2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Veist þú hvert þitt rísandi merki er? – Persónuleiki, útlit, fas og hvernig þú birtist öðrum

Rísandi merki þitt sýnir persónuleika þinn út á við, orkuna sem þú gefur frá þér, fas þitt og útlit; hvernig þú birtist öðrum. Augasteinar rísandi sporðdreka eru yfirleitt litlir og augnaráð þeirra ákveðið og athugult. Sporðdrekinn er tortrygginn. Augu rísandi bogmanns eru gjarnan björt og augasteinar stórir. Bogmaðurinn er hrifnæmur og þekkingarleitandi, hann vill taka allt inn svo dæmi séu tekin.

 

Rísandi merki þitt er það merki sem reis upp í austri við sólarupprás nákvæmlega á þeim tíma sem þú fæddist. Því er fæðingarstund ómissandi þáttur í útreikningi á því merki. Til að reikna út þitt rísandi merki þarf til upplýsingar um fæðingarár, mánaðardag, fæðingarstund og stað.

Hægt er að fylla út form á netinu eins og myndin sýnir í gegnum þennan tengil. 

Hér fyllir þú inn afmælisdag, fæðingarár, fæðingarstund og stað.

AUGLÝSING


Einnig er hægt að hafa samband við stjörnuspeking og fá hann til að finna það út. Sjálf hef ég gert það endurgjaldslaust fyrir áhugasama enda ötull talsmaður þess að allir viti sitt rísandi merki.

Einkenni rísandi merkja

 

Hér fyrir neðan má sjá lista á einkennum rísandi merkja.

Rísandi hrútur

Orka þín út á við er athafnaorka. Við fæðingu færð þú strax það hlutverk að vera sjálfstæður og frelsiselskandi leiðtogi. Þú æðir áfram, talar hratt og ert óþolinmóð/ur. Þú veist hvert þú vilt fara og ætlar þér þangað helst í gær. Það er fátt sem stoppar þig. Frumefni: Eldur.

Rísandi naut

Stór, falleg og blíð augu. Orka þín er jarðbundin og yfirveguð. Það eru fáir þrjóskari en þú. Þú skiptir sjaldan skapi nema þegar verið er að ýta á eftir þér. Orka þín er föst fyrir, þú ferð yfir á þínum hraða. Þú ert sjarmerandi, munúðarfull/ur og hefur gaman af fallegum og flottum hlutum og flíkum. Frumefni: Jörð.

Rísandi tvíburi

Þú gefur frá þér flæðandi og eirðarlausa orku. Þú ert hér og þar og allstaðar. Fjölhæfur einstaklingur með mikinn þekkingarþorsta og áhugasamur um menn og málefni. Þú tjáir þig með handahreyfingum og færð strax það hlutverk frá fæðingu að taka inn upplýsingar og miðla þeim síðan áfram. Líkt og rísandi hrútur talar þú að öllum líkindum hratt. Þú ert forvitin/n og skemmtileg/ur. Frumefni: Loft.

Rísandi krabbi

Í æsku færð þú strax það hlutverk og þörf fyrir að annast aðra. Þú getur orðið lokuð/aður finnir þú þig í aðstæðum eða í kringum fólk sem þú treystir ekki. Það getur verið erfitt að komast inn fyrir skelina þína en krabbaskelin er þitt hús og þitt öryggi. Út á við ertu feimin/n og lokuð/aður eða umhyggjusöm/samur og tilfinningarík/ur. Allt eftir því hvort þú upplifir þig örugga/n eða ekki. Frumefni: Vatn

Rísandi ljón

Orka þín út á við er skapandi, gáskafull og ákveðin. Þú ert þrjósk/ur í fyriráætlunum þínum. Fylgin/n þér og á það við um partýplön, vinnu og einkalíf. Þú gefur af þér gleði og kæti. Þegar þú fæddist fékkstu strax það hlutverk að vera örlátur og hjartahlýr leiðtogi sem og glaðlyndur skemmtikraftur. Rísandi ljón hafa yfirleitt mikið og þykkt eða allavega fallegt hár. Karlmenn með góðan skeggvöxt. Frumefni: Eldur.

Rísandi meyja

Út á við ertu snyrtileg/ur, hlédræg/ur, hógvær, smekkleg/ur og feimin/n. Þú ert nákvæm/ur í tali og velur vel orð þín sem og hvernig þú setur þau fram vegna þess að þú vilt ekki vera misskilin/n. Þú ert kurteis en á sama tíma gagnrýnin á sjálfa/n þig og umhverfi þitt. Þú ert gífurlega rökvís með næmt auga fyrir smáatriðum. Frumefni: Jörð.

Rísandi vog

Þú ert sanngjarn og diplómatískur hugsuður. Þú ert einnig háttvís, daðurgjörn/gjarn, glæsileg/ur og sjarmerandi. Orka þín út á við er falleg, ljúf og þægileg en einnig vottar fyrir óákveðni. Þú hefur næmt auga fyrir fegurð og átt gífurlega erfitt með ljóta orku sem sprettur upp úr deilum og rifrildum. Þú ert sáttasemjari og fékkst það hlutverk þegar þú fæddist. Frumefni: Loft.

Rísandi sporðdreki

Þú ert tortrygginn og skarpur rannsakandi. Augu þín eru hvöss og orka þín beinskeytt. Lífið er vígvöllur og þú stendur yfirleitt uppi sem sigurvegari vegna þrjósku þinnar og ákveðni. Þú ert dularfull/ur og virkar oftar en ekki sem segull á hin merkin en það eru aðeins örfáir útvaldir sem fá að kynnast þér. Þú ert eina merkið sem skilur dýpstu og ljótustu hliðar lífsins. Þú kýst sannleikann alla daga og átt erfitt með yfirborðskennd. Frumefni: Vatn.

Rísandi bogmaður

Þú ert hrifnæmur, opinn og ævintýragjarn heimsborgari. Orka þín út á við er björt. Það eru bara til lausnir. Helst viltu ekki sjá vandamál og átt það til að sópa þeim bara vel undir teppið. Sko! Það er ekkert að. Orka þín er hvatvís, þekkingarleitandi og eirðarlaus. Þú ert kennari og nemandi lífsins. Vilt upplifa lífið til að læra. Þú ert einlæg/ur og víðsýn/n, sérð heildarmyndina. Frumefni: Eldur.

Rísandi steingeit

Þú gefur af þér orku manneskju sem er varkár, ábyrg og alvörugefin. Metnaðurinn til að ná langt er mikill. Þú ert forystugeit og ert gífurlega vinnusöm/samur. Þú ert gjarnan hnarreist/ur með alvörugefið augnaráð jafnvel eins og þú sért með allar heimsins áhyggjur á herðum þér. Það þarf að sjá fyrir öllu, ekkert má fara úrskeiðis. Frumefni: Jörð.

Rísandi vatnsberi

Þú ert frumlegur og óhefðbundinn uppreinsarseggur. Út á við er orka þín rafmögnuð og þú dregur fólk að þér eins og segull sökum þess hve öðruvísi þú ert. Þú ert félagslynd/ur en persóna þín út á við er þó ekki tilbúin til þess að hleypa fólki of nálægt tilfinningum þínum sem þér þykir gott að geyma bara út af fyrir þig. Þú ert rökræn/n en sérvitur. Frumefni: Loft.

Rísandi fiskar 

Þú ert hrifnæm/ur og áhrifagjörn/gjarn. Augu þín eru blíð, djúp og vinaleg. Þú ert líka víðsýn/n og býrð yfir mikilli samkennd. Út á við finnur þú gífurlega til með öðrum og grætur auðveldlega yfir sorgum og erfiðleikum annarra. Orka þín út á við er skilningsrík, dreymin og eirðarlaus. Ertu að koma eða fara? Þú hefur ekki hugmynd. Frumefni: Vatn

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is