2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Halldór opnar sýningu í Hofi

Myndlistarmaðurinn Halldór Ragnarsson opnar sýningu sína í Menningarhúsinu Hofi laugardaginn 2. nóvember.

 

Í umsögn Gunnars J. Árnasonar heimspekings um verk Halldórs kemur fram að þau hafi undanfarin ár einkennst af stuttum setningum sem eru stimplaðar æ ofan í æ með smágerðu og daufu letri eða páraðar með ákafri rithendi yfir myndflötinn. Runur og spíralar af endurteknum setningum sem vísa í sjálfa sig eða merkingu myndarinnar eru eins og bænaþula sem myndar samfelldan klið á yfirborðinu.

Hof að vetri til.

Gunnar segir Halldór hafa ákveðið að þurrka út öll ummerki um rituð skilaboð í sýningunni í Hofi. „Engin dulin skilaboð, áköll, skírskotanir eða bendingar. Aðeins auðir fletir sem vega salt í einhverri óvissu milli þess sem er annað hvort rétt nýlega yfirstaðið eða hér um bil að skella á. Með því að eyða því út sem hefur verið svo einkennandi fyrir verk hans hingað til er listamaðurinn að gefa út yfirlýsingu um þögn, vissulega þversagnarkennda, en engu að síður afdráttarlausa: Hér hefur ekkert verið sagt og ekkert að tala um.“

AUGLÝSING


Halldór er fæddur í Reykjavík árið 1981. Hann lauk bakkalár- og meistaragráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands, auk þess að nema heimspeki og listfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur haldið tólf einkasýningar frá árinu 2005 og tekið þátt í fjölda samsýninga, meðal annars yfirlitssýningu á íslenskri málaralist, Nýmálað, á Kjarvalsstöðum árið 2015. Árið 2018 kom út bók hans Leit að lífi, sem er einskonar ferðasaga listamannsins. Þar tvinnar Halldór saman ljósmyndum og dagbókarbrotum af ferðalagi sínu um sjö eyjar syðst í Karíbahafi veturinn 2017-18.

 

Opnun sýningarinnar í Hofi er klukkan 16. Léttar veitingar og allir vekomnir.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is