2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Danir senda úrslitin í undankeppni Eurovision út án áhorfenda

Engir áhorfendur verða í salnum í Royal Arena í Kaupmannahöfn annað kvöld þegar úrslitin í Melodi Grand Prix, dönsku undankeppninni fyrir Eurovision, fara fram. Forsvarsmenn danska ríkisútvarpsins DR tilkynntu þetta í morgun eftir að danski forsætisráðherrann, Mette Frederiksen, hvatti til þess að öllum viðburðum með fleiri en þúsund þátttakendum yrði aflýst vegna kórónaveirunnar. Yfirmenn sænska ríkissjónvarsins SVT kölluðu til neyðarfundar með framkvæmdaaðilum kepninnar í hádeginu til að taka ákvörðun um hvort Svíar hefðu sama háttinn á á lokakvöldi Melodifestivalen, sænsku undankeppninnar, sem einnig fer fram annað kvöld 7. mars. Tekin var ákvörðun um að halda sínu striki og hleypa áhorfendum í salinn að öllu óbreyttu.

Extra bladet hefur eftir Gustav Lützhøft, yfirmanni hjá danska ríkisútvarpinu, að auðvitað breyti fjarvera áhorfenda útsendingunni en hún verði engu að síður glæsileg og ekkert til sparað í umbúnaði. Þeir sem keypt hafi miða fái þá að sjálfsögðu endurgreidda.

Fjölmiðlafulltrúi Melodifestivalen í Svíþjóð, Molly Brunner, segir í samtali við Aftonbladet að það séu margir þættir sem taka þurfi tillit til við slíka ákvörðun en eftir neyðarfundinn hafi verið ákveðið að banna ekki áhorfendur, svo framarlega sem ekkert breytist fyrir morgundaginn.

Úrslit Melodifestivalen eru send út frá Friends arena í Solna og hafa yfirleitt lokkað til sín um 35.000 áhorfendur. Auk þess er selt inn á tvær lokaæfingar keppninnar, á föstudagskvöldi og laugardagseftirmiðdegi og hafa yfirleitt milli tuttugu og þrjátíuþúsund manns sótt hvora þeirra um sig. Það er því mikið í húfi fyrir SVT. Bein útsending frá úrslitum Melodifestivalen verður á RÚV annað kvöld.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is