Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Að byggja hús á sandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Eva H. Baldursdóttir

Þú hefur rétt á eigin skoðunum, en ekki eigin staðreyndum sagði Daniel nokkur Moyhan, fyrrum þingmaður, sendherra og pólitískur ráðgjafi fjögurra bandaríkjaforseta. Þó heimurinn sé eflaust um margt flóknari en sá ytri heimur sem við skynjum með skynfærunum fimm, eru sumir hlutir hafnir yfir nokkurn vafa. Þannig erum við sammála um að jörðin sé kringlótt, þyngdarafl sé til staðar, við þurfum súrefni til að lifa, og svo framvegis.

 

Þegar ég fylgist með umræðu um þriðja orkupakkann á Íslandi, verður mér iðulega hugsað til þessara fleygu orða. Í stuttu máli er þar farið með ýmsar rangfærslur – búið að spinna söguþráð sem er tiltölulega algengur hjá sumum stjórnmálamönnum. Í stuttu máli gengur það út á að taka nokkuð flókin mál, taka málið úr réttu samhengi og búa til óvin sem oft er útlenskur. Í tilviki orkupakkans er söguþráðurinn að hann sé forsendann fyrir því að útlendingurinn geti komið og tekið orkuauðlindina okkar.

Svo eru týnd til atriði til að skapa vafa eða beinlínis prjónuð vitleysa – og úr verður óttablandinn kokteill. Ekkert í orkupakkanum þriðja veitir hins vegar tilefni til yfirráða ESB eða útlendinga yfir orkuauðlindum Íslands. Að byggja sæstreng yrði alltaf sjálfstæð ákvörðun Alþingis og ríkisstjórnar, hverju sem orkupakkanum líður. Ekkert framsal íslenskra orkuauðlinda er að finna í þriðja orkupakkanum.

Þessi umræða minnir á aðra ringulreið sem varð til m.a. á pólitískri vegferð sem byggði á rangfærslum og hreinum lygum. Menn fara í ímyndaðan leiðangur um að alþjóðasamvinna sé eitthvað sem haldi aftur af þeim og láta ýmislegt út úr sér til að reyna skaða þau samskipti. Besta dæmið er Brexit.

Breska ríkisstjórnin er í dag klofin, virkar óhæf og satt best að segja – niðurlægð vegna þeirrar vegferðar. Skal engan undra enda ekki eftirsóknarvert að standa í brúnni og tala fyrir útgöngu úr ESB, sem er ekki í samræmi við yfirlýsingar um þýðingu þess fyrir kosninguna. Boris Johnson hélt ýmsu fram, t.d. árið 2016 fullyrti hann að áfram yrðu frjáls og ótakmörkuðu viðskipti fyrir Breta innan Evrópu eftir sem áður, þá yrði liðkað fyrir innflytjendum frá öðrum löndum en Evrópu (til þess að selja breskum innflytjendum að kjósa með) og það væri lítið mál að gera allskonar tvíhliðasamninga við ýmsar Evrópuþjóðir. Allar þessar fullyrðingar voru ósannindi. Þá var því haldið fram að kostnaður við Brexit yrði nánast enginn. Lord Digby Jones sagði að engin störf myndu glatast og svona má lengi telja.

- Auglýsing -

Brexit í núverandi mynd er hins vegar án aðgangs að innri markaðnum, enda ekki vilji fyrir því hjá Bretum, sem leiðir til þess að þeir njóta ekki frjálsra óheftra viðskipta lengur. Þrjár skýrslur, gefnar út í lok árs 2018, staðfestu allar að útganga muni hafa slæm áhrif á breska hagkerfið. Þúsundir starfa munu hverfa til annarra Evrópulanda og ríkisstjórnin spáir sjálf 9,3% höggi á hagkerfið ef Bretar ganga út án samnings.+

Þá dældi Daily Mail út allskonar skapandi fréttum og berum lygum um Evrópusambandið á pari við að gerðar væru kröfur um sérstaklega beygða banana, mjólkurflöskur yrðu bannaðar, kýr væru þvingaðar til að ganga með bleyjur og svo framvegis. Allt til að mála myndina af kjánalegu Evrópusambandi. Bretar standa hins vegar einir eftir kjánalegir í sjálfskapaðri kaótík á meðan talsmenn Evrópusambandsins virka yfirvegaðir, við stjórn og kurteisir – lausir við yfirgengilegar yfirlýsingar í fjölmiðlum.

Brexit var því eins og að byggja hús á sandi – rétt eins og umræða fólks gegn þriðja orkupakkanum á Íslandi. Undirstaðan var lítil sem engin, eins og gengur þegar stjórnmál byggja á rangfærslum og geta leitt til þess að stórar, afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar.

- Auglýsing -

Ef við viljum byggja hús á góðum grunni í stjórnmálum, þá byrjum við á byrjuninni. Það upphaf er t.d í íslensku stjórnarskránni en ekki í því að fara stofna EES-samstarfinu í hættu. Sé fólki alvara með að vernda íslenskar auðlindir fyrir ágangi og gróðarfíkn mannsins á kostnað almennings og náttúrunnar sjálfrar þarf að leggja ákveðnar lágmarksreglur í stjórnarskrá. Slíkt ákvæði er þegar til en deilan hefur almennt snúist um orðalagið sem varðar gjald til almennings fyrir notkun auðlinda. Hvort það eigi að koma til fullt gjald eða sanngjarnt gjald hefur t.d. verið ein umræðan. Hérna liggur aðalpólitík málsins. Í auðlindaákvæði í stjórnarskrá mætti ennfremur ákveða að umhverfið nyti vafans og hagsmuni komandi kynslóða og svona má lengi telja.

Alþjóðasamvinna byggir á því að þjóðir með sameiginlega hagsmuni græði á því að starfa saman. Það er engin þjóð þvinguð til að vera í Evrópusambandinu heldur er sérstakt ákvæði í stofnsáttmálanum sem kveður á um útgöngu, sem Brexit hefur fylgt. Það eru engar þjóðir kúgaðar til samstarfs. ESB er samstarfsvettvangur frjálsra og fullvalda þjóða um frið og alþjóðasamvinnu og innri markað. Að sama skapi er engin þjóð þvinguð til að vera í EES. Við erum í samstarfinu við ESB í gegnum þann samning af því að við græðum einfaldlega mikið á því fjárhagslega og með ýmsum öðrum beinum og óbeinum hætti. Að stofna slíku samstarfi í hættu með falsupplýsingum eins og í tilviki orkupakkans fylgir mikil ábyrgð. Í því gildir lögmálið um orsök og afleiðingu eins og í öðru í þessu lífi.

Í tilviki Brexit hafa margir velt því upp hvort útganga Breta muni veikja ESB. Í fyrstu virtist svo vera en að endingu kann því að vera öfugt farið. Þannig mun kaótík Breta verða öðrum þjóðum vitnisburður um ágæti aðildar að Evrópusambandinu. Nú eru kostir þess mun sýnilegri. Í öllu falli hafa efasemdarraddir frá öðrum Evrópuþjóðum svo gott sem koðnað niður. Þó Evrópusambandið sé ekki gallalaust samband fremur en nokkurt annað mannanna verk virðist að endingu betra að vera í því, en að standa fyrir utan. Einkum ef fólk hefur áhuga á að vera aðili sem mótar sameiginlega stefnu fyrir álfuna sem þeir tilheyra.

Þá er áhugavert að velta því fyrir sér hvort útganga Breta kunni að leiða til þess að Stóra-Bretland liðist hreinlega í sundur. Hvort það yrði afleiðing þess að leggja upp í vegferð byggða á rangfærslum. Skotar eru almennt hrifnir af því að vera í Evrópusambandinu og Brexit kann að vekja upp kröfu um aðra atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skota. Þá kann Brexit að leiða til sameiningu Írlands. Eftir stæði þá England, leifarnar af breska stórveldinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -