Vogin: Daðurgjörn, kröfuhörð og með mikla réttlætiskennd

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Vogin (23. september – 22. október) er merki friðar, fegurðar, ástar og réttlætis. Hún er félagslynd og sjarmerandi en henni er stýrt af ástar- og feguðarplánetunni Venus.

 

Það er bæði hægt að lýsa voginni sem fallegri örþunnri svífandi slæðu eða járnhnefa í silkihanska. Vogin er fyrir frið og samhljóm. Helst af öllu vill hún að öll dýrin í skóginum séu vinir. Hún býr einnig yfir lúmskri stjórnsemi og er einstaklega lunkin við að planta fræjum, þess má geta að vogin finnur sig gjarnan í pólitík eða félagsmálum.

Í samstarfi á hún það til að planta fræjum í þeim tilgangi að hennar leið sé valin án þess að hún þurfi að beita sér fyrir því með frekju og yfirgangi. Þegar ákvörðun hefur verið tekin grunar engan að leið vogarinnar hafi verið valin, ekki einu sinni sporðdrekann. Vogin er líka góð í að spila inn á samvisku fólks á mjög blíðan og umhyggjusaman máta. Þið sem þekkið til vitið nákvæmlega hvað ég meina.

Vogin er með mikla réttlætiskennd og finnur nánast líkamlega til þegar hún verður vitni að óréttlæti. Hún er sanngjörn. Allir eiga að fá jafnt. Vogin er falleg og góð en hún er frumkvætt loft sem gerir hana einnig rökræna og framtakssama.

Daðurgjörn og elskar hrós 

Ég hef einnig lýst voginni sem heimilisgyðju en það er í raun bara vegna þess að hún hefur svo gífurlega næmt auga fyrir fegurð og það á við um allt sem henni við kemur, hvort sem það er að setja saman fatnað, raða húsgögnum heima hjá sér eða elda. Svo er hún félagslynd og þykir gaman að eiga í samskiptum við aðra. Því er tilvalið fyrir hana að bjóða heim í fallega og friðsæla umhverfið sitt og elda eitthvað gott, hver veit nema hún fái nokkur hrós í leiðinni.

Vogin elskar hrós. Hún er líka daðurgjörn en myndi aldrei viðurkenna það. Vogin er yfirleitt náttúrulega falleg. Klassískur stíll og klassísk fegurð eru einkennandi fyrir hana.

Tákn vogarinnar er vog með tveimur vogarskálum sem vísar í jafnvægi. Vogin hefur óbeit á ójafnvægi á öllum sviðum, líka þegar kemur að klæðnaði og útliti. Þess vegna hugsar vogin alltaf um heildar „lúkkið“, góð samræming í fatnaði er lykilatriði. Það er ekkert verið að henda einhverju saman.

Mér hefur fundist rómanska gyðjan Venus eiga vel við sem kventákn fyrir vogina. Hún ber klassíska fegurð og líkami hennar þykir í fullkomnu jafnvægi.

Fæðing Venusar eftir Botticelli.

Ef við horfum á þetta heillandi verk Botticellis, Fæðing Venusar, þá eru litir perlu og bleikra rósa áberandi ásamt pastellitum og mjúkum hlýjum tónum. Þar er vogin staðsett, kvenleg, klassísk, fáguð og í samræmi. Vogin vill samræmi. Samræmi og samhljóm.

Vogin er oftar en ekki vinsæl og er yfirleitt ekki lengi að laða til sín ástina. Henni finnst gott að vera í sambandi og leitar stöðugt í samband ef svo ólíklega vill til að hún sé ekki í einu slíku.

Best er að heilla vogina með daðri og hrósi. Hún vill athygli en alls ekki upplifa að verið sé að kæfa hana. Voginni líður vel í náttúrunni vegna þess að í náttúrunni er allt eins og það á að vera, náttúran er í samhljómi. Því klikkar ekki að fara með voginni í göngutúr í fallegri náttúru.

Vogin kann vel að meta háttvísi og kurteisi í maka sínum. Ekki skemmir fyrir ef skotið er myndarlegt og klárt. Gerir vogin kröfur? Já, hún sættir sig eingöngu við allan pakkann.

Nokkrar frægar vogir.

Hugsa og hugsa meira

Nýlega orti ég til vogarinnar og læt það kvæði fylgja með hér að lokum. Vogin er þekkt fyrir að hugsa og hugsa og hugsa svo aðeins meira. Hugs, hugs, hugs.

Vogin

Æ, þú ert nú voðalega falleg.
Þú virðist alltaf svífa um eins og falleg slæða
og hvert sem þú svífur þú öll hjörtu virðist bræða.

Tókstu eftir því að orðin slæða og bræða ríma?
Já, sennilega. Því þú hugsar svo mikið.
Manstu atvikið?
Þegar þú hugsaðir ekki neitt einn daginn?
Ekki um gærdaginn, fjárhaginn, ráðahaginn, hvort að hann sé nógu flatur, maginn.

Hann getur verið harður, bardaginn.
Við hugann og ofhugsun.
Rökhugsun.
Er ekki af hinu slæma.
Þó stundum sé gott að tæma.
Anda öllu út
og losa um þann hnút
sem ef til vill hamlar þér, aftrar þér.

Vogin á erfitt með allt sem er ljótt.
Á tánum hún tipplar hljótt.
Til að forðast ágreining, drama og vesen.

Nei, þakka ykkur fyrir pent.
Á deilum hef ég mig brennt.
Frekar stillir hún til friðar
eða deiluaðila siðar.

Vogin er friður. Vogin er ást.
Það er auðvelt, að henni að dást.

Höf. Fanney Sigurðardóttir (17./18. ágúst 2019)

Sjá einnig: Fanney mun leiða lesendur inn í heim stjörnuspekinnar

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -