2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Gæjalegasta sýning í sögu íslensks leikhúss“

Tyrfingur Tyfingsson hefur vakið athygli fyrir ögrandi og öðruvísi leikverk sín. Þar á meðal sýninguna Helgi Þór rofnar sem var frumsýnd í Borgarleikhúsinu í janúar og hefur hlotið góðar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda. Hér segir leikskáldið frá þeim verkum sem hafa haft mest áhrif á hann.

 

Björk varð lafhrædd

„Gæjalegasta sýning í sögu íslensks leikhúss hlýtur að vera Rambó 7 eftir Jón Atla Jónasson sem Egill Heiðar leikstýrði í Þjóðleikhúsinu 2005. Þegar ég sá Rambó 7 var Björk Guðmundsdóttir í salnum. Ólafur Darri var að leika alveg galinn gaur í rosalegri neyslu. Allt í einu stoppaði persóna Ólafs Darra sýninguna og byrjaði að vaða um sviðið eins og trylltur hundur og muldraði eða hvíslaði svona: „Björk … Björk … Björk.“  Svo fann hann Björk í salnum og byrjaði að öskra með sinni risastóru rödd: „Björk! Björk Motherfucker! Björk Motherfucker! Björk Motherfucker.“ Hún varð lafhrædd og aðrir áhorfendur í rusli yfir þessu. Gleymi þessu aldrei. Fullkomið leikhúsmóment. Ólafur Egill var líka dásamlegur í þessari sýningu. Þegar ég hugsa um það varð persóna Óla kannski fyrsta inspírasjónin að Helga Þór í Helgi Þór rofnar, eða svona upphafið að honum. Gæti verið. Líklegast gerði þessi sýning mig að leikskáldi, hún var svo óhrædd, öfugt við það hvernig mér leið.“

Kúgun og sadismi

AUGLÝSING


„Svo verð ég að nefna Árna Pétur Guðjónsson leikara og tvær sýningar með honum. Árni Pétur er geggjaður „performer“, svo flinkur í líkamanum og með hráa nærveru, karlmannlegur og kvenlegur á sama tíma. Svikarinn var sýning sem hann vann með Rúnari Guðbrandssyni upp úr Vinnukonunum eftir franska leikskáldið og glæpamanninn Jean Genet árið 2011. Þar rann líf Árna Péturs saman við leikrit Genet um tvær vinnukonur sem vinna fyrir sadíska hefðarkonu. Á hverjum degi leika vinnukonurnar það á hvor annarri hvernig þær myndu drepa sadísku hefðarkonuna. Inn í þá frásögn blandaði Árni Pétur sögum af mömmu sinni sem hafði haft vinnukonur og upplifun sinni af kúgun og sadisma. Síðan gerði Árni Pétur sýningu með Áhugaleikfélagi atvinnumanna í Nýlistasafninu þar sem þau notuðu bara brot úr samtali upp úr verki eftir Strindberg og léku það aftur og aftur og aftur. Ég var mjög við skál á sýningunni svo að daginn eftir trúði ég því eiginlega ekki að þetta hefði verið svona gott. Þannig að ég skellti mér bara aftur, þá aðeins minna við skál, og viti menn, sýningin var alveg jafnfrábær.“

Kúl splattersýning

„Vesturport gerði sýningu á Titusi Andronicus eftir Shakespeare í 2000 fermetra skemmu með fimmtíu manns, þar á meðal kvennakór sem ég gleymi aldrei. Björn Hlynur leikstýrði. Þau sýndu hana bara í þetta eina skipti og þar var ég mættur, fimmtán ára, og smyglaði mér inn því hún var bönnuð börnum enda splatter dauðans þar sem fólk étur börnin sín. Ólafur Darri lék Titus og varð líklega með þeirri sýningu að stórleikara. Kúl sýning.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is