2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Kannski er ég bara svolítill gluggagægir“

Kvikmynda- og ráðstefnuhátíðin Stockfish fer nú fram í Reykjavík í sjötta sinn og stendur yfir til 22. mars. Fjöldi erlendra gesta hefur boðað komu sína á hátíðina, þar á meðal finnski leikstjórinn Dome Karukoski sem verður viðstaddur sýningu á mynd sinni Tolkien, um hin ástsæla rithöfund, og ætlar að henni lokinni að spjalla við áhorfendur í sal.

 

„Ég er mjög spenntur að hitta íslenska Tolkien-aðdáendur,“ segir Dome aðspurður en viðurkennir þó að hann sé svolítið stressaður líka þar sem hann hafi smávegis áhyggjur af því að hafa kannski ekki komið nógu vel á framfæri í myndinni þeim áhrifum sem Ísland og Íslendingasögurnar höfðu raunverulega á Tolkien. „Já, það er alveg spurning hvort það sé kannski bara öruggara að halda sig inni á hótelherbergi á Íslandi,“ segir hann í gríni og hlær.

Sjálfur mikill Tolkien-aðdáandi

AUGLÝSING


Umrædd mynd rekur sögu J.R.R. Tolkiens á yngri árum hans, þar sem ástir, falleg vinátta og fyrri heimsstyrjöldin fléttast m.a. inn í atburðarásina, auk þess sem áhorfendur fá innsýn í einstakt hugarflug rithöfundarins. Sjálfur segist Dome hafa lesið Hringadróttinssögu Tolkiens 12-13 ára og upp frá því hafi hann orðið aðdáandi höfundarins. Það hafi því ekki komið annað til greina en að taka að sér leikstjórn myndarinnar þegar eitt besta kvikmyndaverið í Hollywood, Fox Searchlight, bauð honum verkefnið, jafnvel þótt hann vissi að því ætti eftir að fylgja mikil álag. „Auðvitað var ég stressaður yfir því að taka það að mér,“ játar hann fúslega. „Það er mikil pressa sem fylgir því þegar maður ræðst í gerð myndar um jafníkoníska persónu og Tolkien. Ég vissi alveg að hver einasti Tolkien-fræðingur í heiminum ætti eftir að finna að minnstu breytingum sem yrðu gerðar á sögu hans. Ég er þó stoltur af útkomunni og stend með þeim listrænu ákvörðunum sem voru teknar við gerð myndarinnar. Ég hugsa að þetta sé mynd sem flestir geta haft gaman af. Fyrir utan það elskar mamma mín hana og mér finnst eiginlega varla hægt að biðja um meira!“

Var eitthvað í sögu Tolkien sem kom þér á óvart? „Já, eiginlega allt,“ segir hann, „því ég þekkti bara bækurnar og vissi í raun sáralítið um líf hans. Sá hann bara fyrir mér sem einhvern heldri mann með pípu að skeggræða ævintýri við rithöfundinn C.S. Lewis, eflaust eins og margir gera. Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að hann hefði átt svona dramatíska ævi; að hann hefði verið munaðarleysingi, að hann hefði misst bestu vini sína í stríðinu og að hann hefði unnið sig upp úr sárri fátækt og til metorða. Mér fannst þetta ótrúlega áhugavert og mig langaði að gera þessari sögu skil í myndinni, þótt hún fjalli um margt fleira, eins og ástir, ástríður, fantasíu og svo góðan vinskap, sem er auðvitað eins og rauður þráður í gegnum verk Tolkiens sjálfs. Þegar ég fór af stað með gerð myndarinnar ákvað ég að gera þessu öllu skil. Ég reyndi líka að setja mig í spor Tolkiens og hugsaði: Hvernig hefði Tolkien gert þessa mynd ef hann hefði verið við stjórnvölinn, jú, hann hefði haft goðsögur, rómantík og einhver furðuleg tungumál og þetta er allt að finna í myndinni.“

