Laugardagur 20. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Veggjöld eða fátækraskattur?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst
Eftir / Stefán Pálsson

Hugmyndir um einhvers konar veggjöld eru komnar til umræðu og verða líklega eitt helsta pólitíska deilumálið næstu misserin.

Veggjöldin tengjast hugmyndum um stórframkvæmdir í samgöngumálum, en eru líka viðbrögð við þeirri staðreynd að rafbílavæðingin mun innan fárra ára kippa fótunum undan því kerfi olíugjalda sem staðið hefur undir vegagerð í landinu. Einnig koma til umferðarsjónarmið og baráttan gegn losun gróðurhúsalofttegunda.

Í Noregi, sem kominn er miklu lengra í þess háttar gjaldtöku, hafa helstu gagnrýnendur hennar reynst býsna óvæntir bólfélagar: annars vegar hægri-popúlistarnir í Framfaraflokknum og hins vegar þau sem gagnrýna notendagjöld í samgöngum frá vinstrivængnum.

Teikn eru uppi um að sama mynstur sé að líta dagsins ljós hér heima. Auðvelt er slá út af borðinu gagnrýni þeirra lýðskrumara sem þræta fyrir hamfarahlýnun af mannavöldum eða álíta hana í það minnsta ekki nógu mikilvæga til að það taki sig að hrófla við núverandi lífsháttum og þá sérstaklega einkabílnum heittelskaða. Hin sjónarmiðin þarf frjálslynt fólk á vinstri vængnum hins vegar að taka alvarlega.

Veggjöld eru sögð skattur sem leggist þyngst á þá efnaminni. Það er í sjálfu sér rétt og gildir jafnframt um núverandi olíugjaldskerfi. En sú gagnrýni á allt eins við um virðisaukaskatt. Það er hinum fátæka þungbærara en auðmanninum að kaupa mjólkurpott en lausnin á því getur varla verið sú að tekjutengja vaskinn! Að byggja fjármögnun hins opinbera alfarið á tekjusköttum er áhugaverð fræðileg umræða, en ekki sérlega raunhæf til skemmri tíma litið.

Neyslustýrandi skattar, til dæmis á áfengi og tóbak og grænir skattar, svo sem á úrgangslosun, lenda eðli málsins samkvæmt þyngra á tekjulágum. Lausnin á því hlýtur að vera sú að bæta kjörin en ekki að hafna neyslustýringu og grænu skattkerfi. Eðlilega vill verkalýðshreyfingin standa vörð um hag síns fólks, en á sama hátt og hún berst ekki fyrir að tóbaksverðið lækki í nafni félagslegs jöfnuðar, þá getur hún ekki heimtað óbreyttar akstursvenjur í nafni kjarabaráttu nú á tímum hamfarahlýnunar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -