2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Stjörnumerkin og tilfinningar – Hvað segir Tunglið? 

Talað er um Tunglið sem plánetu í fræðum stjörnuspekinnar, plánetu tilfinninga og heimilis. Hún er einnig sú pláneta sem stýrir krabbanum (21. júní – 22. júlí) sem er einmitt merki umönnunar, tilfinninga og fjölskyldu.

 

Tunglmerkið okkar getur skýrt fyrir okkur hvernig og af hverju við bregðumst við aðstæðum og fólki á ákveðinn hátt en ég hef ávallt litið á stjörnuspekina sem sjálfsþekkingartól fyrst og fremst. Hafir þú upplýsingar um fæðingarár þitt og afmælisdag er ekkert mál að finna út í hvaða merki Tunglið situr í þínu stjörnukorti. Þessi tengill leiðir þig inn á reiknivél og svona lítur formið út sem þú fyllir inn í.

Skjáskot. Þú fyllir þessar reiti út til þess að komast að því hvert þitt tunglmerki er.

Hér getur þú séð hvernig tilfinningar birtast í þínu tunglmerki

 

Tungl í hrúti

AUGLÝSING


Þú ert fljót/ur upp og fljót/ur niður. Það er mikill tilfinningahiti í þér og þú ert með stórt skap. Fljótfærni og hvatvísi þegar kemur að því að bregðast við aðstæðum og fólki ef eitthvað brennur á þér. Tilfinningalega þarftu á athafnasemi og áskorunum að halda. Undir miklu álagi finnst þér gott að demba þér í verkefni eða draga þig algjörlega í hlé. Þú elskar sterkt og hatar sterkt. Þú hlærð þegar þú hlærð og grætur þegar þú grætur. Þú ert ekki viðkvæm/ur eða hörundsár þótt þú sért tilfinningamanneskja.

Tungl í nauti

Tilfinningalega þarftu á munúð, þægindum og öryggi að halda. Fjárhagslegt öryggi veitir þér tilfinningalega vellíðan sem og rútína og skipulag. Breytingar eru þér erfiðar og þú vilt helst búa á sama stað alltaf og þekkja sama fólkið sem lengst. Tilfinningar þínar eru jarðbundnar og stabílar. Þú ert blíð/ur og hefur þörf fyrir að njóta. Góður matur, góð tónlist, falleg föt og góð efni … já, já, já og já.

Tungl í tvíbura

Þú ert eirðarlaus og þér leiðist auðveldlega. Þú þarft á stöðugri vitsmunalegri örvun að halda. Það er bók á náttborðinu, þú lærir með tónlist í gangi, þú þarft að hafa mörg járn í eldinum á sama tíma og fullt af mögulegum tækifærum í boði. Ef það er leiðinlegt, ekkert að gerast og ekkert til að hlakka til er allt vonlaust.

Tungl í krabba

Þú hefur miklar og sterkar tilfinningar sem eiga sér stundum ekki stoð í raunveruleikanum. Þú hefur samt mjög innsæi og getur lesið fólk og þá allra helst þarfir þess og líðan. Þú hefur þörf fyrir að annast ástvini þína og eiga þér öruggan og traustan griðarstað, heimili þitt krabbaskelina. Hjarta þitt er viðkvæmt og til að verja það lokar þú á aðstæður og fólk sem þú treystir ekki.

Tungl í ljóni

Þú þarft veislur, gleði, gaman, leiki og sköpun til að ná tilfinningalegu jafnvægi. Þú ert skemmtilegur félagsskapur því þú nærist á því að gleðja og skemmta öðrum. Þér líður vel með að vera miðpunktur athyglinnar og sækir í viðurkenningu og hrós. Sjáðu mig, er ég ekki að standa mig vel? Ef að þú ert of lengi í kringum neikvæðni, depurð og veikindi áttu það á hættu að ljónshjartað dofni talsvert.