Nú er Tolkien ekki fyrsta myndin sem þú gerir um frægan listamann. Áður leikstýrðirðu Tom of Finland, mynd um finnska listamanninn Touko Laaksonen sem öðlaðist alþjóðlega frægð fyrir erótískar og ýktar teikningar sínar af vöðvastæltum körlum. Laðastu að ævisögum listamanna? „Já, mér finnst eitthvað heillandi við að skoða hvernig aðrir listamenn fara í gegnum lífið.  Skoða sorgir þeirra og sigra. Mér finnst líka spennandi að komast að einhverju sem enginn veit eða fáir vita og ná að miðla því til áhorfenda. Kannski er ég bara svolítill gluggagægir í mér,“ segir Dome kíminn og bætir við að annars sé svolítið skondið að segja frá því að þótt Tolkien og Laaksonen kunni að virðast ólíkir einstaklingar hafi þeir í reynd átt ótrúlega margt sameiginlegt. Þeir hafi til dæmis báðir barist í stríðinu, glímt við áfallastreituröskun, verið sögumenn og teiknarar, sinnt öðrum störfum með fram listinni og orðið frægir tiltölulega seint, þannig að frægðin hafði ekki mikil áhrif á þá. „Og ævi beggja er svo heillandi að náungi frá Finnlandi ákvað að gera um þá kvikmyndir og láta þá fá lungnabólgu í þeim báðum,“ segir hann og hlær.

Hildur á eftir að verða stórt nafn

Talandi um Tom of Finland komu nokkrir Íslendingar að gerð þeirrar myndir, Ingvar Þórðarson var einn framleiðenda, Þorsteinn Bachmann fór með veigamikið hlutverk og Hildur Guðnadóttir samdi tónlistina. Þannig að þú hefur unnið svolítið með Íslendingum. „Já, mikið rétt,“ segir Dome og tekst allur á loft. „Ég rakst einmitt á Hildi á Golden Globe-hátíðinni og eftir að hún vann Óskarsverðlaunin, og mér fannst svo gaman að sjá hvað hún var sjálfri sér lík. Hún er frábær listamaður sem nær einstöku sambandi við sögur og sögupersónur, hún á eftir að verða eitt af stóru nöfnunum í bransanum,“ segir hann og bætir við að honum finnist gott að vinna með Íslendingum og þyki mikið til íslenskra listamanna koma.

„Ég rakst einmitt á Hildi á Golden Globe-hátíðinni og eftir að hún vann Óskarsverðlaunin, og mér fannst svo gaman að sjá hvað hún var sjálfri sér lík.“

„Kvikmyndir Friðriks Þórs Friðrikssonar hafa til dæmis haft mikil áhrif á mig, eins og Börn náttúrunnar, Djöflaeyjan og Mamma Gógó. Ég hafði líka mjög gaman af Hrútum, Hross í oss og fleiri nýrri myndum. Og ég er ekki bara að hrósa út í loftið því það er staðreynd að ungt íslenskt kvikmyndagerðarfólk nýtur virðingar í bransanum um allan heim,“ segir hann og kveðst auk þess hafa gaman af tónlist listamanna eins og Ólafs Arnalds, Bjarkar og fleiri.

Þú ert s.s. vel kunnugur landi og þjóð? „Já, já, ég hef farið í bæði vinnuferðir og frí til Íslands, eignast þar góða vini eins og Friðrik Þór og Ingvar Þórðarson og komist að raun um að almennt á ég mjög auðvelt með að umgangast Íslendinga. Við Finnar eigum náttúrlega margt sameiginlegt með ykkur. Við höfum þessa sömu þörf fyrir hamingju og sama skilning á náttúrunni og samofið því er einhver depurð sem er erfitt að útskýra. En já, ætli þetta sé ekki í svona sjötta eða sjöunda skipti sem ég ferðast til Íslands.“

Dome hefur unnið með fjölmörgum Íslendingum að gerð mynda sinna. Þar á meðal
Hilmari Erni Hilmarssyni sem samdi tónlistina við mynd hans The Grump. „Það er bara gott að vinna með Íslendingum og ég ætla að gera meira af því í framtíðinni.“

Nú ætlarðu að vera viðstaddur sýningu Tolkien í Bíó Paradís föstudagskvöldið 13. mars, hvað ætlarðu að gera annað á Íslandi? „Ja, ef ég hef tíma væri nú gaman að skella sér í náttúrulaug,“ segir hann dreyminn. „Fara út á að borða á Fiskmarkaðinn og finna einhverja geggjaða bari. Ég á flug bókað til Helskinki á laugardag og til Los Angeles daginn eftir, en ég myndi nú alveg skilja það, svona í ljósi aðstæðna, ef ég kæmist ekki. Kannski ég gleymi mér bara við að fylgjast með hestum nærri einhverjum íslenskum sveitabæ sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir og umboðsmennirnir mínir í LA verða orðnir viðþolslausir að vita hvar í fjandanum ég sé niðurkominn. Hver veit. Við skulum alla vega segja að ég geri mér miklar vonir um að skemmta mér vel á Íslandi.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is