi þér í tíma og ótíma.

Venus í sporðdreka 

Sambönd Venus í sporðdreka geta verið áköf. Það er mikill tilfinningahiti og ástríða hér. Sporðdrekinn er svakalegur elskhugi því hann er dramatískur í ástinni. Hann þarf að tengjast maka sínum andlega og tekur sér ekki maka nema hann upplifi sálartengsl. Sporðdrekinn er því bæði fyrir mikla líkamlega nánd og sterka og djúpa tengingu. Oftar en ekki setur hann maka sinn á stall en það eru fáir sem fá að vita af því þannig að við skulum bara halda því á milli okkar.

Venus í bogmanni 

Þú þarft að upplifa ástina sem ævintýri. Þú þarft að upplifa með ástinni þinni. Það þarf að ferðast. Það þarf að læra og ræða um heima og geima. Þú vilt bara að maki þinn sé um fram allt skapandi, skemmtilegur og þekkingarleitandi eins og þú. Þú tekur ástinni ekki of alvarlega enda er þetta bara eitt stórt ævintýri en þegar þú elskar elskar þú eins og blóðheitur Ítali.

Venus í steingeit

Þú ert alvörugefin/n þegar kemur að ástinni og giftir þig líklega af praktískum sjónarmiðum. Þú ert rosalega tryggur og ábyrgur aðili í sambandinu og krefst virðingar af hálfu maka þíns. Þú eignast maka sem þú getur borið virðingu fyrir og jafnvel litið upp til. Engan kjána, nei, takk. Sambönd eru líkleg til að þróast yfir tíma og þegar maki hefur verið valinn þá er það hinn eini sanni maki.

Venus í vatnsbera

Þú þarft frelsi. Átt jafnvel erfitt með að skuldbinda þig á tímabilum. Þér þykir nauðsynlegt að tengjast maka þínum á vitsmunalegan máta, mun fremur en líkamlega eða tilfinningalega. Þú dregst að maka sem er óhefðbundinn og frumlegur og veitir þér frelsi til að vera slíkt hið sama. Ef maki þinn er of aðþrengjandi ertu líkleg/ur til að láta þig hverfa.

Venus í fiskum

Þú ert rómantíkus dýrahringsins. Sumir segja „hopeless romantic“. Þú sérð ástina í hyllingum og svífur oft um á bleiku skýi. Gjarnan velur þú frekar að búa í draumkenndum heimi þar sem ástin er fullkomin heldur en að horfast í augu við að maki þinn sé kannski ekki eins frábær og þú hefur málað hann sem. Þú vilt vera eitt með maka þínum. Þú elskar.

Meira á Instagram

12 merki gefur okkur 78 sambandsblöndur. Á Instagram síðu minni: fanney_stjornuspeki er hægt að finna 67 blöndur. Þá eru bara 11 sem eiga eftir að koma inn og þær munu gera það jafnt og þétt á næstu 3-4 vikum. Umfjöllunin eru gerð út frá Sólar-merkjunum en eru mjög skemmtilegar og fræðandi engu að síður.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is