Tungl í meyju

Tilfinningalegt jafnvægi þitt felst í röð og reglu á öllum sviðum. Innan heimilis, vinnu og þegar kemur að þér sjálfri/sjálfum. Líkami og sál þurfa að vera í algjöru jafnvægi og góðu flæði til að þér líði vel en undir álagi og stressi áttu það til að veikjast auðveldlega. Hreinlæti gerir geðheilsu þinni gott. Tilfinningar þínar geta verið mjúkar og blíðar.

Tungl í vog

Friður, fegurð og samhljómur eru nauðsynlegir þættir þegar kemur að hugarró þinni og vellíðan. Undir stressi og álagi þarftu að komast í umhverfi sem er fallegt og kyrrlátt. Ljótleiki eins og rifrildi, ósanngirni og brussugangur fer mjög illa í þig. Þú þrífst vel þegar þú átt gott félagslíf og vex og dafnar í samböndum. Þú þarft á reglulegu hrósi og aðdáun að halda. Þú þráir tilfinningalegt jafnvægi.

Tungl í sporðdreka

Tilfinningar þínar eru ákafar, ástríðufullar, sterkar og dramatískar. Þú FINNUR. Þú finnur fyrir lífinu. Þú ert listamaður sem skapar nær eingöngu út frá ástarsorg og ljótleika heimsins. Þegar þú upplifir ástarsorg finnur þú allstaðar til. Í líkama og sál, öllum frumum. Stundum glímir þú við erfiðar tilfinningar eins og öfundsýki. Þú ert djúpur brunnur visku af því að þú hefur reynt svo margt á eigin skinni.

Tungl í bogmanni

Ferðalög efla þig og lækna stress. Þú þarft ekki mikið til að líða vel. Þú sérð fremur lausnir en hindranir. Ef þú nærir ekki þekkingarþorsta þinn og þörf fyrir að upplifa og sjá heiminn getur þú orðið eirðarlaus og leið/ur. Þú þarft einnig mikið sjálfstæði og frelsi. Heimurinn og ferðataskan er heimili þitt. Á meðan öryggi og stöðugleiki næra tilfinningar margra veitir rótleysi og óútreiknanleiki þér vellíðan. Allt er mögulegt og allt er háð breytingum.

Tungl í steingeit

Þér líður tilfinningalega vel þegar þú upplifir þig duglega/n. Þú tryggir tilfinningalegt öryggi þitt með skipulagi og fastri rútínu. Þér líður vel þegar þú finnur að þú ert að ná árangri. Þú þarft einnig að vera athafnasöm/samur. Að eiga við tilfinningar þykir þér ekkert sérstaklega auðvelt en þær geta verið bældar. Þá veita völd og góð þjóðfélagsstaða þér ró í hjartað.

Tungl í vatnsbera

Þú átt erfitt með að greina tilfinningar þínar. Hefur satt að segja ekki mikinn áhuga á því og það er allt í lagi. Þú ert hugsuður og vilt fremur horfa á lífið út frá rökfærslu og hlutleysi, átt það til að vera köld/kaldur og áttar þig jafnvel ekki á því. Þú ert engu að síður vinaleg/ur, skrítin blanda. Frelsisþörf þín er mikil og sjálfstæði veitir þér tilfinningalegt jafnvægi. Ef að þú upplifir að þrengt sé að þér átt þú það til að fjarlægjast. Dýra- og mannvernd snertir þig djúpt.

Tungl í fiskum

Tilfinningar þínar eru óútreiknanlegar, eina stundina ertu köld/kaldur og þá næstu ertu eitt með heiminum. Þú verður borðið sem þú situr við og manneskjan sem þú talar við. Þú býrð yfir gífurlegri samkennd. Stundum verður næmni þín of mikil byrði og þú finnur fyrir þyngslum eða þunglyndi. Þú hefur stórt og lítið hjarta á sama tíma. Tilfinningalega þarftu á dagdraumum og list að halda.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is