Miðvikudagur 27. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Batman á góðu flugi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Unnendur myndasagna eiga gott í vændum því verslunin Nexus, sem sérhæfir sig meðal annars í sölu á myndasögum og borðspilum, hyggst gefa allar Batman-sögur skoska myndasöguhöfundarins Grant Morrison út á íslensku. Þegar hafa nokkrar sagnanna litið dagsins ljós undir merkjum Blökunnar og nokkur eldri verk að auki og segir ritstjórinn Pétur Yngvi Leósson að vegna góðra undirtekta sé stefnt að því að halda starfinu áfram.

„Útgáfan gengur vonum framar,“ segir Pétur, þegar hann er spurður hvort útgáfan hreinlega beri sig og sem dæmi nefnir hann að það sé jafnvel eftirspurn eftir Blöku-bókunum frá íslenskum söfnurum sem eru búsettir í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Forvarsmenn útgáfunnar hafa áður sagt að hún sé fyrst og fremst ástríðuverkefni sem miði meðal annars að því að fá ungmenni til að lesa, en Pétur segist ekki vera með upplýsingar í höndunum um aldursskiptingu kaupenda. Með hliðsjón af fyrrgreindu sé þó vel hægt að ráðgera að aldursbilið sé breitt, enda höfði sögurnar um Batman til fólks á öllum aldri.

„Mér til mikillar furðu höfðu sumar af þeim aðeins varðveist í svart-hvítu á mikrófilmum sem voru geymdar í skjalahirslum DC Comics.“

Auðheyrt er að mikill hugur er í Nexus-fólki því Pétur bætir við að langtímatakmarkið sé svo að gefa út á næstu þremur til fjórum árum allar Batman-sögur skoska myndasöguhöfundarins Grant Morrison, sem komu út á árunum 2006-2013, ásamt öllum lykilsögunum sem Morrison vitnar í í verkum sínum. Hann segist ekki eiga von á öðru en að það gangi upp enda hafi viðtökurnar verið góðar og samstarfið við bandaríska myndasögufyrirtækið DC Comics, sem gefur út sögurnar um Batman og ýmsar fleiri hetjur, gengið vel.
„DC-mönnum er alveg ljóst að við nálgumst þýðingar og útlitsbreytingar af virðingu og auðmýkt og þeir hafa mjög gaman af öllum gömlu kápunum sem við erum búin að íslenska að fullu,“ segir hann léttur í bragði.

DC hafði efasemdir í upphafi

Myndasögurnar sem Nexus hefur íslenskað og gefið út undir merkjum Blökunnar samanstanda af nokkrum eldri sögum og svo fyrrnefndum sögum Morrison sem hófust með níundu bók Blökunnar, sem kom út fyrir jól. Nexus raðar sögunum þannig að saman mynda sögur Morrisons og eldri sögurnar hálfgerða ævisögu Batmans, en að sögn Péturs hafa þær aldrei verið settar fram í réttri lesröð áður. Spurður hvers vegna þessi leið hafi verið farin segir hann að sögur Morrisons séu einfaldlega áhugaverðustu ofurhetjumyndasögur sem hafi rekið á fjörur hans og fyrst ákveðið hafi verið að gefa þær út hafi hreinlega ekki verið hægt að sleppa eldri sögunum sem Morrison vísar reglulega í.

„Það sem vakti fyrir Morrison á sínum tíma var að skrifa einhvers konar ímynduð Ragnarök fyrir heildarútgáfusögu Leðurblökumannsins með því að blanda langri útgáfusögu hans í plottið,“ útskýrir hann. „Sögurnar hans vitna þannig stundum í löngu gleymdar sögur, sem sumar hverjar voru ófáanlegar þegar sögur Morrisons sjálfs voru að koma út. Ég kolféll fyrir sögunni hans og fór að fínkemba öll viðtöl við hann til að skrásetja nákvæmlega hvaða sögur þetta væru sem vitnað væri í. Mér til mikillar furðu höfðu sumar af þeim aðeins varðveist í svart-hvítu á mikrófilmum sem voru geymdar í skjalahirslum DC Comics,“ lýsir hann og viðurkennir að þegar hann hafði fyrst samband við DC um að íslenska sögur Morrisons hafi fyrirtækið talið að sagan væri of flókin fyrir nýja lesendur. „En eftir að þeir sáu rannsóknarvinnuna á bak við útgáfuplanið okkar gáfu þeir okkur grænt ljós til að hefjast handa við að gefa þessar eldri sögur út í réttri lesröð.“

Forfallinn myndasöguaðdáandi

Undirbúningur að útgáfu á myndasögunum hófst í janúar 2018 og 16. nóvember sama ár, nánar tiltekið á Degi íslenskrar tungu, leit fyrsta Blakan, þ.e. Leðurblakan #8, dagsins ljós. „Þetta er eina Blakan sem er tuttugu síðna fríblað en ekki þykk bók, en því var dreift til grunnskólabarna í 7.-10. bekk um land allt. Blaka #1 kom svo út í kjölfarið, í byrjun desember það ár,“ segir Pétur, en hann hefur gegnt starfi ritstjóra verkefnisins frá upphafi, sér um val á sögum, annast textauppsetningu, leturval og myndvinnslu og hefur auk þess starfað sem þýðandi sagnanna frá og með sjöundu og níundu bók og upp úr.

- Auglýsing -

Þegar við spjöllum um útgáfuna fer ekki á milli mála að Pétur hefur brennandi ástríðu fyrir starfinu, enda segist hann hafa lesið myndasögur frá því hann man eftir sér. „Ég byrjaði að rembast við að lesa hasarblöð á ensku fimm ára, árið 1979 þegar ég fékk Daredevil #158 í hendurnar, en það er fyrsta hasarblaðið sem ég eignaðist og fyrsta Daredevil-sagan sem myndasögugoðið Frank Miller teiknaði. Ég var svo þrettán ára þegar ég fór að panta mér hasarblöð frá Bandaríkjunum,“ rifjar hann glaðlega upp og játar að hann sé enn ákafur safnari með óþrjótandi áhuga á flestu sem tengist góðum hasarblöðum.

Hann segir að það sé því algjör draumur að fá að koma sögunum yfir á íslensku. Þetta sé í raun starf sem hann hafi séð í hillingum þegar hann var yngri en þá hafi hann oft óskað sér að hægt væri að nálgast sambærilegar sögur með almennilegri leturgerð og í þýðingu svipaðri í gæðum og íslenska þýðingin á Sögunni endalausu eftir Michael Ende. „En ekki vandræðalegar beinþýðingar og steingelda prentfonta eins og tíðkaðist hjá Siglufjarðarprentsmiðjunni og fleirum í den. Ég safnaði öllum blöðunum frá Sigló en beinþýðingarnar hjá þeim og leturvalið komu mér hreinlega í uppnám,“ segir hann og hlær.
Spurður hvenær sé svo von á næstu Blöku-bók segir hann að það sé nú ekki langt í það, þar sem sú tíunda sé þegar farin í prentun. Þeir sem séu áhugasamir geti síðan alltaf fylgst með frekari fregnum á Facebook-síðu Nexus.

_______________________________________________________________________

- Auglýsing -

Kafað ofan í undarlegustu mál kuflklædda krossfarans

Eins og fram kemur hér að ofan áætlar Nexus að gefa út allar Batman-sögur Grant Morrisons, svokölluð Blöku-Ragnarök, sex bækur á ári, ásamt lykilsögunum sem Morrison vitnar í. „Saga Morrisons hefst s.s. í níundu bók af Blöku sem kom út rétt fyrir jól,“ segir Pétur og bætir við að hún sé hlaðin tilvísunum í eldri lykilsögur, sem birtust í fyrstu átta bókunum af Blökunni. „Í fyrstu Blöku ársins, tíundu bókinni, er síðan farið í næstu fjóra kaflana í sögu Morrisons, upprunalega Batman #663, 664, 665 og 666, frá árinu 2007,“ heldur hann áfram. „Þar afhjúpar hetjan Batman m.a. svokallaða Svarta málaskrá, þ.e. leynilega skrá sem hann hefur haldið yfir öll furðulegustu málin sem hann hefur lent í í gegnum tíðina, svona svolítið í anda X-Files, með vísanir í blöð frá 6. áratugnum, þar sem söghetjan glímir við geimverur og ýmsar aðrar furðuverur.“

Pétur segir að sögurnar sem Morrison vitnar í séu stundum sögur sem margir Batman-aðdáendur hafi helst viljað gleyma, vegna þess hversu absúrd og barnalegar þær þyki. En höfundar þeirra hafi einfaldlega neyðst til að taka U-beygju í efnistökum á sínum sem rekja megi til ársins 1954 þegar bandaríski geðlæknirinn Frederic Wertham stóð fyrir áróðursherð gegn myndasögum og höfundum þeirra sem lauk með því að lögum var komið yfir þetta söguform og ýmislegt ritskoðað. „Myndasögur sem löguðu sig að stöðlum löggjafarinnar voru þannig gefnar út með litlum stimpli efst í hægra horni sem á stóð „Samþykkt af myndasögueftirlitinu“,“ segir hann, „en það átti að gefa til kynna að þær hefðu að geyma barnvænt efni. Þetta útilokaði m.a. raunsæjar lýsingar á glæpum í blöðunum sem skýrir meðal annars af hverju glæpamenn fóru að víkja fyrir geimverum og öðrum furðuverum í Batman-sögunum og drungalegt sögusvið Gotham-borgar tók að minna á litríka djass-klúbba.“

Í hugum margra aðdáenda stendur þetta tímabil eftir sem hálfgerður smánarblettur á sögu Batmans, að sögn Péturs. „En sú staðreynd að söguhetjan gat þolað tæpan áratug af alls konar furðulegheitum án þess að glata aðdráttarafli sínu vakti hins vegar áhuga Morrisons,“ bætir hann við. „Og hann fékk þá snilldarhugmynd að nota þessar sögur til að skoða hetjuna í nýju ljósi með því að kynna til sögunnar fyrrnefnda Svarta málaskrá, sem hefur að geyma öll furðulegustu málin sem Batman hefur lent í. Og þetta notar Morrison sem undanfara að máli í eigin verki þar sem kafað er ofan í undarlegasta mál kuflklædda krossfarans til þessa, en um það er einmitt fjallað í lokakafla væntanlegrar Blöku-bókar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -