Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

„Saklaust grín“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari ú 35. tölublaði Mannlífs

Fyrir skemmstu greip um sig fjaðrafok í íslensku samfélagi þegar nýnasistar komu saman á Lækjartorgi, veifuðu fánum og reyndu að útbýta dreifimiðum sem innihéldu nasistaáróður.

 

Heiðvirðir borgarar ruku upp til handa og fóta og úthrópuðu mennina illmenni og aumingja og ekki af ástæðulausu enda er hugmyndafræðin sem nýnasistar aðhyllast og gengur meðal annars út á kynþáttahyggju vægast sagt ógeðfelld.

Það skein í gegn að með fordæmingunum vildi þetta góða fólk aðgreina sig frá þessu liði og þvo hendur sínar af því, enda vill fátt vel meinandi fólk viðurkenna að eiga eitthvað sameiginlegt með einstaklingum sem eru gegnumsýrðir af hatri á fólki af öðrum kynþáttum, innflytjendum og allskonar minnihlutahópum. Viðurkenna að það sé rasistar. En eru skilin á milli þessara hópa endilega svona skýr? Getur verið að fleiri séu nálægari fordómaseggjunum í hugsun en þeir vilja viðurkenna?

Í Mannlífi í dag stíga fram þrír ólíkir einstaklingar sem eiga sameiginlegt að hafa upplifað kynþáttafordóma hérlendis, allt frá óviðeigandi athugasemdum sem þeir hafa fengið vegna húðlitar síns upp í svívirðingar. Sögur þeirra sýna að kynþáttahatur á Íslandi er langt frá því að vera á undanhaldi þótt einhverjir vilji kannski trúa öðru. Að slíkt hatur er ekki eitthvað eitt augljóst fyrirbæri og það er langt í frá að það einskorðist við tiltekinn hóp í samfélaginu. Að það sýnir sig ekki endilega í líkamlegu ofbeldi. Birtingarmyndirnar geta verið af ýmsum toga, bæði sýnilegar og duldar. Margir telja sig nefnilega ef til vill vera lausa við fordóma en átta sig ekki á þeim duldu fordómum sem búa innra með þeim sjálfum. Alhæfingar eða „saklaust grín“ sem byggja á staðalímyndum um kynþætti er sem dæmi kannski ekki jafnalvarlegt í augum sumra og dreifing nasistaáróðurs, en hvað annað endurspeglar slíkt en undirliggjandi fordóma?

„Alhæfingar eða „saklaust grín“ sem byggja á staðalímyndum um kynþætti er sem dæmi kannski ekki jafnalvarlegt í augum sumra og dreifing nasistaáróðurs, en hvað annað endurspeglar slíkt en undirliggjandi fordóma?“

Einn viðmælandi Mannlífs segir að Íslendingar eigi erfitt með að horfast í augu við stöðuna. Þegar hann segir fólki frá því hverju hann mætir, trúir fólk honum ekki og segir að þetta sé ekki svona á Íslandi. Það lokar augunum fyrir ástandinu. En auðvitað gengur það ekki.

- Auglýsing -

Það þarf að opna umræðuna um þessi mál af fullum krafti. Hlusta á sjónarmið fólks af öðrum kynþáttum. Ganga harðar fram í því að farið sé eftir lögum gegn hatursorðum. Hætta að moka atkvæðum í flokka sem ala leynt og ljóst á kynþáttafordómum. Svo þurfum við öll, hvert og eitt, að líta í eigin barm, því ef við stöndum okkur að því að leiða kynþáttafordóma hjá okkur og jafnvel afgreiða þá sem grín þá erum við sjálf alveg jafnábyrg fyrir því að leyfa fordómunum að grassera.

Það er nefnilega auðvelt að sigta út nasistana og úthrópa þá, réttilega, en hvað erum við sjálf að gera þegar kemur að þessum málaflokki? Það er stóra spurningin.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -