2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Ekki alveg búinn að átta mig á því hvað þetta er geggjað“

Erlingur Óttar Thoroddsen skrifar handrit að nýrri hrollvekju í fullri lengd, Midnight Kiss, sem verður frumsýnd í næsta mánuði á streymisveitunni Hulu. Leikstjórinn fékk aðeins viku til að fullklára handritið.

 

„Þetta er mjög skemmtilegt og spennandi og pínu ótrúlegt að milljónir manna eigi eftir að horfa á eitthvað sem ég skrifaði. Ég hef aldrei gert neitt sem nær til svona stórs áhorfendahóps og ég held að ég sé eiginlega ekki alveg búinn að átta mig á því hvað þetta er geggjað,“ segir Erlingur Óttar í skýjunum með verkið.

Erlingur Óttar er með mörg járn í eldinum um þessar mundir. Hann vinnur m.a. að bandarískri útgáfu af mynd sinni Rökkur og að mynd sem byggir á spennusögunni Kulda eftir Yrsu Sigurðardóttur.

Midnight Kiss er hluti af sjónvarpsseríu á streymisveitunni Hulu sem heitir Into the Dark og er framleidd af Blumhouse Productions, sem hefur m.a. sent frá sér Get Out, Insidious, Sinister og Paranormal Activity-myndirnar. Serían samanstendur af tólf sjálfstæðum níutíu mínútna hrollvekjum sem koma út mánaðarlega og tengjast hátíð hvers mánaðar, hrekkjavöku, þakkargjörðarhátíðinni, jólunum og svo framvegis. Midnight Kiss er nýárs-hrollvekjan og kemur út rétt fyrir áramót, eða 27. desember, að sögn Erlings.

„Ég hef aldrei gert neitt sem nær til svona stórs áhorfendahóps.“

AUGLÝSING


En um hvað fjallar sagan? „Hún er um vinahóp sem hefur þekkst lengi og ver alltaf áramótunum saman. Þau eru með pínku spes áramótahefð sem þau kalla miðnæturkossaleikinn en hún gengur út á að reyna tæla einhvern ókunnugan þegar þau fara út á lífið í stað þess að bíða og vonast eftir því að einhver kyssi þau um áramótin. Þegar líður á kvöldið birtist grímuklæddur aðili sem þau léku einu sinni grátt í leiknum og leitar hefnda. Er samband vinanna nógu sterkt til þess að þau geti hjálpað hvert öðru að lifa nóttina af eða eru þau sínir verstu óvinir þegar allt kemur til alls?“ lýsir hann án þess að vilja fara nánar út í söguþráðinn.

Fékk viku til að klára handritið

Hvernig kom til að hann var fenginn til að skrifa söguna? „Ég hef verið að hitta fólkið hjá Blumhouse af og til á síðustu misserum í tengslum við ýmis önnur verkefni. Dag einn höfðu þau samband og báðu mig um að koma með hugmynd að handriti fyrir nýársþátt Into the Dark. Ég fékk dag til að koma með hugmyndina. Einu fyrirmælin voru að þau vildu slasher-mynd með hinsegin fókus. Þannig að ég lagði höfuðið í bleyti og Midnight Kiss varð meira og minna til á þessum eina degi,“ segir hann og bætir við að fólkinu hjá Blumhouse hafi litist svo vel á hugmyndina að fyrirtækið hafi keypt hana á staðnum, þó með þeim fyrirvara að handritið kláraðist á viku.

„Þetta gekk sem betur fer upp, en það var smástress. Ég fór varla út úr húsi þessa vikuna,“ segir hann og hlær, en um leið og handritið var tilbúið var farið í tökur.

Erlingur sendi frá sér kvikmyndina Rökkur árið 2017 en hún fékk fína aðsókn og góða dóma. Björn Stefánsson fer með eitt aðalhlutverkið.

Spurður út í þær segir hann þær hafa gengið vel og það hafi verið draumur að fá að vinna með öllum sem komu að gerð hrollvekjunnar. „Leikararnir voru algjörlega frábærir. Ég fékk að vera með í öllu casting-ferlinu og við enduðum með rosaflottan hóp af ungum nýstirnum sem hafa leikið í þáttum eins og Euphoria, Veep, The Morning Show og eru öll á hraðri uppleið. Þau náðu vel saman og voru strax orðnir góðir vinir, sem ég held að sjáist vel í lokaútgáfu myndarinnar.“

Hann segir samstarfið við leikstjórann Carter Smith, sem er eflaust þekktastur fyrir hryllingsmyndina The Ruins, líka hafa verið gott. „Carter er ótrúlega vinalegur og með báða fætur á jörðinni. Hann er mikill Íslandsvinur og hafði séð myndina mína Rökkur, sem var ástæðan fyrir því að hann hafði áhuga á að lesa handritið. Ég hefði ekki geta fengið betri samstarfsmann og við unnum náið að handritinu alveg þar til myndavélarnar fóru að rúlla.“

Fyndin, spennandi og smábrjáluð

Midnight Kiss kemur út á Hulu 27. desember en Erlingur segist auk þess vita að Blumhouse hafi verið að selja hrollvekjurnar alþjóðlega, bæði sem stakar kvikmyndir og sem hluta af Into the Dark-seríunni, þannig að það sé aldrei að vita nema Midnight Kiss endi á íslenskri sjónvarpsstöð eða á VOD-inu einhvern tímann. „Ég ætla að minnsta kosti að horfa myndina í góðra vina hópi,“ segir hann glaður. „Ég held að þetta sé mjög góð partímynd; hún er fyndin, spennandi og smábrjáluð. Mjög viðeigandi um áramótin.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is