2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Margt af þessu hefur aldrei verið gert upp“

Rithöfundurinn Sólveig Jónsdóttir sendi nýlega frá sér bókina Heiður sem fjallar um fjölskyldu í Reykjavík sem sundrast þegar hinn norður-írski faðir yfirgefur eiginkonu og dóttur og tekur soninn með. Bókin er meðal annars byggð á raunverulegum atburðum úr lífi vina Sólveigar frá Írlandi.

 

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á Írlandi, alveg frá því að ég var barn,“ segir Sólveig.

Skáldsagan Heiður.

„Ég lærði stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og fór seinna í meistaranám í þjóðernishyggju og þjóðernisátökum í Edinborgarháskóla. Írlandsáhuginn minn blandaðist þá auðvitað inn í námið og ég sökkti mér vel ofan í átakasögu og sjálfstæðisbaráttu Norður-Íra og Íra. Ég fór líka að vinna á veitingastað á kvöldin með náminu og einhvern veginn hittist það þannig á að allir sem unnu þar með mér voru írskir. Við fórum að ræða þessi mál og ég komst að því að þessi átök höfðu á einn eða annan hátt haft áhrif á fjölskyldur þeirra allra. Ég kynntist svo fjölskyldum vina minna vel og bókin er að stórum hluta byggð á sönnum atburðum úr lífi þeirra frá þessum tíma. Það skipti mig þess vegna máli að koma þessum frásögnum áleiðis svo fólk viti að þó svo að búið sé að koma á friði glíma margir enn við eftirköst þessara átaka og ófriðar á einn eða annan hátt. Sjálfsmorðstíðni á Norður-Írlandi er til dæmis mjög há, og sérstaklega hjá þeim aldurshópi sem voru börn og unglingar á meðan átökin voru sem verst.“

„Langflestir voru tilbúnir að ræða þetta opinskátt en aðrir ekki. Sumum fannst það einfaldlega ekki vera eitthvað sem ætti að vera að ræða, nú þegar friður væri kominn á, en fyrir aðra var þetta einfaldlega of sársaukafullt umræðuefni til þess að vera að rifja upp.“

AUGLÝSING


Hitti fólk sem upplifði átökin

Bókin heitir Heiður sem er annars vegar nafnið á aðalsöguhetjunni og hins vegar eitt af umfjöllunarefnum sögunnar. „Hún fjallar um fjölskyldu í Reykjavík í byrjun 9. áratugarins. Faðirinn er norður-írskur en mamman er íslensk. Saman eiga þau son og dóttur, Dylan og Heiði. Einn daginn stingur pabbinn af til Norður-Írlands og tekur drenginn með. Eftir sitja mæðgurnar og það er ekki fyrr en 28 árum síðar sem Dylan hefur samband við Heiði og biður hana um hjálp. Í kjölfarið fer af stað atburðarás þar sem hún reynir meðal annars að komast að því hvað varð til þess að faðir hennar sundraði fjölskyldunni og hvað það var sem honum þótti mikilvægara í átökunum á Norður-Írlandi en friðsælt fjölskyldulífið á Íslandi,“ segir Sólveig.

Mikil rannsóknarvinna liggur að baki bókinni, Sólveig las sér heilmikið til í náminu í Edinborg á sínum tíma og hefur fylgst vel með gangi mála á Norður-Írlandi síðan. „Svo horfði ég á fullt af heimildamyndum, las bæði fræðibækur og dagbækur liðsmanna Írska lýðveldishersins og endurminningar venjulegs fólks frá þessum tíma. Mest lagði ég þó upp úr að fá að heyra sögur frá fólkinu í kringum mig á Norður-Írlandi, fá þetta beint í æð frá þeim sem upplifðu þetta á eigin skinni. Langflestir voru tilbúnir að ræða þetta opinskátt en aðrir ekki. Sumum fannst það einfaldlega ekki vera eitthvað sem ætti að vera að ræða, nú þegar friður væri kominn á, en fyrir aðra var þetta einfaldlega of sársaukafullt umræðuefni til þess að vera að rifja upp. Það kom mér svo sem ekki á óvart að fólk ætti líka erfitt með að tala um þetta. Margt af því sem gerðist á þessum tíma hefur aldrei verið gert upp, fólk ekki fengið réttlæti fyrir sig og sína.“

Sólveig Jónsdóttir sendi nýlega frá sér sína aðra skáldsögu sem ber nafnið Heiður og fjallar meðal annars um átökin í Norður-Írlandi. Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Bakstur prýðileg hugleiðsla

Heiður er önnur bók Sólveigar og afskaplega ólík fyrstu bókinni hennar, Korteri.

„Það er eiginlega mjög fátt sem þessar sögur eiga sameiginlegt, fyrir utan það að í báðum þeirra eru konur aðalsöguhetjurnar. Og ef til vill líka að ég leyfi mér að flakka svolítið fram og aftur í tíma í þeim báðum. En Heiður fjallar um talsvert þyngri málefni, þó svo að stærðargráða vandamála hvers og eins skapist auðvitað út frá aðstæðum þeirra hverju sinni. Ég var byrjuð að skrifa þessa bók þegar fyrsta bókin mín kom út svo hún var lengi í smíðum. Það var mjög gaman að skrifa þær báðar en mun erfiðara og meiri áskorun að skrifa Heiður,“ segir Sólveig sem nú á eftir nokkra daga í fæðingarorlofi og fer þá að starfa sem textasmiður á auglýsingastofu með fram ritstörfum.

Að auki fæst hún við matargerð og bakstur, til dæmis fyrir tímaritið Gestgjafann. „Mér þykir verulega gaman að elda og baka og hugsa almennt mjög mikið um mat og matargerð. Fyrir mér eru matargerð og uppskriftaskrif annars konar sköpunarvinna en í ritstörfunum en inn í þetta blandast líka ákveðin slökun fyrir mig. Ef ég á til dæmis eitthvað erfitt með að sofna skelli ég stundum í eins og eina köku. Það er líka alveg prýðileg hugleiðsla að horfa á eitthvað bakast í ofninum. Ég mæli með því.“

Og Sólveig er með margar hugmyndir í kollinum og langar að skrifa fleiri bækur. „Ég er byrjuð á tveimur og vonandi næ ég að ljúka annarri eða báðum áður en langt um líður. Ég hef líka verið leiðsögumaður fyrir ferðamenn á Norður-Írlandi og í Skotlandi og langar mikið til að gera meira af því. Annars þarf ég bara svolítið að fara að gíra mig upp í að fara aftur út á vinnumarkaðinn eftir ár í fæðingarorlofi, sem hefur verið alveg dásamlegur tími.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is