2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Bókaperlur – vefuppboð á fágætum bókum

Bókauppboð er hafið á vefnum uppbod.is og stendur það til 15. desember. Að þessu sinni verða boðin upp 65 númer en óvenjulegt er að boðin verða upp á einu númeri nokkur fjöldi fágætra rita saman. Þar er meðal annars að finna bækur prentaðar á Beitistöðum, en prentgripir þaðan eru mjög fágætir. Einnig eru þar verk frá Hólum í Hjaltadal, Viðey, Akureyri og Eyrarbakka. 

Meðal fágætra rita á uppboðinu má nefna tímarit Einars Braga, Birtingur, sem boðið er til sölu en öll heftin hafa verið bundin inn í fallegt skinnband og auðvitað kápurnar með, gerðar af Dieter Roth, Herði Ágústssyni, Kristjáni Davíðssyni og fleirum. Einnig má nefna gott úrval ljóðabóka, meðal annars Nei eftir Ara Jósepsson, frumútgáfu, ljóð Snorra Hjartarsonar,  Vestmannaeyjaljóð Unu, Ljóðbók Jóns Þorlákssonar frá Bægisá (tvö bindi) og ljóðabók eftir Jónas Svafár og mörg fleiri eftirsótt verk. Leikrit Odds Björnssonar, 4 leikþættir með myndverkum Dieters Roth er á uppboðinu. Einnig bókverk eftir Jóhannes Kjarval og samvinnuverkefni þeirra Nínu Tryggvadóttur og Steins Steinarrs Tindátar en eintakið er í mjög góðu ástandi. 
Af heilstæðum verkum má nefna Íslendingasagnaútgáfu í mjög fallegu samtíma bandi, alls 38 bækur, Náttúrufræðinginn – Alþýðlegt fræðslurit um náttúrufræði, fyrstu 54 árgangana í fallegu bandi, tímarit Jónasar frá Hriflu, Ófeigur, allt verkið og Almanak hins Íslenzka þjóðvinafélags. Þá verður boðið upp tímarit Steinars Sigurjónsson Óregla sem höfundur gaf út. 
Nokkuð er af fágætri lögfræði á bókauppboðinu, meðal annars Búalög og Skýringar við fornyrði lögbókar, frumútgáfu en verkið er með upprunalegum kápum í fallegu bandi. Af öðrum ritum má nefna Clavis Poetica sem Gröndal og Sveinbjörn Egilsson stóðu að. Auk þess verða boðnar upp gamlar ferðalýsingar um Ísland.
Verkin eru til sýnis í Fold uppboðshúsi á opnunartíma.
Uppboðinu lýkur sunnudaginn 15. desember.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is