Föstudagur 19. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Táraðist við að sjá útkomuna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hallmark-sjónvarpsmyndin Love On Iceland, sem var kvikmynduð á Íslandi í lok síðasta árs, var frumsýnd í Bandríkjunum laugardaginn 18. janúar við góðar undirtektir, en myndin er sú fyrsta sem bandaríski sjónvarpsrisinn tekur upp hérlendis. Í samtali við Mannlíf segir Búi Baldvinsson, eigandi framleiðslufyrirtækisins Hero Productions, sem hafði, auk Arnars Knútssonar eiganda Filmus, umsjón með tökunum, að myndir Hallmark fái að meðaltali mikið áhorf og því sé myndin gífurleg landkynning.

Búi Baldvinsson, eigandi framleiðslufyrirtækisins Hero Productions.

„Þetta er ein stærsta áskriftasjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum og hún er stór víða, til dæmis í Frakklandi, Kanada og Bretlandi en það má segja að á meðan flestar sjónvarpsstöðvar hafa látið undan síga í baráttu við streymisveitur hefur Hallmark verið að vaxa. Meðaláhorf á eina mynd frá þeim er 10 milljónir manns bara fyrstu þrjá mánuðina og 80 milljónir manns fyrsta árið. Þannig að það er viðbúið að þessi mynd fái mjög mikið áhorf,“ segir Búi og bætir við að með hliðsjón af því sé um gríðarlega landkynningu að ræða. „Algjörlega. Enda eru varla liðnar nema þrjár mínútur af myndinni þegar Ísland ber fyrst á góma og í einni senu telur leiðsögumaður, leikinn af Jóel Sæmundssyni, meira að segja upp vinsæla ferðamannastaði hér. Þannig að það fer nú ekki á milli mála hvar myndin gerist,“ segir hann og hlær.

„Við höfum aldrei kynnst öðrum eins hraða.“

Umrædd mynd, Love On Iceland, er fyrsta myndin sem Hallmark lætur gera á Íslandi og hluti af svokallaðri Winterfest-seríu fyrirtækisins, sem Búi útskýrir að séu rómantískar myndir sem gerast að vetri til. Í þessu tilviki fjalli myndin um unga konu, framleiðanda hlaðvarpsþátta, sem er orðin leið á umhverfi sínu og ákveður því að fá nokkra góða vini með sér í hressingarferð til Íslands. Þegar hingað er komið hitti hún óvænt gamlan kærasta og sé ekkert sérstaklega hress með það til að byrja með en ekki líði á löngu þar til kvikni í gömlum glæðum. Búi og Arnar Knútsson, eigandi Filmus, tóku sig saman og sáu um framleiðslu á myndinni fyrir Hallmark en hún var öll tekin upp hérlendis og í höndum íslensks tökuliðs. „Einu erlendu aðilarnir voru leikstjórinn Clare Niederpruem, listræni stjórnandinn Dustin Rikard og einn aðalframleiðandinn Andrew Gernhard. Fyrir utan auðvitað aðalleikarana, Kaitlin Doubleday, Colin Donnell og Patti Murin,“ segir Búi og getur þess að þau séu öll þekkt nöfn í bransanum úti.

Magnað að klára mynd á rúmum mánuði

Búi segir mjög sjaldgæft að svona hátt hlutfall Íslendinga komi að gerð erlendra mynda hérlendis og eins sé óvenjulegt fyrir Hallmark-fyrirtækið að skjóta mynd í heilu lagi utan Bandaríkjanna og Kanada. „Venjulega eru myndirnar teknar upp í Kanada til að halda kostnaði niðri en endurgreiðslan á Íslandi gerði fyrirtækinu kleift að kvikmynda hér. En það er að sjálfsögðu ekki eina ástæðan fyrir því að Ísland varð fyrir valinu, heldur var Hallmark á höttunum eftir fallegu sögusviði og fyrrnefndur Andrew Gernhard hafði komið hingað áður, keyrt hringinn og kolfallið fyrir landinu. Það var hann sem stakk upp á því við yfirmenn hjá Hallmark að gera mynd á Íslandi.“

Að sögn Búa var Gernhard ekki sá eini sem var hrifinn, því leikstjórinn, listræni stjórnandinn og erlendu leikararnir hafi öll verið gangtekin af fegurð landsins. „Á fyrsta tökudegi vorum við í Skaftafelli og fórum með þyrlu upp á jökul og inn í íshelli. Þau höfðu aldrei upplifað annað eins og töluðu um að Ísland væri með fallegri stöðum sem þau hefðu heimsótt.“

Sjálfum fannst Búa hins vegar stórmerkilegt hvað veðurguðirnir reyndist tökuliðinu hliðhollir því meðan á tökum stóð meðal annars á Suðurnesjum og víðar geisaði allt um kring vonskuveður, rigning og rok, sem þau sluppu alfarið við. „Það magnaðasta var samt að hafa náð að skjóta heila kvikmynd á fimmtán dögum, því yfirleitt tekur það svona 25–40 daga. Við kláruðum tökur 6. desember, myndin var klippt á tveimur vikum og frumsýnd 18. janúar, aðeins rétt rúmum mánuði eftir að tökum lauk og það þrátt fyrir frídagana í kringum hátíðarnar. Það er ótrúlegt að hún hafi farið í gegnum alla eftirvinnslu á mánuði. við höfum aldrei kynnst öðrum eins hraða,“ segir hann og tekur fram að þar hafi gott starfsfólk og skipulag óneitanlega gert gæfumuninn.

- Auglýsing -

Frekara samstarf á döfinni

Spurður hvort frekara samstarfi við Hallmark sé í kortunum segist Búi reikna fastlega með því. „Forstjóri Hallmark er mjög ánægður með myndina og við heyrðum líka að Samantha Dipippo, sem er aðalframleiðandi yfir verkefninu hjá fyrirtækinu, hafi tárast við að sjá að útkomuna. Þau voru bæði yfir sig hrifin. Segjast aldrei hafa gert svona fallega mynd áður og á Twitter er fólk að tapa sér yfir íslensku náttúrunni. Þannig að stefnan er að gera eina til tvær myndir til viðbótar á þessu ári. Myndir sem verða líka alfarið teknar upp hérlendis. Það er hins vegar spurning hvort þetta verða sjálfstæðar myndir, eða hvort önnur myndin verði framhald á þessari. Það kemur bara í ljós.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -