2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Á meðan við sváfum …

SÍÐAST EN EKKI SÍST
Eftir / Stefán Pálsson

Fyrir þremur mánuðum síðan greindist fyrsta COVID-smitið á Íslandi. Um þær mundir var heimsfaraldurinn að stinga sér niður í hverju landinu á fætur öðru í okkar heimshluta og upp frá því fór öll okkar tilvera og allir fréttatímar að snúast um smittíðni, hjarðónæmi, samkomubönn, deilur um nytsemi öndunargríma og misráðin lækningaráð Bandaríkjaforseta.

Fréttirnar af COVID-faraldrinum hafa rutt öllu öðru úr erlendum fréttum, auk þess sem helstu fjölmiðlar hafa kappkostað að kalla fréttamenn sína heim frá afskekktum svæðum sem viðbragð við sóttinni. Átakasvæði sem daglega var fjallað um í blöðum og ljósvakamiðlum virðast horfin sjónum okkar. En jörðin heldur nú samt áfram að snúast.

Ísraelsstjórn er staðráðin í að nýta sér ringulreið heimsfaraldursins út í ystu æsar. Þrátt fyrir fúafen spillingar og mútuþægni hefur Netanyahu enn tekist að hanga á völdum í landinu. Engin von er til þess að nokkur þau stjórnmálaöfl komist þar til áhrifa sem nálgast það að geta stuðlað að friði. Til þess eru vænisýkin og fasisminn orðin of rótgróin í Ísrael.

AUGLÝSING


Hin nýja ríkisstjórn stefnir að því í sumar að innlima stóran hluta Vesturbakkans og kippa þannig fótunum undan ríki Palestínumanna. Þau áform njóta fullrar blessunar Bandaríkjastjórnar, sem jafnframt gefur samþykktum Sameinuðu þjóðanna langt nef með því að færa sendiráð sitt til Jerúsalem.

Ef svo fer sem horfir mun heimsbyggðin í júlímánuði – ef hún verður vöknuð úr COVID-rotinu – fylgjast með þungvopnuðum Ísraelsher valta yfir örvæntingarfulla og vopnlausa Palestínumenn og skilja þá eftir með einangraðar landspildur afmörkuðum af múrum og vegartálmum. Eina afleiðing þessa getur verið sú að breyta palestínsku þjóðinni í réttlausa undirstétt í eigin landi.

Það eru síðustu forvöð að bregðast við áður en þessi dapurlega framtíðarsýn raungerist. Alþjóðasamfélagið verður að láta í sér heyra og þar er sérlega rík ábyrgð okkar, sem viðurkenndum Palestínu sem sjálfstætt ríki langt á undan nágrannaþjóðunum.

Viltu birta pistil á mannlif.is? Sendu okkur línu.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum